Gylfi var fæddur í Bolungarvík 19. janúar 1942. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar 13. mars 2025 á gjörgæsludeild Landspítalans.

Foreldrar Gylfa voru Jónas Guðmundur Halldórsson sjómaður, f. 1912, d. 1995, og Sigríður Þórlaug Guðríður Magnúsdóttir húsfreyja, f. 1915, d. 1992. Þau voru bæði frá Bolungarvík. Eldri systkini Gylfa voru Þorbjörg Maggý, f. 1937, d. 2022, og Halldór Agnar, f. 1940, d. 2020.

Eiginkona Gylfa var Margrét Finnbogadóttir frá Akureyri, f. 6. apríl 1947, d. 8. apríl 2008. Foreldrar hennar voru Finnbogi Jónsson, f. 1904, d. 1964, og Fanney Jónsdóttir, f. 1909, d. 1981.

Synir þeirra eru: 1) Finnbogi, f. 1970, giftur Svönu Huld Linnet, f. 1970. Börn þeirra eru i) Kristján Flóki, f. 1995, í sambúð með Natalíu Maríu Helen Ægisdóttur, f. 1997. Sonur þeirra er Úlfur Aaron, f. 2021, ii) Ylfa, f. 2002.

2) Jónas, f. 1972, giftur Ingibjörgu Valgeirsdóttur, f. 1973. Börn þeirra eru i) Sölvi Þór, f. 1990, giftur Mörthu Maríu Einarsdóttur, f. 1990. Börn þeirra eru Sara Dögg, f. 2018, og Orri Snær, f. 2022, ii) Hrafnhildur Kría, f. 2004.

3) Gylfi Örn, f. 1976, giftur Maríu Guðbjörgu Jóhannsdóttur, f. 1980. Börn þeirra eru i) Vaka Margrét, f. 2011, ii) Victor Natan, f. 2021.

Gylfi ólst upp í Skálavík þar til foreldrar hans brugðu búi 1963 og fluttu til Bolungarvíkur. Gylfi stundaði nám við Iðnskólann á Ísafirði og var á námssamningi hjá Guðmundi rafvirkjameistara í Bolungarvík. Hann lauk sveinsprófi árið 1967 og hlaut meistararéttindi árið 1971. Gylfi og Margrét kynntust á námsárum sínum á Ísafirði en hún var í námi í Húsmæðraskólanum Ósk. Þau hófu sambúð í Bolungarvík en fluttu til Hafnarfjarðar árið 1968 þar sem Gylfi hóf störf við uppbyggingu á álverinu í Straumsvík. Gylfi starfaði í álverinu sem rafvirki allan sinn starfsferil, í yfir 40 ár. Gylfi og Margrét bjuggu alla tíð í Norðurbæ Hafnarfjarðar.

Útför Gylfa fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 26. mars 2025, hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku besti pabbi minn. Söknuðurinn er mikill þegar ég sést niður og skrifa kveðjuorð til þín. Þú varst mér svo mikið. Alltaf traustur, hlýr og góður og með besta faðmlagið. Það er erfitt að átta sig á því að þú sért farinn og samtölin verði ekki fleiri. Það var gott að tala við þig um allt milli himins og jarðar og leita ráða hjá þér. Þú varst lausnamiðaður og ef þú áttir ekki svörin hættir þú ekki fyrr en leiðirnar voru fundnar.

Þú kenndir mér margt í lífinu, en mest af öllu kenndir þú mér að vera góð manneskja með því að vera fyrirmyndin sem þú varst. Það er erfitt að fylla í fótsporin þín þar.

Minningarnar eru margar sem koma upp þegar ég hugsa til baka. Skíðaferðirnar á sunnudögum, þar sem allur dagurinn var tekinn í fjallinu en passað upp á að vera komin heim áður en Húsið á sléttunni byrjaði. Sundferðirnar sem við fórum í og svo beint heim í sunnudagslæri hjá mömmu. Sumarbústaðaferðirnar og útilegurnar í öllum veðrum. Ferðir okkar saman til útlanda, þar sem við skoðuðum nýja ævintýraheima. Sólbrunnum og fengum sólsting á sólarströnd í Þýskalandi, sem átti ekki að vera hægt, en tókst eftir 10 tíma í sólinni og sjónum. Þú elskaðir sólina og hafið.

Þið mamma byggðuð Sævang 26 sem varð æskuheimili okkar. Það var gott að alast upp á Sævanginum og þangað var líka notalegt að koma eftir að ég flutti þaðan. Þar var gott að hanga og eiga langar samræður um lífið og tilveruna við eldhúsborðið góða.

Þú tókst fallega á móti Ingibjörgu minni með þínum opna og hlýja faðmi þegar við vorum að byrja að hittast. Svo, kannski aðeins of stuttu síðar, fæddist Sölvi okkar og þú mættir til leiks í uppeldið eins og þú hefðir aldrei gert neitt annað. Þvílík fyrirmynd. Ég er svo þakklátur ykkur mömmu, fyrir hvernig þið veittuð okkur ungu foreldrunum þann stuðning sem við þurftum á að halda á ykkar rólega og hlýja hátt. Þitt einstaka samband við Sölva og Kríu er ómetanlegt. Það sem þú hefur reynst börnunum og barnabörnum mínum vel. Þeirra missir er mikill.

Eftir góð ár á Sævangnum og skyndilegt andlát elsku mömmu beið Norðurbakkinn þín með sól og opnu hafi. Þetta tvennt sem þú elskaðir svo mikið. Þú talaðir oft um að það væri eins og þú værir að horfa á málverk þegar þú horfðir út um gluggann, enda er útsýnið með ólíkindum fagurt.

Skálavíkin var þinn kærasti staður. Þar áttum við ótal góðar stundir. Þar munum við bræðurnir sannarlega varðveita minningu ykkar mömmu með fjölskyldum okkar.

Síðustu dagana fyrir andlát þitt komstu til baka eftir skammvinn, erfið veikindi. Það voru dýrmætir dagar sem við áttum saman allt fram á síðustu stundu. Þú sagðir okkur að þig langaði til að mála vegginn bak við skenkinn í öðrum lit. Veggurinn verður málaður, pabbi minn, því lofa ég.

Þú kvaddir okkur fallega. Kveðjustund þín er ein fallegasta stund sem ég hef upplifað. Hvílík fegurð, eins og þín var von og vísa.

Ég elska þig, elsku hjartans pabbi minn, takk fyrir allt.

Viltu skila heilsun til elsku mömmu.

Þinn sonur,

Jónas Gylfason.

Elsku pabbi, það er komið að kveðjustund.

Það var rétt fyrir afmælið mitt í lok febrúar sem þú byrjaðir að veikjast en ekki gat ég ímyndað mér á þeim tímapunkti að þú myndir falla frá nokkrum vikum síðar. Þú varst lítið fyrir að kvarta og hugsanlega varstu orðinn veikari en þú vildir vera láta. Þú harkaðir þó af þér fram á síðustu stundu og náðir að ráðleggja með ýmis mál á síðustu dögum lífs þíns eins og þú varst alltaf svo duglegur að gera. Hver á núna að segja mér að það þurfi að fara að skipta um perur í þvottahúsinu, hver á að segja mér að bíllinn sé orðinn of skítugur og að nú væri gott að bóna, hvernig á ég að muna að smyrja pinnana í ofnunum á haustin, hvenær á ég að fara í reglulegu rykhreinsunina á þurrkaranum og svo framvegis? Þú varst óþreytandi við að ýta við mér þegar kom að því að hafa þessa litlu hluti í lagi, þarna varstu að fylgja eftir þínum góðu gildum sem foreldrar þínir innrættu hjá þér. Þér var meinilla við að henda hlutum og þú vissir að gott viðhald eykur notagildið og endingartímann margfalt. Þú varst algjör þúsundþjalasmiður, það var ekkert verk sem þurfti að vinna sem var óyfirstíganlegt en rafmagnsiðnin var þitt sérsvið. Það sem þér þótti verst við að eldast var að geta ekki gengið í rafmagnsverkin og klárað þau sjálfur, þá er ég að tala um síðustu eitt til tvö árin, ég sagði þér að nú værir þú orðinn verkstjórinn og ég myndi sjá um að tengja. Þú varst duglegur að halda sambandi við vini og ættingja og kom ég aldrei að tómum kofanum þegar ég spurði um fréttir af fólkinu okkar og vinunum úr Straumsvíkinni.

Þú varst góður maður sem verður sárt saknað.

Þinn sonur,

Finnbogi.

Elsku tengdapabbi, ég var 17 ára þegar þú með þínum hægláta en blíða hætti bauðst mig velkomna í fjölskylduna. Ég kom feimin inn á heimilið að hitta Finnboga, elsta son ykkar Möggu, en feimnin hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar ég fann hlýjuna sem streymdi frá ykkur hjónum. Það tók þig ekki langan tíma að grennslast fyrir um hverra manna ég væri og tengja mig við Bolungarvíkina þína. Þar með myndaðir þú streng svo sterkan á milli okkar að hann varð að órjúfanlegum fjölskylduböndum.

Ég ferðast með þér í huganum til Skálavíkur, með blíðu í röddinni heyri ég þig segja okkur frá efri krossi og neðri krossi þegar við keyrum niður Skálarvíkurheiðina, frá Ásbjarnarsteini, Lambaskál, Hraunsdal, Svartafjalli og auðvitað Kroppstaðaskál sem tekur svo fallega á móti okkur frá okkar bæjarstæði. Þú sendir okkur í ófá skiptin upp á Berjahjalla til að tína aðalbláber fyrir þig. Með blik í augum sannfærðir þú okkur um að hvergi væru betri aðalbláber en í Skálavík. Barnabörnin elskuðu að fara með þér niður að á, út á strönd og upp að steini. Það var þér ómetanleg gjöf að fá að alast upp í Skálavík þar sem sjórinn, fjöllin, náttúran og þú urðuð eitt. Það er svo fagurt að hafa fengið að upplifa Skálavíkina með þínum augum elsku Gylfi.

Það er margs að minnast á heilli mannsævi en kærastar eru minningarnar úr hversdagslífinu. Þegar við Finnbogi komum heim á Sævanginn og þú varst í bílskúrnum eitthvað að bjástra, eða þegar við komum inn og þið Magga voruð að spila tveggja manna vist, það var ykkar stund. Þegar öll fjölskyldan kúldraðist saman í hornsófanum að horfa á sjónvarpið. Þegar þú tókst að þér að vera verkstjóri þegar við Finnbogi keyptum húsið okkar, sagðir glettinn á svip að við tvö hefðum byggt húsið saman á meðan Finnbogi var í útlöndum. Þegar þú kveiktir upp í Sólo-vélinni í Skálavíkinni og sagðir stoltur að „Sólo-vélin væri eins og hugur manns“ en við Finnbogi bölvuðum sótinu frá henni.

Flóka og Ylfu fannst skemmtilegast í heimi að fara í sund með þér, seinna fórstu iðulega í sund þegar Ylfa var á sundæfingum til að fylgjast með stelpunni þinni. Þau voru þér svo kær og þú varst svo stoltur af þeim. Komst með okkur á alla fótboltaleiki þegar Flóki var að keppa eða horfðir á þá í sjónvarpinu þegar þú treystir þér ekki. Þú varst eini maðurinn sem dinglaðir bjöllunni rétt áður en þú gekkst beint inn og kallaðir: „Er einhver heima?“ Þá vissum við öll að afi væri kominn. Ég elskaði að gera cappuccino fyrir þig því þér fannst bollinn svo góður. Þú varst svo fallegur þegar þú hittir fjölskylduna á hátíðisdögum aðeins klökkur og votur um augun af því að þú saknaðir hennar Möggu þinnar svo sárt.

Elsku tengdapabbi, þú hafðir einstaka kyrrð innra með þér sem við fundum öll svo sterkt fyrir og hlýjan og ástríkið í þéttu faðmlagi þínu var svo gott. Við vissum að við vorum elskuð. Skilaðu kveðju til fólksins okkar og með þínu einstaka faðmlagi faðmaðu tengdamömmu frá okkur. Við elskum þig og munum sakna sárt um aldur og ævi.

Þín tengdadóttir,

Svana Huld.

Elsku hjartans Gylfi minn. Hlýi trausti tengdapabbi minn. Ég elskaði hvernig við fögnuðum hvort öðru þegar við mættumst á fjölmörgum göngum okkar í kringum Hvaleyrarvatnið. Ég með hóp á námskeiði, þú ýmist einn á ferð eða í góðra vina hópi. Þegar við sáum hvort annað lyftum við fagnandi upp höndunum, brostum okkar breiðasta og kölluðumst á þangað til við mættumst og ég var komin í hlýja fangið þitt. Sama fagnið beið mín þegar við bönkuðum upp á og kíktum í kaffi til þín á Norðurbakkann. Og sama fagnið beið þín þegar þú komst upp tröppurnar hjá okkur á Hringbrautinni. Sár söknuðurinn eftir fagnandi hlýju faðmlagi þínu streymdi um mig þegar þú kvaddir okkur svo fallega á gjörgæsludeild Landspítalans aðfaranótt 13. mars síðastliðins.

Og nákvæmlega á þennan sama hlýja, glaðværa hátt fagnaðir þú litla fjögurra mánaða afadrengnum þínum þegar þú komst heim af næturvöktum fyrir 35 árum og við Jónas lögðum hann í fangið á þér og fórum í skólann. Sölvi býr sannarlega enn að fyrstu gerð. Þið Magga hélduð þétt utan um okkur ungu fjölskylduna og leidduð okkur einstaklega fallega út í lífið. Fyrir það verðum við ævinlega þakklát.

Þið veittuð okkur líka alla þá ást og umhyggju sem við þurftum á að halda í biðinni löngu eftir elsku Kríunni okkar allra. Hennar beið sannarlega hlýtt og elskandi ömmu- og afafang. Þú varst bæði bandamaður og besti vinur barnanna okkar og barnabarna. „Afi Gylfi, afi Gylfi, afi Gylfi!“ Mánuði fyrir andlát þitt komstu keyrandi í afmæli Söru og Orra. Enginn gestur fékk eins góðar móttökur og þú. Þín er sárt saknað. Við höfum öll misst mikið.

Stórfljót af orðum streymir fram þegar ég hugsa um þig. Það eru samt þín eigin orð sem koma til mín aftur og aftur. Orðin sem þú sagðir hughreystandi við okkur börnin þín þegar við misstum elsku Möggu skyndilega og alltof snemma: „Okkur hinum er boðið að lifa áfram.“ Þú þáðir það boð fallega og hélst þétt utan um okkur fjölskylduna til hinstu stundar, eins og þú gerðir allt þitt líf.

Þú tókst ákvörðun um að halda áfram að lifa fallegu, innihaldsríku lífi og vera í sterku og nánu sambandi við fólkið þitt. Þú varst áhugasamur um líf okkar allra og fylgdist með okkur í hverju skrefi. Ég veit að þú munt gera það áfram, elsku Gylfi minn. Þú varst einstakur öðlingur, gull af manni. Til þess að eignast svona góðan tengdapabba eins og þig er gott að eignast góðan mann. Ég gæti ekki verið þér þakklátari fyrir hann.

17 ár af söknuði eru langur tími. Ég gat ekki annað en samglaðst ykkur Möggu þegar við fórum upp í kirkjugarð daginn sem þú lést. Ég sá fyrir mér hvernig þú hefur farið fagnandi á hennar fund.

Elsku hjartans Gylfi minn. Ég kveð þig með ást og þakklæti og sömu orðum og ég kvaddi elsku Möggu okkar á sínum tíma: Drengirnir þínir hafa fallegt upplag. Þú valdir lífsförunaut þinn vel. Það gerði ég líka. Jónas er kletturinn minn og barnanna okkar, eins og þið Magga hafið verið okkur öllum.

Ástarþakkir, elsku tengdapabbi minn – fyrir allt.

Þín

Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Það var margt sem afi minn var – pabbi, tengdapabbi, langafi, afi, hetja og algjör nagli, með persónuleika sem erfitt er að finna annars staðar. Hann var maður sem kunni að gleðja, hvort sem það var með hlýju brosi, hlýlegum orðum eða dásamlegum pípugraut og samlokum. Hjá honum var alltaf skjól, alltaf hlýja og alltaf kærleikur.

Ég á ótal minningar um afa sem ég mun ávallt geyma í hjarta mínu. Mér verður sérstaklega hugsað til sundlaugaferðanna í Suðurbæjarlaug eða Ásvallalaug, þar sem ég synti og renndi mér endalaust í rennibrautunum, á meðan afi slakaði á í heita pottinum. Eftir það var það óskrifuð regla að fara í Nettó eða Krónuna til að kaupa pylsur, ís og legófígúrur fyrir mig.

Ég gleymi heldur aldrei þeim stundum þegar ég lá veik í sófanum hans og horfði á teiknimyndir á stöð 84 og afi kom með stóra skál af ís til að kæla hitann minn niður. Það kann að hljóma skondið í dag, en á þeim tíma fannst mér það virka fullkomlega.

Afi var óeigingjarn maður, alltaf tilbúinn að hlusta, leiðbeina og styðja mann hvert sem lífið leiddi okkur. Hann þekkti alla svo einstaklega vel og var alltaf til staðar með opið hjarta og sterkan stuðning. En hann var líka hreinskilinn – frá honum heyrði maður alltaf sannleikann upp á 10, alveg fram á síðustu stundu uppi á spítala: „Kría, ekki meira,“ kom hiklaust frá honum þegar hann horfði á húðflúrið mitt.

Hann hafði einstakan hæfileika til að skapa gleði og hlýju í kringum sig og fyllti heiminn minn af hlátri, visku og óendanlegri ást. Hann kenndi mér mikilvægi vináttu, virðingar og samkenndar og setti alltaf fjölskyldu sína í fyrsta sæti. Afi minn var einstakur – og minningin um hann mun lifa að eilífu í hjarta mínu.

Ég elska þig, afi minn, þín

Hrafnhildur Kría Jónasdóttir.

Elsku hjartans afi Gylfi, sá allra „góðasti“ maður sem ég hef nokkurn tíma kynnst, þín verður sárt saknað. Karakterar eins og þú eru vandfundnir og ég er ekki sannfærður um að það séu til aðrir sem komast með tærnar þar sem þú hafðir hælana.

Ég á þér svo margt að þakka og þolinmæðin þín og rólegheit er eitthvað sem verður ekki parað í þessum heimi. Tímarnir sem við áttum saman eru í dag ómetanlegar minningar. Það eru ekki allir tilbúnir í að leggja golfvöll í kringum húsið sitt til þess eins að gleðja barnabörnin sín en það varst þú. „Afi, væri ekki gaman að setja golfholu í garðinn?“ Næst þegar ég kom í heimsókn varstu kominn með þessa fínu álholu sem þú gerðir í álverinu, tilbúinn með flaggstöng og þá átti einungis eftir að koma henni fyrir og spila hringinn.

Guffabangsinn sem við fundum í fjörunni sem flestir hefðu skilið eftir og dæmt ónýtan fékk að sjálfsögðu að koma með heim svo hægt væri að þrífa hann og nýta upp á nýtt. Óteljandi sundferðirnar í Suðurbæjarlaugina eru einnig minnisstæðar með viðkomu á smábátahöfninni þar sem við skoðuðum báta og síli.

Hjólaferðirnar út á Bessastaði sem breyttust síðar meir í bíltúra á svipaðar slóðir, ég væri nú orðinn 15 ára gamall og það þurfti að kenna mér að keyra! Minn allra besti kennari, yfirvegunin uppmáluð þar sem þú stjórnaðir ferðinni úr farþegasætinu um Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes. Ég man ennþá eftir svipnum á ömmu þegar við renndum í hlað eftir eina kennslustundina þar sem hún stóð úti á stétt og lét þig vita að þetta væri nú kannski ekki alveg frábær hugmynd.

Þú sást að stóru leyti um uppeldið á mér alveg frá því ég fæddist og þangað til þú kvaddir. Þar sem þú skammaðir mig aldrei þá er mér sérstaklega minnisstætt hvernig þú sagðir mér til. „Ekki þetta“ var sagt eins rólega og hugsast getur og það var nóg til að stoppa öll prakkarastrik, virðingin var slík.

Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa og ég þurfti ekki að biðja um aðstoð því sama hvað það snerist um; skipta um tengla í íbúðinni, skipta um dekk á bílnum eða fá að búa hjá þér. Alltaf varst þú búinn að bjóða fram þína aðstoð jafnvel áður en ég áttaði mig á því sjálfur að ég þurfti á henni að halda.

Þér fannst fátt skemmtilegra en að taka þátt í ýmsu brasi alveg fram á síðustu daga þegar það kom okkur báðum skemmtilega á óvart að nýjasta vandamál bílsins hafði lagað sig sjálft. Kannski var heimurinn að segja okkur að nú væri komið að lokum. Þú værir búinn að gefa allt sem þú gætir gefið mér og kennt mér allt sem ég gæti lært.

Þú varst svo einstakur afi að Martha mín kallaði þig afa, þú varst einhvern veginn afi okkar allra sama hver átti í hlut. Langafabörnin þín elskuðu þig út af lífinu og þú hafðir einstakt lag á því að umgangast þau. Gafst þér tíma í að spila við þau, bjóða okkur út að borða eða bjóða okkur í mat þar sem ég eldaði einn af þínum uppáhaldsréttum.

Já afi minn, þú varst enginn venjulegur afi og við hugsum hlýtt til þín með söknuð í hjarta um ókomna tíð. Takk fyrir allt.

Þín

Sölvi Þór, Martha María, Sara Dögg og Orri Snær.

Skálavík, víkin fallega við ysta haf þar sem brimið svarrar við ströndina eða lognbáran gutlar við sandinn á kyrrum og björtum sumardögum, var staðurinn hans Gylfa. Þarna ólst hann upp með foreldrum sínum og tveimur eldri systkinum. Þessi litla vík skipaði stóran sess í huga Gylfa. Það var honum til mikillar gleði þegar synir hans og þeirra fjölskyldur keyptu sumarbústað á landinu hans í Skálavík. Gylfi fór snemma að vinna í Víkinni en upp úr tvítugu fór hann í Iðnskólann á Ísafirði, svo á námssamning í Bolungarvík og lærði rafvirkjun. Á þessum árum var ung, glöð og skemmtileg stúlka í Húsmæðraskólanum á Ísafirði. Þetta var hún Margrét Finnbogadóttir eða Magga eins og hún var kölluð. Magga var að leita að nýjum ævintýrum og fann þau í honum Gylfa. Og hann fann sína hamingju með Möggu. Þau Magga og Gylfi ákváðu að setjast að í Hafnarfirði og þar vegnaði þeim vel. Þau eignuðust þrjá vel gerða syni. Þeim reyndist Gylfi ástríkur og góður faðir og barnabörnum og barnabarnabörnum reyndist hann einnig umhyggjusamur afi.

Ég man fyrst eftir Gylfa þegar ég ungur drengur fékk að gjöf heimasmíðaðan bíl, eftirlíkingu af Land Rover, sem þeir Gylfi og Dóri bróðir hans smíðuðu og gáfu mér. Ég man hvað ég var stoltur og glaður að eiga svona flinka og hugsunarsama frændur í Skálavík. Við Gylfi vorum alltaf góðir frændur, töluðum oft saman í síma. Gylfi spurði alltaf hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta að búa svo að ég gæti verið fyrir vestan og farið með honum út á Skálavíkina og reynt að veiða fisk. Í mörg, mörg ár kom Gylfi til okkar á vorin og var í sauðburði. Hann hafði alltaf föst verk, við fóðrun, brynningar og tiltekt. Það var notalegt og gott að fá Gylfa. Hann sá um að laga allt rafmagn, setja upp ljós og laga það sem aflaga hafði farið. Gylfi kom alltaf í réttirnar og var við hliðið á Miklabæjardilknum. Gekk svo heim á eftir fénu og svo naut hann þess að spjalla og hlæja með réttarfólki. Heima á Miklabæ að vera með, hitta gamla Bolvíkinga sem komu oft margir að smala og að vera í réttum. Gylfi var einn af þessum þægilegu og heilsteyptu mönnum. Traustur, fastur á sínu, án þess að vera þver, eins og við erum sum af þessari ætt. Gylfi var fremur glaðlyndur, jákvæður og mikið snyrtimenni. Við frændurnir töluðum oft um það að prófa að leggja kolanet við sandinn í Skálavík, að athuga hvort kolinn væri kominn aftur, en bresku togararnir eyddu nánast öllum kola fyrir löngu. Ég held að við höfum minnst á þetta í hvert skipti sem við töluðum saman. Þessi veiðiferð verður aldrei farin en það var gaman að hugsa til þessarar ferðar. Við Gylfi leggjum ekki netin en sá mikli veiðimaður sem nær okkur öllum hefur lagt sitt net og náð Gylfa. Ég sakna Gylfa, míns góða og trausta frænda sem alltaf reyndist mér vel. Um sumarsólstöður sést sólin allan sólarhringinn í Skálavík, tyllir sér á hafflötinn til þess að rísa upp til nýs dags. Hérvistardögum Gylfa er lokið en upprisan er okkur kristnum mönnum von. Ég fel Gylfa þeim Guði sem sólina hefur skapað.

Agnar á Miklabæ.

Þegar ég hugsa um Gylfa er reglufesta það fyrsta sem mér dettur í hug. Á vorin voru þau Magga vön að koma með Gylfa Örn yngsta son sinn í sveit. Þá var vorið komið. Farið var yfir verkin sem biðu á komandi tíð. Málin rædd og svo héldu þau hjón aftur heim í Hafnarfjörð en sveitadrengurinn varð eftir.

Það haustaði. Þá kom Gylfi aftur til þess að fylgjast með göngum og að vera hliðvörður í réttinni. Hann fór fram í kofa, athugaði hvernig gengi og sinnti ýmsum verkum þess á milli. Hann tók töskuna alltaf með sér því að hann hafði gaman af að grípa í ýmis verk til þess að nýta ferðina. Taskan geymdi verkfærin til þess að sinna rafmagnsverkum.

Hið daglega starf hans fór fram í Straumsvíkinni. Þar starfaði hann í um 40 ár. Fór með töskuna í rútuna sem stansaði nærri heimilinu og flutti dygga starfsmenn á starfsstöð samkvæmt áætlun, en það hentaði Gylfa afar vel.

Eftir að Gylfi hætti störfum þar fór hann að taka þátt í sauðburði. Þær ferðir voru í föstum skorðum. Hann staldraði við í 10 daga. Sinnti gjöfum, eftirliti og öðru sem þarf að gera í sauðburði. Þar var mikið lagt upp úr snyrtimennsku, að sópa vel og raða öllu sem best. Þegar síðasti dagurinn rann upp var hann kominn í ferðafötin, drakk morgunkaffi og lagði upp. Fram undan var sund í Borgarnesi, fastur viðkomustaður eftir törnina.

Á sauðburðardögum rifjaði hann reglulega upp uppvaxtarárin í Skálavík, heyskapinn þar og veiðarnar. Hann lét sig dreyma um að fá að dvelja þar að sumarlagi og síðustu árin dvaldi hann þar nokkuð reglulega ásamt fjölskyldumeðlimum.

Í gegnum tíðina var hann þó duglegur að fara vestur, enda átti hann þar systkini sem hann hafði ánægju af að heimsækja og verja tíma með. Hann var upptekinn af hinu góða í fari fólks og dáðist að hæfileikum annarra og kunnáttu. Sjálfur var hann góðmenni sem naut samvista með vinum og fjölskyldu. Hann miklaðist ekki af verkum sínum en gladdist ef hann gat lagt öðrum lið.

Eftir stendur mynd frá dæmigerðum degi í sauðburði. Gylfi nýkominn aftur. Kominn í grænu stígvélin sem hann skildi eftir þegar réttarstörfum lauk haustið áður. Er úti að sinna kvöldverkum, eitt þeirra er að setja inn endurnar. Hann gengur upp með læknum í kvöldsólinni, á eftir honum hlaupa kiðlingar sem kunna að njóta vordaga og Gylfi raular fyrir munni sér lagstúf, hugsanlega Undir bláhimni, eða Undir Dalanna sól sem hann hefur gaman af að hlusta á og óskar gjarnan eftir að verði tekið á söngskrá þegar sungið er eftir réttarstörf að hausti. Hann tekur ekki þátt í fleiri slíkum stundum en það verður hugsað til hans við hliðið.

Trostan Agnarsson.

„Það tekur enga stund að eignast vin en ævina alla að vera vinur.“ Þetta spakmæli var á tréplatta sem ég færði Gylfa og Margréti fyrir áratugum. Þegar Gylfi flutti á Norðurbakkann sagði hann mér að þetta hefði verið með því fyrsta sem var hengt upp. Gylfi var sannur vinur vina sinna, vinskapur okkar hjóna og Margrétar og Gylfa hófst á Hverfisgötunni í Hafnarfirði um 1970. Ári síðar gerðumst við frumbyggjar í Norðurbænum, þau á Laufvangi og við á Suðurvangi. Seinna fara þau á Sævang og við á Vesturvang. Mikill vinskapur var okkar á milli og börnin á líkum aldri. Útilegur öll sumur, og síðan tóku við sumarbústaðarferðir, þorrablót og margt annað. Það var mikil sorg þegar Margrét okkar féll frá langt fyrir aldur fram aðeins 61 árs gömul. Því miður get ég ekki fylgt mínum kæra vini síðasta spölinn þar sem ég er erlendis, en innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar frá mér og börnum mínum, blessuð sé minning Gylfa.

Guðmunda Inga
Veturliðadóttir.