Trausti Pétursson gullsmiður fæddist í Reykjavík 28. apríl 1937. Hann lést á Brákarhlíð í Borgarnesi 8. mars 2025 eftir stutt veikindi.

Foreldrar Trausta voru hjónin Pétur Pétursson frá Miðdal í Kjós, f. 10. mars 1895, d. 14. júlí 1986, og Kristín Soffía Jónsdóttir frá Gilsfjarðarbrekku, f. 14. nóvember 1909, d. 3. desember 2000.

Systkini Trausta voru: Jón, f. 1914, d. 2003, Hallgrímur, f. 1923, d. 1993, Guðfinna Lea, f. 1925, d. 1985, Þorbjörn, f. 1927, d. 2004, Sigríður, f. 1929, Pétur, f. 1938, d. 2023, Elín, f. 1940, d. 2025, Esther, f. 1943, d. 2024, Sara Rut, f. 1945, d. 1946, Ruth, f. 1949, og María, f. 1955.

Trausti kvæntist Þórunni Jónsdóttur úr Þykkvabæ og eignaðist með henni þrjú börn: Sigurbjörgu Jónu, f. 1958, gift Ágústi Friðgeirssyni, f. 1956, þau eiga fjögur börn og 13 barnabörn; Pétur, f. 1959, d. 2024, hans synir eru þrír og barnabörnin þrjú; Jón Þór, f. 1960, d. 2013, hans kona Díana Sveinbjörnsdóttir, þau eignuðust þrjú börn og barnabörnin orðin fjögur.

Með Sigríði Einarsdóttur frá Runnum í Reykholtsdal eignaðist Trausti tvö börn: Öldu Maríu, f. 1964, gift K. Haraldi Gunnlaugssyni, þau eiga þrjú börn og 11 barnabörn; Einar Steinþór, f. 1966, kvæntur Sigrúnu Hjartardóttur, f. 1958, þeirra börn eru tvö og barnabörnin þrjú og tvö væntanleg í sumar.

Seinna kvæntist hann Sigrúnu Gunnarsdóttur, þau skildu.

Trausti fór ungur til sjós og var m.a. á varðskipum. Hann lærði gullsmíði hjá Hreini M. Jóhannssyni og vann við gullsmíðar af og til upp frá því, lengi hjá Kornelíusi Jónssyni úrsmið. Einnig var hann lengi starfandi bifreiðastjóri hjá ýmsum fyrirtækjum enda hafði hann mjög gaman af bílum og tækjum margs konar. Síðustu starfsárin vann hann hjá bílastæðasjóði.

Trausti var mjög áhugasamur um hestamennsku og hafði gaman af því að skreppa á bak og sinna hrossunum sínum.

Trausti flutti fyrir þremur árum á Brákarhlíð í Borgarnesi.

Útför Trausta verður gerð frá Lindakirkju í dag, 25. mars 2025, klukkan 11.

Mig langar að senda þér þetta ljóð elsku bróðir minn.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Takk fyrir samveruna, við sjáumst þegar þar að kemur.

Þín systir,

Ruth Pétursdóttir.