Norður
♠ 10954
♥ D73
♦ 1062
♣ K104
Vestur
♠ ÁG63
♥ 9654
♦ G53
♣ 96
Austur
♠ 82
♥ 102
♦ D874
♣ ÁD852
Suður
♠ KD7
♥ ÁKG8
♦ ÁK9
♣ G73
Suður spilar 3G.
Sumir hafa þá reglu að spila helst ekki út frá ás gegn grandi, segja að það sé óþarfi að fría ásinn. Þetta spil úr úrslitaleik bandarísku Vanderbilt-sveitakeppninnar í Memphis í Tennessee um síðustu helgi milli sveita Martys Fleishers og Jefferys Wolfsons afsannar að minnsta kosti ekki þessa reglu. Við bæði borð lýsti suður sterkri jafnskiptri hönd og norður lyfti í 3G án þess að spyrja um háliti. Við annað borðið spilaði Chip Martel út ♥6 og það var sama hvað sagnhafi reyndi, níundi slagurinn var fjarlægur.
Við hitt borðið spilaði Steve Garner út ♠3 og tían hélt slag. Björninn var þó ekki unninn og sagnhafi, Thomas Bessis, spilaði ♣K í öðrum slag. Vörnin hefði getað haft betur ef Wolfson í austur hefði gefið slaginn en hann drap strax og spilaði spaða og og nú gat Bessis brotið níunda slaginn á lauf. Leiknum lauk með öruggum sigri sveitar Fleishers.