Júlíus Brynjar Pálsson fæddist 10. júní 1936. Hann lést 18. mars 2025.
Foreldrar hans voru Sigurlaug Júlíusdóttir húsmóðir, f. 11.9. 1918, d. 20.8. 1991, og Páll Sigurðsson, rakarameistari í Reykjavík, f. 4.1. 1918, d. 19.3. 2000.
Brynjar var aðeins nokkurra vikna gamall þegar hann fór í fóstur til móðurforeldra sinna, þeirra Brynhildar Jónsdóttur og Júlíusar Pálssonar, en þau bjuggu á Sauðárkróki. Hann ólst upp á Króknum á heimili afa síns og ömmu á Freyjugötu 11 og gekk í barnaskóla og gagnfræðaskóla þar. Hann fór síðan í Iðnskólann á Sauðárkróki og lauk námi í bifvélavirkjun. Brynjar bjó alla sína ævi á Króknum, fyrir utan rúmt ár þegar hann vann á Keflavíkurflugvelli, strax eftir að hann lauk gagnfræðaskóla.
Hann giftist Vibekku Bang (Vibbu) vorið 1963, en hún var dóttir apótekarahjónanna á Sauðárkróki, Ole og Minnu Bang.
Brynjar og Vibba eignuðust tvo syni, Pál Snævar, f. 1.3. 1965, hann er giftur Ingu Dóru Halldórsdóttur og eiga þau tvö börn, Ástdísi og Brynjar Snæ. Yngri sonurinn er Óli Arnar, f. 1.8. 1970. Barnabarnabörnin eru tvö.
Brynjar vann lengi vel hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, fyrst í kjötbúðinni á Freyjugötu, síðan hóf hann störf á bílaverkstæði kaupfélagsins og tæplega þrítugur tók hann við starfi framkvæmdastjóra bíla-, véla- og rafmagnsverkstæðis KS. Þar starfaði hann fram til ársins 1982, en þá stofnuðu þau Vibekka Bókabúð Brynjars sem þau starfræktu allt fram til ársins 2005. Fyrir utan að bækur og gjafavörur væru seldar í búðinni, var hægt að framkalla myndir, tryggja hjá TM og kaupa nýja bíla, en Brynjar var m.a. umboðsmaður Toyota í hátt í 40 ár.
Brynjar tók alla tíð mikinn þátt í félagsmálum og bar hag nærsamfélagsins fyrir brjósti. Hann var heiðursfélagi í Rótarýklúbbi Sauðárkróks, sat í sóknarnefnd og var um tíma formaður hennar, var formaður Stangaveiðifélags Sauðárkróks og sat í stjórn Bílgreinasambandsins. Hann var varamaður í bæjarstjórn Sauðárkróks fyrir K-lista óháðra og síðar Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórn Skagafjarðar, og var formaður hafnarnefndar um árabil, auk þess sem hann sat í stjórn Hafnarsambands sveitarfélaga og hafnarráði.
Útför Brynjars fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 14.
Pabbi var töffari af guðs náð, hann var flinkur glanni, keyrði hratt og lét taka eftir sér, var stríðinn og kátur, sagði sögur og vildi hafa gaman. Ánægðastur var hann þó þegar hann náði að heilla Vibbu Bang, fallegustu stelpuna á Króknum, en í upphafi sambandsins lét mamma hann vita af því að ef hann færi ekki að hægja á sér á Willys-jeppanum þá segðist afi Bang þurfa að kæra hann.
Pabbi var fæddur í Reykjavík, en fór nokkurra vikna gamall á Krókinn og bjó öll sín æskuár hjá ömmu sinni og afa á Freyjugötu 11. Æskuárin voru oft rifjuð upp og ljóst var að hann naut góðs atlætis. Mörgum sumrum eyddi hann með langömmu í Varmahlíð, en hún var matráður á hótelinu. Hann afgreiddi bensín og var sundlaugarvörður, en allra best þótti honum að þvo rúturnar fyrir bílstjórana og fá að færa þær á milli staða. Bíladellan greip hann ungan og hann naut þess að fá að fara í bíltúra með bílstjórum sem leyfðu stráknum að grípa í. Hann ákvað því að læra bifvélavirkjun á bílaverkstæði KS og lauk meistararéttindum, en fljótlega kom í ljós að sölumennska og stjórnun hentuðu honum betur og tæplega þrítugur var hann orðinn framkvæmdastjóri verkstæðisins.
Pabbi hafði gaman af samskiptum við fólk. Það var sama hvort hann var hjá KS eða eftir að hann og mamma hófu að reka Bókabúð Brynjars þá sótti fólk í að líta við, spyrja frétta, fara yfir það sem efst var á baugi eða heyra góða sögu. Hann hafði ríka þjónustulund og vildi hvers manns vanda leysa. Var stjórnsamur enda skjótur til ákvarðana og úrræðagóður. Gat líka verið snöggur upp ef því var að skipta en jafn fljótur að ná áttum aftur. Þessir eiginleikar gerðu það að verkum að hann var eftirsóttur og reiðubúinn til að taka þátt í ýmsum félagsstörfum og naut sín þar.
Hann var mér og mínum traustur bakhjarl og alltaf tilbúinn til þess að styðja við og oftar en ekki búinn að framkvæma hlutina sem ég var rétt að byrja að velta fyrir mér. Það voru ótal ferðir sem ég fékk að fara með honum sem krakki og aldrei vandamál, hvort sem það voru veiðiferðir eða vinnuferðir til Reykjavíkur. Hann var líka einstakur afi fyrir Ástdísi og Brynjar Snæ, börnin okkar Ingu Dóru.
Síðustu tvö árin fór að halla undan fæti hjá pabba, minnið fór að gefa sig og hann átti erfitt með að sætta sig það. Var hins vegar flinkur í samtölum við fólk þó svo hann væri ekki alltaf með hlutina á hreinu. Ef mér varð á að leiðrétta hann, þá hallaði hann sér að Óla bróður og sagði „það er ótrúlegt hvað hann Palli er minnugur“. Hann hélt í flest sín karaktereinkenni, var skjótur til svars, sagði sögur sem sumar höfðu reyndar tekið smá breytingum og hermdi eftir. Í einni af okkar síðustu ferðum í Varmahlíð var hann að herma eftir heimamanni, en eftirhermurnar urðu svo kröftugar að pabba svelgdist á og það varð að bruna beint í kaupfélagið og kaupa eina Cola.
Þó að elliglöpin breyttu ýmsu, þá breyttist ekki að Sauðárkrókur var og verður nafli alheimsins.
Takk fyrir allt elsku pabbi.
Páll Snævar.
Pabbi og mamma fóru að draga sig saman sumarið 1954. Hann þá 18 ára, nýkominn heim af Vellinum og nógu auðugur eftir á annað ár þar, til að geta keypt sér gamlan Willys-jeppa af Hermanni á Lóni með númeraplötunni K 217. Það var kannski ekki gott að mamma var að stinga af í húsmæðraskóla til Silkiborgar í Danmörku og skildi hann eftir á Króknum einn vetur. Ekki löngu áður en mamma dó, fyrir tíu árum, fundum við veskið sem hún hafði farið með út en inni í því var svarthvít mynd af kærastanum. Hún brosti og sagði, með blik í auga, að vinkonur hennar hefðu haldið að hann væri kvikmyndastjarna. Hún var enn skotin í honum.
Pabba þótti það miður að hann fæddist á Landspítalanum í Reykjavík. Það var eitthvað sem hann laumaði að fólki eins og skelfilegu leyndarmáli en naut þess að segja svo að hann hefði strax tíu daga gamall fengið það í gegn að flytja heim á Krók. Þar bjuggu amma hans og afi, Binna og Júlli, um litla drenginn í kommóðuskúffu í pínulitla húsinu sínu við Freyjugötu 11 sem þau deildu með annarri fjölskyldu.
Pabbi fékk snemma bíladellu, settist fyrst undir stýri á póstbílnum sex ára gamall og var orðinn aðstoðarökumaður hjá fjölskylduvininum og ökuþórnum Palla Sveinbjörns um tólf ára aldur – kannski fyrr. Hann hafði unun af því að keyra og keyrði mikið alla tíð.
Pabbi var glaðsinna og kunni ógrynni af sögum af Króknum og sagði þær af væntumþykju. Hann var óþolandi mannglöggur, forvitinn um fólk og kunni þá list að geta talað við alla af áhuga og glettni. Og þá meina ég alla. Ég held að það hafi verið sama hvar við komum, alltaf komst hann á gott spjall. Stundum hófst það með óvæntu útspili sem leiddi til þess að jafnvel lokaðasta fólk opnaði sig.
Við Palli ólumst upp í foreldrahúsum á Hólmagrundinni en ólíkt bróðir mínum flaug ég aldrei úr hreiðrinu. Bjó því með pabba alla tíð eða alveg þangað til hann varð að fá umönnun síðasta haust. Fyrst á sjúkrahúsinu á Króknum og síðan á Dvalarheimili aldraðra. Þá var minni hans verulega brugðið og hreyfigetan farin að minnka. Lífið fjaraði þá hratt undan honum.
Síðustu tvö árin hans heima reyndu stundum á. Pabbi var vanur að láta verkin tala og þolinmæði var því ekki hans stærsti kostur. Það var þó mesta furða hvað hann hélt í góða skapið þegar minnið og getan gaf sig, allar sögurnar hans urðu að hálfkveðnum vísum og andartakið varð óræður tími. Hann gat fengið kvíðaköst eins og eðlilegt er þegar maður veit hvorki stað né stund. Það gat því verið kvíðvænlegt að koma heim úr vinnu. Oftast var K 217 fyrir framan bílskúrinn og pabbi í stólnum sínum í stofunni. Stundum leið honum illa og spurði önugur hvar ég væri búinn að vera. En oftast leit hann hlýlega upp þegar hann varð var við mig og sagði: „Ert þetta þú, elsku hjartans vinurinn minn.“
Er hægt að hugsa sér hlýrri kveðju? Takk fyrir allt, elsku pabbi.
Óli Arnar.
Orginallinn fæddur í júní 1936, en slæmt þótti honum að fyrstu hjartaslögin og andardrættirnir væru utan lögsögu Skagafjarðar. Fyrstu sjö vikurnar þurfti hann að láta sig hafa það að anda að sér loftinu í höfuðborginni sem honum fannst alls ekki gott, þegar hugsað var til baka. Hann þurfti að lifa með þessu og talaði oft um það. Hann var svo sannfærandi að ég allt að því trúði því þegar hann lýsti því hversu gott hefði verið að flytja í Skagafjörðinn sjö vikna! Sannfæringarkrafturinn, glettnin og hláturinn sem samtvinnaðist frásagnargáfu hans fékk mig til að trúa nánast öllu.
Ég held að það hafi ekki fyrirfundist eins mikill Skagfirðingur og tengdapabbi. Þegar ég heyrði í honum og spurði frétta var alltaf gott veður þótt veðurfréttirnar hefðu sagt annað. Í Skagafirði var hreinlega allt best.
Ég, Svarfdælingurinn sjálfur, þurfti að hafa mig alla við að mæta tengdapabba í rökræðum um hvort Skagafjörður eða Svarfaðardalurinn væri fallegri. Ég er þrjósk og hann enn þrjóskari.
Oftar en ekki þegar við komum við hjá tengdaforeldrum mínum á leið norður um heiðar gall í tengdapabba: „Hvað eruð þið að þvælast þetta norður, það er ekkert að sjá!“ Svo hló hann ógurlega! Þetta var allt í nösunum á honum, enda var það þannig að þrátt fyrir allt átti hann ættir að rekja norður í Svarfaðardal.
Tengdapabbi var oftar en ekki snöggur til svara og fyllti í eyðurnar ef hann vissi ekki svarið. Það var betra að gera það þannig en ekki. Brynjar yngri lærði þessa tækni af afa sínum og sýndi það á leiksýningu á Króknum þegar afi hans þekkti ekki alla leikarana. Var þá farið að ræða um nöfn á leikurum og fyllti sá stutti í eyðurnar. Binni afi gleypti þetta en var þó í vafa þar sem nöfnin voru nú ekki nógu skagfirsk. Þetta var ekki leiðrétt fyrr en löngu seinna. Þarna féll Brynjar eldri á eigin bragði og var skemmt!
Elsku tengdapabbi, þvílíkur meistari og gleðigjafi. Hann var meistari í svo mörgu og sér í lagi samskiptum sem er svo mikilvægt í dag. Hann talaði við unga sem aldna. Hann var góður í að hlusta og einstaklega góður félagi og vinur fólks á öllum aldri. Hann gaf sig að vinum og vinkonum barnanna okkar og spurði oft fregna af þeim. Hann fylgdist vel með og var umhugað um þau. Kærleikurinn var allt um kring.
Einn af mínum uppáhaldslagatextum var saminn af tveimur nemendum í grunnskólanum á Hofsósi í tengslum við íslenskuverkefnið Málæði og heitir Riddari kærleikans. Mér finnst hann mjög lýsandi fyrir tengdapabba, hann var svo sannarlega einn af riddurum kærleikans. Eftirfarandi er brot úr textanum:
Vertu sól fyrir þá
sem birtuna ei sjá.
Vertu vin fyrir þann
sem vonleysið fann.
Vertu viti á leið
fyrir vini í neyð.
Vertu riddari kærleikans.
(Dagmar Helga og
Valgerður Rakel)
Sannur öðlingur og Skagfirðingur. Hann var dýrmætur samfélaginu þar sem hver og einn skiptir svo miklu máli, hann snart strengi allra. Hjartað sló í Skagafirði og síðasti andardrátturinn var dreginn undir tónum Geirmundar Valtýssonar.
Takk fyrir þig!
Þín tengdadóttir,
Inga Dóra Halldórsdóttir.
Ég sit og hlusta á Geirmund Valtýs á meðan ég rifja upp góðar minningar af afa mínum Binna. Í minningunni var fátt annað sem hljómaði í bílnum hans en tónlist frá Geirmundi eða Álftagerðisbræðrum, enda sagði afi að gæðin leyndust einungis í því sem skagfirskt væri.
Það var alltaf notalegt að koma á Hólmagrundina. Hvort sem það var sem barn eða fullorðin. Sem barn vantaði aldrei cocopuffs fyrir dömuna og það sem best var að það var keypt nýmjólk með því. Afi leyfði mér oftar en ekki að koma með sér í bókabúðina eftir hádegi á virkum dögum þegar ég var fyrir norðan þar sem ég fékk meðal annars að telja klinkið í afgreiðslukassanum og hafði gaman af. Ég upplifði mig fullorðna og hafa tilgang. Afi leyfði mér hiklaust að fylgja sér í flest verkefni og hafði gaman af samverunni. Við fórum oft í bíltúra, hlustuðum á tónlist og afi sagði mér sögur af gömlum tímum í Skagafirði. Á kvöldin var borðaður góður matur og áfram notið samverunnar. Afi sagði að ég mætti aldrei láta mér leiðast á Króknum, en það gerði ég heldur aldrei. Það var alltaf skemmtilegt í hans návist og mikið hlegið. Sem unglingur og fullorðin sótti ég áfram í að fara á Krókinn þar sem hann dekraði sannarlega við mig, eldaði góðan mat eins og til dæmis kjötfarsbollur með sinnepssmjöri og aromati og sagði að ég mætti ekki fara frá borði fyrr en ég væri búin með þrjá diska að minnsta kosti. Þá var ráð að setja bara eina bollu á diskinn í einu og leika á hann eins og hann lék svo oft á mig!
Afi var mikið gæðablóð. Einstakur afi og mikill prakkari. Hann var stríðinn og snöggur til svara. Hann gat bullað út í eitt hverja vitleysuna á fætur annarri og var svo afskaplega fyndinn og sniðugur. Hann var jafnframt hlýr, traustur og veitti öryggi. Eftir því sem ég eltist áttum við mörg og innihaldsrík samtöl svo klukkustundum skipti. Hann fylgdist vel með lífi mínu og hrósaði mér óspart. Hann var hvetjandi og það var gott að finna hve stoltur hann var af mér og okkur systkinum. Hann var sömuleiðis afskaplega góður langafi og átti margar góðar stundir með Rúnari Páli syni mínum, þar sem þeir nutu návistar hvor annars og hlógu mikið. Ingu Kristínu yngri dóttur mína hitti hann nokkrum sinnum þegar farið var að halla undir fæti hjá honum en hann sagði að það væri alveg dýrlegt að vera langafi þeirra beggja.
Ég kveð afa með miklum söknuði og sorg í hjarta en ég heiti því að æfa mig í að verða eins góð í frásögnum og hann var og halda þannig minningu hans á lofti í lífi langafabarna hans. Honum þakka ég fyrir allt sem hann veitti mér og allar okkar mörgu stundir saman. Ég er stolt af því að hafa verið hans.
Ég lít í anda liðna tíð,
er leynt í hjarta geymi.
Sú ljúfa minning; létt og hljótt
hún læðist til mín dag og nótt,
svo aldrei, aldrei gleymi.
(Halla Eyjólfsdóttir.)
Þín sonardóttir,
Ástdís Pálsdóttir Bang.
Binni Júlla hét hann á Króknum, kenndur við afa sinn. Brynhildur Jónsdóttir og Júlíus Pálsson móðurforeldrar hans áttu lítið hús við Freyjugötu og ólu strákinn upp. Hjá þeim var gestkvæmt og þar naut hann ástríkis, enda reyndist hann þeim einstaklega vel þegar elli sótti á þau. Binni byrjaði að keyra hjá Palla Sveinbjörns um leið og hann náði niður á bensíngjöfina, en sá lítið út; lenti þó aldrei í hremmingum á bíl, hvorki þá né síðar þótt hann æki stundum greitt. Eignaðist snemma jeppa, síðar ótal mismunandi bíla. Allir vissu hver ók K 217. Þegar ég sleit gúmmískónum heima á Krók var Binni annálaður ökumaður, eins konar Súpermann í þeirra hópi og við peyjarnir töldum hann eiga heimsmetið á leiðinni Sauðárkrókur/Reykjavík; tímann man ég ekki!
Binni byrjaði að læra kjötvinnslu hjá Sveini í kjötbúðinni, verteraði síðan yfir í bifvélavirkjun og stýrði lengi bílaverkstæði KS. Svo keypti hann bókabúðina og byggði yfir hana í samlögum við aðra þar sem nú er Landsbankinn við Kirkjutorg; Bókabúð Brynjars var opin Króksurum 1982-2005.
Binni er eiginlega fyrir löngu orðin þjóðsagnapersóna heima á Krók. Hann var reglusamur í hvívetna, fór víða og hvarvetna mikill gleðigjafi, sagði sögur, hermdi eftir, var vel að sér í ættfræði og þekkti gamla Krók betur en flestir samtíðarmenn, leiddi hópa um bæinn og kom víða við. „Nú lýgur þú, Binni,“ sagði einhver þegar honum þótti sagan ótrúleg. „Ég lýg aldrei,“ svaraði Binni, „en það kemur fyrir að ég mismæli mig. Síðast 1978 ef ég man rétt.“ Hann var einstaklega greiðvikinn, skutlaði mönnum til Reykjavíkur, Akureyrar, vestur á Ísafjörð o.s.frv. Og var snöggur í þeim snúningum. Mér er ekki grunlaust um að hann hafi setið uppi með nokkra víxla sem hann skrifaði upp á fyrir óreiðumenn í fjármálum. En gleði sinni hélt hann samt óskertri. Hann var þó síður en svo skaplaus og mundi lengi ef menn gerðu ódrengilega á hans hlut. Hann var sjálfstæðismaður alveg inn að beini þótt hann tæki nokkur hliðarspor með K-listanum í bæjarstjórn.
Binni eignaðist góða konu þar sem var hún Vibba, glæsileg til orðs og æðis, Vibeke Bang. Binni sótti hana út í apótek þegar hann var að læra kjötvinnsluna, ók hraðfari út Aðalgötu og sneri bílnum í hálfhring með handbremsunni fyrir utan apótekið. Rykmökkurinn og hávaðinn fór ekki fram hjá neinum og Bang leit upp og sagði með hægðinni: „Vibeke, pölsedrengen er kommet.“ Þau voru ung og ástfangin alla tíð. Ekki var ónýtt að heimsækja þau á Hólmagrund og spjalla; þar var meira hlegið en í öðrum húsum. Eftir að Vibba dó héldu þeir heimili saman Binni og Óli Arnar og ekki var síður ánægjulegt að sitja með þeim við eldhúsborðið eða í stofunni. Það er mikil eftirsjá að Júlladrengnum, eins og við sögðum stundum, hann var gull af manni. Drengjunum hans og öðrum ástvinum sendi ég samúðarkveðjur. Fari hann nú sæll til sinna.
Sölvi Sveinsson.
Stuttu eftir að við fluttum á Krókinn kom til okkar glaðbeittur, kvikur maður á bílaþvottastæði á laugardagssíðdegi og fagnaði okkur innilega og bauð okkur velkomin á Krókinn. Var þar kominn Binni Júlla sem Addý hafði heyrt svo margar sögur af – mistrúanlegar – en átti eftir að koma í ljós að voru allar sannar. Eftir stutt spjall þeirra Árna um menn og málefni spyr hann okkur hvort við vildum ekki koma með heim í kaffi til hennar Vibbu sinnar. Hann væri nýkominn heim frá Reykjavík með ekta dönsk vínarbrauð! Þegar við komum á Hólmagrundina tók Vibba okkur opnum örmum í bláu smekkgallabuxunum, sem við munum svo vel eftir úr Bókabúðinni. Og það voru ekki bara vínarbrauðin sem voru dönsk heldur var heimilið eins danskt og dönsk heimili gerðust best og sérlega notalegt.
Eftir þetta voru Vibba og Binni sem eitt fyrir okkur og annars verður ekki minnst án hins. Við áttum margar góðar stundir með þeim, á Hólmagrundinni, í sumarbústaðnum þeirra, hér í Árbóli og nokkrum sinnum í Danmörku. M.a. fórum við einstaklega skemmtilega ferð með þeim til Danmerkur eftir að þau höfðu byggt Bókabúðina sína að Suðurgötu 1. „Flottasta bókabúðin á landinu“, eins og Binni sagði, og Addý fannst alltaf að hann hefði byggt hana fyrir Vibbu sína, enda bar hann hana á höndum sér og þeirra samband var einlægt og fallegt.
Um tíma voru Vibba og Addý duglegar að ganga saman. Móttökurnar hans Binna eftir kaldan göngutúr á Borgarsandi voru höfðinglegar og yljuðu á sál og líkama. Þetta kunni hann!
Binni var gamansamur og fróður, kunni ógrynni af sögum sem hann sagði skemmtilega. Hann fæddist í Reykjavík en bað fólk að hafa ekki hátt um það og bætti við að hann hefði verið kominn á Krókinn innan við vikugamall. Hann ólst upp hjá afa sínum, Júlíusi og ömmu, Brynhildi, og var alltaf kenndur við afa sinn, Binni Júlla. Á bernskuárum var hann oft sumarlangt með ömmu sinni í Varmahlíð, í miðri þjóðvegarumferðinni. Kannski vaknaði bíladellan þar.
Binni sinnti félags- og bæjarmálum á Sauðárkróki ötullega og af myndugleik en kirkju- og hafnarmál stóðu huga hans næst.
Með Binna er horfinn af sjónarsviði Króksins einstakur maður sem var sterkur í bæjarmyndinni og einn þeirra sem gerðu Krókinn að því samfélagi sem hann er í dag. Margir fóru léttari og glaðari af fundi hans og margir nutu góðsemi hans, þótt það sé ekki á allra vitorði.
Við hittum Binna síðast á sjúkrahúsinu. Hann fagnaði okkur jafn vel og í fyrsta skiptið. Þarna áttum við góða stund og þeir Árni rifjuðu upp góðar sögur af bílunum hans og „köllunum“ á Króknum. Addý kom auga á myndir af þeim Vibbu frá því þau voru ung og hafði orð á því hvað þau hefðu verið glæsileg. Hann brosti og sagði: „Já, hún Vibba mín …“ og svo voru þau orð ekki fleiri.
Við kveðjum Binna með væntumþykju og virðingu og þakklæti fyrir allar góðar stundir. Nú er hann kominn til Vibbu sinnar í græna pilsinu sem hann mundi svo vel eftir (með leyfi Óla) og þau skella sér á góðan rúnt.
Elsku Óli, Palli og fjölskylda. Megi góðar minningar vera ykkur styrkur.
Ásdís (Addý) og Árni.
Í dag kveðjum við góðan félaga, Brynjar Pálsson, sem var virkur í félagsstarfi sjálfstæðismanna á Sauðárkróki og í Skagafirði, allt þar til veikindi fóru að hrjá hann. Hann fylgdist alltaf vel með og lét það ekki að vera að kjósa.
Binni Júlla, eins og hann var ávallt kallaður, var virkur í umræðunni, mætti á alla viðburði og lagði oftast eitthvað af viti til málanna, hélt mönnum við efnið og var gott að leita til hans þegar annað álit vantaði. Einnig var hann duglegur á kosningaskrifstofunni og gott að eiga hann að því hann var góður og glettinn í tilsvörum og gat róað flesta menn.
Binni bar merki Sauðárkróks hátt á lofti enda var hann „orginal“ Króksari og það fékk maður að vita reglulega frá honum.
Binni barðist ötullega fyrir hafnarmálum á Sauðárkróki. Höfnin var honum hugleikin og var hann einn af þeim sem börðust fyrir þeirri uppbyggingu sem hófst þar á níunda áratugnum og stendur enn í dag. Hann sat í Hafnarnefnd, í Hafnarsambandi sveitarfélaga og einnig sat hann í Hafnarráði.
Við þökkum Brynjari Júlíussyni fyrir framlag hans fyrir flokkinn og samfélagið allt, hans verður sárt saknað úr starfinu og að sjá hann ekki á ferðinni um héraðið þar sem hann var að taka út mannlífið og líta eftir framþróun samfélagsins.
Fjölskyldu Brynjars vottum við samúð okkar.
F.h. Sjálfstæðisfélags Skagafjarðar,
Jóel Þór Árnason.
Vinur minn og góður félagi Brynjar Pálsson (Binni Júlla) er fallinn frá eftir að hafa dvalið á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki undanfarin misseri. Kynni okkar Binna hófust í kringum 1980. Þá fékk hann mig til að spila undir fyrir Rótarýkórinn og það gerði ég svo í mörg ár þegar árshátíð klúbbsins var haldin í nóvember á hverju ári. Á æfingum, sem fyrstu árin voru alltaf haldnar heima hjá okkur Mínu, var alltaf mikil gleði og gaman enda mestu snillingar Króksins samankomnir að syngja og húmoristar með þvílík innskot á milli laga. Brynjar var alltaf kynnir og gerði hverju lagi góð skil og skaut góðum skotum á Rótarýfélagana í kórnum og einnig skaut hann á gesti frammi í sal við góðar undirtektir. Binni var mikill gleðimaður þótt hann smakkaði aldrei vín og það líkaði mér vel. Binni vildi alltaf láta eitthvað vera að gerast og þess vegna bjó hann til árshátíð Stangaveiðifélags Sauðárkróks og hún var alltaf haldin síðustu helgina í janúar í Bifröst eins og aðrar hátíðir á þessum tíma. Þar smalaði Binni saman mörgu góðu söngfólki og ég spilaði undir. Svona gekk lífið ár eftir ár og alltaf jafn gaman.
Brynjar var lengi forstöðumaður Bílaverkstæðis KS, síðan opnaði hann Bókabúð Brynjars og rak hana í mörg ár. Þá var Brynjar lengi umboðsmaður fyrir Toyota hér á svæðinu og keyrði annar hver maður hér í Skagafirði um á Toyota-bifreið þegar best lét.
Binni var mikill kirkjunnar maður og var lengi formaður sóknarnefndar Sauðárkókssafnaðar. Eins var hann í bæjarstjórn Sauðárkróks um árabil.
Binni var mikill orginal Króksari og talaði máli Sauðárkróks hvar sem hann gat komið því við og er honum þakkað fyrir það.
Ekki má gleyma konunni hans, Vibeku Bang eða Vibbu eins og hún var kölluð. Hún féll frá árið 2015 og það var mikill missir fyrir Brynjar og fjölskylduna. Þau eignuðust tvo drengi, Pál Snævar sem er framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og býr í Borgarnesi ásamt fjölskyldu og Óla Arnar sem er ritstjóri Feykis á Sauðárkróki og býr á Hólmagrundinni.
Við viljum að lokum þakka Binna fyrir allt samstarfið sem við áttum í söng og gleði, síðan bið ég Guð að blessa bræðurna Óla og Palla.
Mínerva Björnsdóttir og Geirmundur Valtýsson.
Fallinn er frá góður vinur og samstarfsfélagi, Brynjar Pálsson. Hann var í samfélaginu á Króknum gjarnan kenndur við afa sinn og kallaður Binni Júlla og í seinni tíð bóksalinn. Fyrst man ég eftir honum í bílabúðinni, en svo var varahlutaverslunin á verkstæði KS jafnan nefnd. Þar þjónustaði hann viðskiptavini glaður og hress og jafnan með einhver spaugsyrði á vörum, um leið og hann leysti hvers manns vanda.
Árið 1982 keypti Brynjar, ásamt konu sinni Vibeku Bang, bókabúðina á Sauðárkróki af þeim Árna Blöndal og Maríu Gísladóttur, en afi Árna, Kristján Blöndal, stofnaði þá verslun laust fyrir aldamótin 1900. Ráku þau Brynjar og Vibba Bókabúð Brynjars í rúm tuttugu ár og var mikill sjónarsviptir þegar þeim rekstri var hætt 2005. Ávallt var notalegt að koma til þeirra í búðina eða setjast inn á kontór og ræða málin. Eitt sinn benti ég á málverk sem hékk þar uppi á vegg af Villa Nova, sem Ásta Pálsdóttir hafði málað, og spurði hvað það kostaði. Brynjar sagði verðið og ég fór að tala um eitthvað annað. Þegar ég sýndi á mér fararsnið tók hann málverkið af veggnum, rétti mér og sagði: „Ef þú tímir ekki að kaupa það, þá máttu eiga það.“
Það var líka notalegt að koma heim til þeirra Binna og Vibbu á Hólmagrundina. Rætur Vibeku voru í Árósum og heimilið bar þess merki. Þar gætti danskra áhrifa í smekkvísi og húsbúnaði. Vænt þótti okkur Þuríði um að geta lánað þeim íbúð sem við höfðum á leigu í Mejlgade í Árósum vorið 2008, er þau fóru að vitja ættingja Vibeku. Þau töluðu oft um það og voru þakklát. Þegar bóksalinn vildi borga fyrir minnti ég hann á málverkið góða.
Eftir sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði 1998 unnum við Brynjar saman við sveitarstjórnarmál í tvö kjörtímabil, til ársins 2006, og fór vel á með okkur. Hann var m.a. formaður samgöngunefndar og lét sér annt um höfnina á Sauðárkróki og hafði forystu um framkvæmdir þar. Hann hélt upp á hafnardaginn með miklum glæsibrag. Hann sat einnig í hafnarráði.
Brynjar var einlægur kirkjunnar maður og var hann formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju til margra ára. Því starfi sinnti hann einnig af alúð og dugnaði og oft lágu leiðir okkar saman á þeim vettvangi. Hann bar sterkar taugar til Löngumýrar, sem er fræðslusetur í eigu þjóðkirkjunnar, en Brynhildur amma hans ólst þar upp, svo og Sigurlaug móðir hans, og var Binni þar oft á æskuárum. Fyrir nokkrum árum færði hann Löngumýri að gjöf ljósrit af Guðbrandsbiblíu, sem hann afhenti við hátíðlega athöfn. Minnisstæð er einnig ræðan sem hann hélt á aðventuhátíð í Löngumýrarkapellu, þar sem teygðist nokkuð á lokaorðunum og allir höfðu gaman af.
Ég kveð góðan vin með þakklæti í huga. Vandamál voru ekki til í hans huga, bara verkefni. Hann hlustaði ef eitthvað lá manni á hjarta og sagði svo. „Já, við reddum því.“ Megir þú glaður ganga til nýrrar dögunar í Guðs ríki.
Gísli Gunnarsson, Hólum.
Í dag kveðjum við félagar í Rótarýklúbbi Sauðárkróks heiðursfélaga okkar, Brynjar Pálsson. Hann var rótarýfélagi í 56 ár, virkur og skapandi í félagsstarfinu, jákvæður og hvetjandi. Þar sem hann var ríkti gleði og gaman, hvort sem það var á venjulegum fundum eða hátíðarfundum. Hann hafði því mikil áhrif á andrúmsloftið á fundum okkar og fundarmenningu. Með framgöngu sinni og hátterni veittist honum auðvelt að hæna menn með sér til starfa, aðalstjórnandi Rótarýkórsins sem tróð upp á öllum árshátíðum klúbbsins ásamt Geirmundi, og var hugmyndasmiður að mörgum verkefnum og starfsþáttum, var einkum áhugasamur um staðbundin samfélagsverkefni klúbbsins, síður um alþjóðaverkefni Rótarýhreyfingarinnar. Þessir eiginleikar Brynjars skiluðu honum árangri í verkum utan klúbbsins, bæði í sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju, sveitarstjórnarmálum og hafnarmálum á Sauðárkróki og á sviði hafnasambands sveitarfélaga. Alls staðar vann hann af stórhug en með lítillæti og aflaði sér virðingar og vináttu. Að honum er mikill missir.
Við Rótarýfélagar á Króknum söknum vinar í stað. Skarð hans verður vandfyllt. Sonum hans og fjölskyldu allri sendum við samúðarkveðjur. Minning um einstakan dreng og félaga mun lifa og hugga.
F.h. Rótarýklúbbs Sauðárkróks,
Árni Ragnarsson.
hinsta kveðja
Kæri Brynjar.
Far þú vel vinurinn sanni,
með hjartað á réttum stað.
Öðlingur varstu af manni,
guðsgjöf er þakkað það.
Heill og ljúfur í ranni,
ást og kærleikur þar var.
Hlýjum og góðum manni
kveðja mín fylgi þér þar.
Ragnheiður Hákonardóttir.