Þórarinn Víkingur Sveinsson húsasmíðameistari fæddist á Akranesi 28. september 1959. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 15. mars 2025.

Foreldrar Þórarins voru Guðrún Elsa Þorsteinsdóttir kennari, f. 19. september 1933. á Vilmundarstöðum í Reykholtsdal, Borgarfirði, d. 16. júní 2023, og Sveinn Víkingur Þórarinsson kennari, f. 10 desember 1934 á Búðum við Fáskrúðsfjörð, d. 2. mars 2023. Bræður Þórarins eru Þorsteinn Víkingur, húsasmiður, f. 29. júní 1958, og Árni Víkingur sálfræðingur, f. 30. maí 1967.

Þórarinn var í sambúð með Þóru Sveinsdóttur leikskólakennara, f. 5. febrúar 1964, frá 1986 til 2012. Dætur þeirra eru Arnrún Sæby, doktorsnemi við HÍ, f. 26. júní 1988, maki Hlynur Þór Hjaltason, deildarstjóri öryggis og heilsu hjá Colas, f. 16. júlí 1980, og Heiðrún Sæby, sölu- og markaðsfulltrúi hjá DHL, f. 21. febrúar 1995, maki Andreas Ö.M. Aðalsteinsson, deidarstjóri hjá Sahara, f. 30. nóvember 1989. Börn þeirra eru Theodór Malmquist, f. 4. september 2021, og Kara Kristín, f. 7. september 2024. Fósturdóttir Þórarins er Guðrún Sæby, f. 26. apríl 1984. Börn hennar eru Hrafnkell Pálmi Hrafnkelsson, f. 12. september 2007, Benjamín Björgvinsson, f. 7. apríl 2020, og Dögg Sæby Björgvinsdóttir, f. 17. maí 2021.

Sambýliskona Þórarins í áratug er Sigrún Bjartmarz hjúkrunarfræðingur, f. 1 ágúst 1962.

Þórarinn ólst upp á Úlfsstöðum í Reykholtsdal, gekk í Kleppjárnsreykjaskóla, Héraðsskólann í Reykholti, Menntaskólann á Ísafirði, og lauk síðar sveinsprófi í trésmíðum við Iðnskólann í Reykjavík í júní 1983. Þórarinn starfaði við mörg stórverk sem smiður á níunda áratugnum, þar má telja brúna yfir Borgarfjörð og byggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hann fluttist með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar vorið 1989, þar sem hann vann sem smiður í rúmt ár. Hann sneri heim til Íslands haustið 1990 og fór þá í nám í iðnrekstrarfræði við Tækniskóla Íslands (nú HR) og útskrifaðist sem byggingaiðnfræðingur árið 1993. Hann varð húsasmíðameistari vorið 1994 og starfaði mest sem sjálfstæður verktaki eftir það.

Þórarinn verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 25. mars 2025, klukkan 13.

Elsku pabbi minn, það er svo sárt og erfitt að þurfa að kveðja þig. Það er erfitt að hugsa um og sjá fyrir sér lífið fram undan án þín. Söknuðurinn er gríðarlegur.

Pabbi var einstakur faðir, eitt mesta gull af manni. Hann var svo heill og tær, ljúfur, hlýr, auðmjúkur, jákvæður, duglegur, kærleiksríkur og svo margt fleira. Pabbi var mín helsta fyrirmynd í lífinu, hann var kletturinn minn, alltaf til staðar og ávallt tilbúinn að rétta út hjálparhönd. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég minnist pabba. Þá eru minningarnar margar og samverustundirnar sem við áttum, sem alltaf voru fullar af gleði, hlátri, umhyggju, visku og faðmlögum. Okkar samverustundir voru ómetanlegar og minningarnar afar dýrmætar.

Elsku hjartans pabbi minn, ég á eftir að sakna þín svo mikið og nærveru þinnar, sakna þess að: knúsa þig, geta snert þig, sjá þig brosa, geta hringt í þig, heyra röddina þína, heyra hláturinn þinn, eiga fleiri samverustundir, spjalla og brasa eitthvað saman. Ég elska þig svo mikið.

Eftirfarandi ljóð er tileinkað þér elsku pabbi minn, leiðarljósið mitt og engillinn minn.

Elsku pabbi

Ég gæti skrifað heila bók

Um minningar og hvernig þú lifir áfram

Þú ert svo mikið gæðablóð

Elsku pabbi, þú ert mér svo kær

Einstakur faðir, svo heill og tær

Dugnaðarforkur og orkan þín svo skær

Hugljúfi allra, svo nærandi og fær

Elsku pabbi, ég er svo stolt af þér

Frá því að ég var lítil stelpa

hefur þú haldið í höndina á mér

Þú kenndir mér á lífið, fræddir mig um svo margt

Þú leiddir mig áfram, þú gafst mér allt

Elsku pabbi, þú ert mitt leiðarljós

Gæðastundir við áttum og af þeim fékk ég aldrei nóg,

með þér vildi ég alltaf vera og ávallt þiggja ráð,

þú komst með lausnir, varst alltaf svo klár

Elsku pabbi, þú varst alltaf svo bjartsýnn

Og öll markmið voru klár

Þú ætlaðir að byggja og lifa í
mörg ár

Í sveitinni vildir þú vera

þar sem æskan þín lá

Njóta þar lífsins og eiga þín elliár

Elsku hjartans pabbi, þú fékkst
ekki val

Þinn tími kom of snemma

og enginn vildi það

Tárin fóru að streyma og allt stóð
í stað

Verulegur missir að eiga þig ekki lengur að

Elsku hjartans pabbi, þú lýstir upp heiminn minn,

en núna ertu farinn

Engilinn minn

Ég elska þig svo mikið

Og að sakna þín verður sárt

Með sársaukanum mun ég læra
að lifa

Og minnast þín á allan hátt

Þín kæra dóttir,

Arnrún Sæby Þórarinsdóttir.

Með sorg í hjarta kveð ég elsku föður minn. Það er erfitt að hugsa til þess að þurfa halda áfram veginn án hans og að börnin mín fái ekki að kynnast honum betur. Pabbi var mín stoð og stytta í lífinu, hjá honum fann ég alltaf fyrir öryggi, ást og frið. Hann var fyrstur til að rétta fram hjálparhönd og ég fann alltaf fyrir ómetanlegum stuðningi frá honum í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Það sem ég mun sakna hvað mest eru knúsin hans og að mæta honum brosandi með opinn faðminn. Ég gæfi allt til þess að fá þess að fá að knúsa hann aftur.

Það er líka svo margs að minnast, margar samverustundir, mörg ferðalög, mikið hlegið og mikið gaman. Pabbi elskaði náttúruna og að ferðast innanlands sem litaði stóran part af minni æsku. Á sumrin var haldið af stað í nokkurra vikna útilegur þar sem veðrið réði ferðinni. Hann lagði mikið upp úr því að ég þekkti landið mitt og sögu þeirra staða sem við skoðuðum, sem ég er svo þakklát fyrir í dag. Pabbi var glaðlyndur og einstaklega hlýr, það var alltaf svo gaman að spjalla við hann um allt og ekkert. Pabbi elskaði líka að vera afi, ég mun aldrei gleyma hvað hann ljómaði þegar hann sá barnabörnin sín í fyrsta sinn og hvað hann var stoltur. Hann vildi allt fyrir þau gera og naut þess að fá að eyða tíma með þeim.

„Ég elska þig, takk fyrir að vera hjá mér,“ voru ein síðustu orðin sem hann sagði við mig áður en hann fór. Ég elska þig líka, elsku pabbi minn, og ég veit að þú vakir alltaf yfir mér. Góða ferð inn í Sumarlandið, þar verður tekið vel á móti þér.

Heiðrún Sæby Þórarinsdóttir.

Stórt skarð var höggvið í líf margra þegar Þórarinn bróðir, faðir, elskhugi, afi, tengdafaðir, frændi, dóttursonur og vinur féll frá. Hann hafði einstaka útgeislun, hlýju, velvilja, og gleði, sem skilur eftir sig ljúfar minningar hjá þeim sem voru svo lánsamir að kynnast honum. Og í því felst sorgin, að sjá ekki meir brosið hans, finna nærveru hans, né eiga ný ævintýri saman á þessari jörðu. En þar liggur líka mín blessun, við bræður áttum saman stórkostlegar ferðir á ólíkum stöðum, eins og djúpt inn í ósnortna náttúru Arizona svo og náttúru Íslands. Ég hafði þann heiður að ganga með honum eins langt og lifandi maður getur, þegar hann lagði í sína hinstu för, þegar lífsgeislinn þvarr dag frá degi vegna veikinda.

Þórarinn, trésmiðurinn, kenndi mér, sálfræðingnum, tilfinningalegan heiðarleika, gildi þess að fela ekki tilfinningar sínar og taka á hlutunum strax. Hann kenndi mér að vera betri maður, vera bjartsýnn og að gefast aldrei upp, leggja allt í það sem máli skiptir. Þín verður sárt saknað, elsku bróðir.

Árni Víkingur.

Flýg ég af hnetti hnattar til

hef ég þar góða fylgd.

(Grímur Thomsen)

Þórarinn Víkingur frændi minn bar með sóma réttnefnið. Hann var víkingur til allra verka, áræðinn og traustur, friðsamur og sáttfús en ákveðinn og fastur fyrir ef að honum var sótt. Einn hinna góðlyndu og framsæknu manna af víkingakyni sem byggja upp þjóðfélög og koma þar á góðri skipan, en forðast áleitni og illindi.

Við áttum mikið saman að sælda frá barnsaldri fram að fullorðinsárum. Sinntum snúningum fyrir afa okkar og ömmu á Úlfsstöðum í Hálsasveit, sóttum kýrnar og hjálpuðum við mjaltir, rákum fé úr túninu flesta morgna, smöluðum hálsinn ofan bæjarins og fórum í útreiðar þegar færi gafst. Á kvöldin var svo hamast í boltaleik og öðrum íþróttum fram að háttatíma. Þegar komið var fram á unglingsár tókum við smám saman við hinum stærri sumarverkum á bænum ásamt frændsystkinum; löguðum girðingar í landareigninni, bárum á túnin, stungum út úr fjárhúsum og sinntum heyskap að þeirrar tíðar hætti. Stundum næddi norðanvindur um okkur í vorverkunum en flest voru störfin ánægjuleg og ávallt var gott að vinna með Þórarni. Hann varð fljótt laginn við öll störf og fór óhræddur nýjar leiðir við verkin. 17 ára gamlir gengum við báðir í vinnuflokk Aðalsteins Símonarsonar á Laufskálum og vorum nokkur sumur við lóðavinnu á Bifröst, í Munaðarnesi, Reykholti, á Húsafelli og á fleiri stöðum í Borgarfirði. Varð Þórarinn fljótt orðlagður fyrir dugnað og ósérhlífni.

Þegar færi gafst var haldið í slarksamar veiðiferðir á Arnarvatnsheiði ásamt bræðrum og félögum. Treystust þar enn bönd frændseminnar á löngum göngum milli vatna og veiðistaða á bújörð Grettis.

Tímar liðu og þegar ég kom heim eftir alllanga dvöl erlendis var Þórarinn orðinn dugandi byggingameistari og starfaði sem slíkur til æviloka. Öllum verkefnum sinnti hann af sjálfstæði því og dugnaði sem einkenndi hann. Of sjaldan gafst okkur tími til að ræða málin en höfðum þó bundið fastmælum að hittast reglulega á Úlfsstöðum þegar eftirlaunaaldri væri náð og rifja upp samverustundirnar á fyrri árum. En af því mun ekki verða, því alvarleg veikindi hrifu hann á brott um aldur fram.

Þórarinn var fríður maður sýnum, bjartur yfirlitum og brosmildur. Ekki hávaxinn, en hraustbyggður og sterkur vel. Hann var ekki nema 16 ára gamall þegar hann fyrst náði að lyfta Kvíahellunni á Húsafelli frá jörðu og þótti það nokkurt afrek.

Þórarinn þekkti vel kenningu dr. Helga Pjeturss um eðli framlífsins, sem Þorsteinn afi okkar á Úlfsstöðum hélt fram um áratuga skeið og verið hefur mörgum í ætt okkar leiðarljós á lífsbrautinni. Samkvæmt þeirri kenningu er hinn ágæti frændi minn nú floginn „af hnetti hnattar til“ og fram kominn í nýjum líkama, í fögru skini fjarlægrar sólstjörnu. Efast ég ekki um að hann muni hafa þar nóg að starfa, að hinum þörfustu málefnum.

Þorsteinn Þorsteinsson.

Fyrir tæpum tíu árum fóru að berast fréttir af Sigrúnu, vinkonu okkar, að ganga á fell. Vaknaði þá grunur um að karlmaður væri kominn í spilið. Fljótlega kynnti Sigrún karlmanninn, hann Tóta, fyrir okkur. Jákvæði, hjálpsami sveitastrákurinn með sterku lífsskoðanirnar og svo sannarlega vinur vina sinna, féll strax vel inn í hópinn og það var eins og þau Sigrún hefðu alltaf verið saman. Tóti var alltaf til í að brasa eitthvað, hvort sem það voru matarboð, útilegur, golf eða að rétta hjálparhönd.

Að greinast með krabbamein var skellur, en hann tókst á við veikindi sín af jákvæðni og ætlaði sér að hafa gaman meðan hægt var, lífið væri núna. Ýtti á okkur hin að drífa í að upplifa í stað þess að bíða, svo sem að skella okkur í ævintýrasiglingu með þeim Sigrúnu. Golfferðin, sem við fórum til Spánar síðasta haust er mjög eftirminnileg, sérstaklega vegna þess hvað Tóti naut þess að halda upp á 65 ára afmælisdaginn sinn með okkur. Hann vildi vera til, njóta og fá að vera samvistum við Sigrúnu, fjölskyldu og vini, þráði sveitina sína. En verkefni Tóta þetta vorið eru önnur en við sáum fyrir okkur og það er erfitt að sætta sig við það.

Elsku Sigrún og fjölskyldur ykkar beggja. Minningar um jákvæðan sveitastrák og góðan vin lifa áfram. „Lífið er núna“.

Bjarney og Þór, Hulda og Jörgen, Unnur og Sveinn.

Þórarinn var ein af mínum fyrirmyndum í lífinu. Það var bjart yfir honum. Hann lét sér ekki verk úr hendi falla. Ég er þakklátur fyrir þær mörgu samræður sem við áttum. Ég þurfti aldrei að lesa á milli línanna, því hann var sannur, skýr og samkvæmur sjálfum sér. Hann hafði miklar mætur á dætrum sínum og barnabörnum. Þegar vantaði að skrúfa saman skáp eða hengja upp hillu var byggingarmeistarinn mættur. Hann var sjaldan á hraðferð og gaf sér tíma til að hlusta á dætur sínar. Hann sýndi þeim ást og umhyggju í orði og verki. Hljóð og mynd fóru alltaf saman hjá Þórarni. Enda var hann gegnheill og góður drengur. Líf hans auðgaðist til muna þegar hann kynntist Sigrúnu. Það var glampi í augunum hans þegar hann kom heim af dansæfingu eitt kvöldið. Þá hafði hann hitt ástina sína. Þau felldu hugi saman og tókst þeim að sameina sig og sína af heilindum, eins og þeim einum var lagið. Sveitin í Reykholtsdal var hans griðastaður. Þar var hann í essinu sínu. Það var pláss fyrir alla. Þá horfði hann til framtíðar en varðveitti á sama tíma uppruna sinn. Hann lagði alúð í verkin sín í sveitinni. Þau voru eins og stór faðmur sem umvafði hans nánustu og lífshlaupið hans. Það er stutt síðan Þórarinn kvaddi báða foreldra sína. Hann var óhræddur við að rökræða við Svein Víking föður sinn sem hafði sterkar skoðanir á lífinu og tilverunni. Mýktin endurspeglaðist í gegnum samband hans við Elsu móður sína. Bræður hans voru honum líka afar kærir. Þorsteinn bróðir hans er verklaginn og vandvirkur eins og bróðir hans var. Þeir áttu sínar góðu stundir í smíðunum. En það var djúpur og sterkur strengur á milli Þórarins og Árna bróður hans. Þeir fóru saman í ferðir og göngur. Stundum horfðu þeir upp í stjörnubjartan himininn og veltu fyrir sér lífinu og tilverunni. Þórarinn var sannur og til staðar fyrir þá sem hann unni mest. Hann var líka með sterka réttlætiskennd og lét í sér heyra ef honum var misboðið. Hann þoldi ekki misrétti. Hann bar virðingu fyrir alþýðunni og þeim sem minna mega sín. Lífsspor Þórarins eru djúp og dýrmæt. Þessi góði drengur gerði lífið betra. Minningarnar lifa ríkulega í hjörtum okkar. Takk fyrir allt elsku vinur.

Arnór Már Másson.

Minningargrein um kæran vin.

Með sorg í hjarta kveðjum við kæran vin okkar, Tóta, sem féll frá allt of snemma eftir erfið veikindi. Minningarnar um hann og þau ómetanlegu augnablik sem við deildum saman munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Okkar vináttusaga hófst árið 1997 þegar tveir vinahópar tóku sig saman og skráðu sig á dansnámskeið hjá Dansskóla Heiðars. Úr þessu spratt hinn einstaki „Danshópur“, sem varð fljótlega nánari en nokkur okkar gat ímyndað sér í upphafi. Danskennarinn og hennar maður urðu einnig hluti af hópnum, og þar með mynduðust sterk vináttutengsl sem hafa haldist í gegnum árin.

Ásamt því að hittast reglulega höfum við ferðast víða saman, bæði innanlands og erlendis. Alltaf hefur ríkt gleði og samheldni þegar hópurinn hefur komið saman. Tóti var söngmaður góður og lét sig aldrei vanta þegar gítarinn var dreginn fram. Hann hafði líka sérstakt lag á að grilla og sá oftast um matargerðina þegar við höfum haldið sameiginlegar máltíðir – sem við gerðum reglulega.

Við höfum haldið marga viðburði saman og þegar meðlimir hópsins áttu stórafmæli var enginn skortur á hugmyndum og framkvæmdagleði. Þegar Tóti varð fimmtugur ákváðum við að halda sérstaka danssýningu honum til heiðurs. Þótt sýningin hafi ekki alveg farið eins og æft hafði verið, varð úr henni ógleymanleg skemmtun – fyrir afmælisbarnið, gestina og einnig okkur í danshópnum.

Með tímanum breyttist áherslan í hópnum. Þegar dansáhuginn minnkaði varð hópurinn að gönguhópi og síðar að golfhópi enda mikill golfáhugi í hópnum. Tóti var þar engin undantekning. Óháð breytingum héldum við alltaf tryggð hvert við annað. Tóti var ætíð traustur og ljúfur vinur, alltaf reiðubúinn að rétta hjálparhönd þegar á þurfti að halda.

Það var mikið gæfuspor fyrir Tóta þegar hann kynntist Sigrúnu og kom með hana inn í hópinn. Hún féll strax vel inn í okkar samfélag og varð ómissandi hluti af hópnum okkar.

Við finnum fyrir miklum söknuði yfir því að Tóti hafi kvatt okkur alltof snemma. Hugur okkar er hjá Sigrúnu, fjölskyldu Tóta og nánustu aðstandendum á þessari erfiðu stundu. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur og um leið þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við fengum að eiga með þessum einstaka vini.

Danshópurinn,

Agnes, Birgir, Rannveig, Magnús Þór, Hrafnhildur, Guðmundur, Lára, Ragnar, Elsa, Guðfinnur, Ingibjörg, Atli, Ríta og Magnús S.