Jón Þormar Pálsson fæddist á Hvassafelli undir Eyjafjöllum 25. júní 1966. Hann varð bráðkvaddur skammt frá heimili sínu 22. mars 2025.
Foreldrar hans voru Vilborg Sigurjónsdóttir, f. 8.11. 1930 (látin), og Páll Magnússon, f. 27.11. 1922 (látinn). Systkini hans eru: Guðlaug, f. 11.5. 1952, Bergur, f. 27.7. 1953, Elín, f. 31.10. 1954, Rútur, f. 5.6. 1958, Sigurjón, f. 8.3. 1965, og Magnús f. 12.11. 1968 (látinn).
Hinn 12.7. 1990 eignast Jón Þormar dóttur sína, Huldu, með barnsmóður sinni Guðlaugu Þóru Jónsdóttur, f. 26.1. 1969.
Árið 1992 tekur Jón Þormar svo saman við Huldu Karólínu Harðardóttur, f. 17.3. 1973. Foreldrar hennar eru María Pálsdóttir, f. 6.5. 1944, og Hörður Guðmundsson, f. 30.1. 1936.
Jón Þormar og Hulda Karólína gengu í hjónaband 27.3. 1999. Þau eignast svo dóttur, Vilborgu Hrund, f. 22.9. 1999, maki Emil Stefánsson, f. 6.10. 2000. Árið 2000 festa þau kaup á Böðmóðsstöðum 2, sem var starfandi kúabú í eigu foreldra Huldu Karólínu. Þau eignast soninn Styrmi Snæ f. 19.12. 2002, maki Soffía Ýr Örvarsdóttir, f. 9.3. 2004. Yngsta barn þeirra fæðist svo 8.2. 2009, Hrannar Snær.
Jón Þormar gekk í grunnskólann í Skógum og þaðan lá leið hans í Fjölbrautaskóla Suðurlands, hann stundaði nám þar til tveggja ára og hóf svo nám í Garðyrkjuskóla ríkisins. Eftir skólagöngu tóku við ár með ýmsum störfum, þ. á m. tamningar, smíðar, slátrun og fleira.
Jón Þormar og Hulda Karólína ráku kúabú fram til desember 2022, þá var Jón Þormar búinn að vera að vinna í sláturhúsi á haustin. Síðastliðin ár vann hann hjá Landstólpa.
Útför fer fram frá Selfosskirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 13.
Streymt er frá útför:
https://ebkerfi.is/streymi/
Það er með miklum trega sem ég kveð elsku bróður minn Jón Þormar, næstyngsta bróðurinn sem dó aðeins 58 ára. Fyrir tæpum sex árum kvaddi Páll Magnús, sá yngsti, einungis 50 ára gamall, báðir kvöddu þeir langt um aldur fram. Þeir tilheyrðu yngri systkinahópnum og voru oft kallaðir okkar á milli „litlu strákarnir“.
Mínar fyrstu minningar um Jón Þormar eru frá því þegar hann fæddist, ég þá tæplega tólf ára og Sigurjón rúmlega eins. Í þá daga fæddust flest börnin í sveitinni heima. Föðurbróðir okkar var beðinn að fara með okkur í göngutúr á meðan fæðingin stóð yfir enda lét Jón vel í sér heyra frá fyrsta degi.
Rúmum tveimur árum seinna fæddist Maddi og mér er minnisstætt hvað við Guðlaug vorum óhressar með að mamma væri bara alltaf ólétt og svo kom enn einn strákurinn. Það hjálpaði að hann var svo rólegur að það vóg upp á móti ærslabelgjunum Sigurjóni og Jóni.
Þeir eldri voru mjög samrýmdir en gátu stundum hvorki verið sundur né saman, metingurinn var mikill og fjör þegar við klæddum þá í útifötin, það þurfti a.m.k. tvo í það verkefni því að alltaf rifust þeir eldri um hvor ætti að fara fyrst í stígvélin, Maddi sat álengdar og fylgdist með.
Áhugamálin voru mjög ólík hjá bræðrunum, yngsti sá ekkert annað en bíla og vélar, Jón hafði mikinn áhuga á blómum og oft sást til hans í brekkunum fyrir ofan bæinn, Sigurjón var allur í kindunum.
Skólagangan var rysjótt hjá „tvíburunum“, þeir voru ekki mjög áhugasamir enda hafði mamma mikið fyrir að troða einhverju inn hjá þeim með misjöfnum árangri, það kom sér vel að hún hafði ágætis þolinmæði.
Jón Þormar stamaði alla tíð en mismikið eftir álagi, en sem betur fer stóð það ekki í vegi fyrir honum og hann hvorki hikaði við að tjá sig eða svara fyrir sig. Mér finnst aðdáunarvert, þegar hann var kominn í framhaldsskóla, að hann lét einn kennarann sem hermdi eftir honum hafa það óþvegið, labbaði út úr kennslustund og kvartaði við skólastjórann. Kennarinn gerði ekki lítið úr honum eftir það.
Þegar Jón var kominn á fullorðinsár og búinn að eignast yndislega fjölskyldu var mjög mikill samgangur á milli okkar. Hann var mjög hugmyndaríkur og stundum fannst mér hugmyndirnar mjög háleitar, en hann prófaði allt mögulegt á lífsleiðinni, m.a. var hann með kanínurækt, svínarækt, stofnaði fyrirtæki undir nafninu „Ágæti“ beint frá býli og voru bjúgun frá Böðmóðsstöðum landsþekkt.
Eftir ævintýrið í kjötvinnslunni hóf hann sauðfjárrækt sem gekk mjög vel hjá honum enda með sérvaldar kindur af Ströndunum, við hlógum stundum að því að hann kallaði kindur ullarpöddur nokkrum áður en sauðfjárræktin hófst.
Þó að samband okkar Jón Þormars hafi rofnað fyrir nokkrum árum bar ég alltaf miklar tilfinningar til hans og þótti alltaf vænt um hann. Ég sakna hans sárt. Guð geymi þig, elsku Jón Þormar minn.
Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Huldu og fjölskyldu.
Elín Pálsdóttir.
Fallinn er frá mágur minn og vinur Jón Þormar langt um aldur fram.
Hvað segir maður þegar svona kemur fyrir? Jón var líklega svona átta ára gamall þegar ég fór að koma að Hvassafelli með Bergi bróður hans. Hann var líflegur ungur drengur, óþægur og á undan sinni samtíð hvað varðar buxnastíl, hann var illa gyrtur og með allt upp úr. Eitt sinn afsakaði tengdamamma fyrir gesti að strákarnir væru skítugir, þá sagði gesturinn að það sem sér þætti verst að sjá þegar hann kæmi í sveitina væri hreinir strákar og horaðir hundar.
Í eitt af fyrstu skiptunum sem ég kom á Hvassafell var verið að hirða bagga og var það helsta áhyggjuefnið hans og Sigurjóns hvort svona stelpa sem vann á skrifstofu réði nokkuð við að taka á þeim.
Eftir að við fluttum að Hólmahjáleigu dvaldi Jón Þormar oft hjá okkur, var vinnumaður og stundaði tamningar hrossa. Það var gott að hafa hann Jón, alveg sama hvað var borið á borð fyrir hann – allt var gott, hann raulaði bara lögin hans Bubba og hélt sínu striki á sínum hraða og sagði: „Hver er bestur?“ Það myndaðist væntumþykja með okkur Jóni Þormari sem aldrei bar skugga á.
Jón Þormar stamaði, en vinirnir sögðu að það gerði hann aldrei þegar hann talaði við stelpur. Hann hefur eflaust ekki stamað þegar hann kynntist sinni góðu konu Huldu Karólínu frá Böðmóðsstöðum og saman hófu þau búskap þar. Eftir að hann varð sjálfur bóndi voru samverustundirnar ekki eins margar en alltaf gott að koma þar, og ekki voru amaleg hangikjötslærin af feitum sauð sem komu hér fyrir hver jól.
Það er mikill söknuður að þessum eðaldreng.
Elsku Hulda Karólína, Hulda „litla“, Vilborg Hrund, Styrmir Snær og Hrannar Snær, ykkar missir er mikill.
Þangað til við sjáumst síðar.
Agnes Antonsdóttir.
Þegar ég fékk fregnir af því að Jón Þormar frændi væri fallinn frá þyrmdi yfir. Mér fannst sem heimurinn hefði misst hluta síns litaljóma. Jón Þormar var nefnilega einn sá allra litríkasti af ýmsum skrautlegum karakterum. Hann var sterkur og stóð fastur á sínu, lét sér fátt finnast um álit annarra, og framast öllu var hann sannur vinur vina sinna. Hann söng og hló hæst, hann var með breiðasta faðminn og stærsta hjartað. Hann var lífið í partíinu sem allir vildu vera með í.
Það var gott að eiga góðan vin í Jóni Þormari. Hann studdi mig alla tíð í minni hestamennsku og það má jafnvel segja að ég væri ekki á þeim stað sem ég er í dag ef ekki væri fyrir stuðning hans og Huldu Karólínu. Í góðu tómi minnti hann mig líka yfirleitt skælbrosandi á að hann „ætti svolítið í mér,“ sem mér þótti alltaf jafn vænt um að heyra.
Vænst þykir mér um minningarnar úr öllum hestaferðunum og ekki síst þeirri síðustu, þegar Böðmóðsstaðafjölskyldan bauð okkur Tjörva með í ferð upp í Hlöðufell, en þá höfðum við nýlega misst Hrafnhildi okkar. Ég veit að með því að bjóða okkur með vildu Jón Þormar og fjölskylda gera það sem þau gátu til að dreifa huga okkar, sem þau vissulega gerðu. Ferðin var ógleymanleg og minningin dýrmæt, sér í lagi núna við ótímabært og skyndilegt andlát Jóns Þormars.
Elsku Jón Þormar, ég mun sakna þín sárt en faðmurinn, söngurinn og brosið mun lifa í hjarta mínu. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til Huldu Karólínu, Huldu, Vilborgar, Styrmis, Hrannars og annarra fjölskyldumeðlima.
Heiðrún Sigurðardóttir.
Það er gráleitt að líta yfir Laugardalinn í dag enda hefur hann tapað lit úr regnboganum sínum. Þú varst einstaklega litríkur og skemmtilegur maður og erum við afar þakklát fyrir okkar áralöngu vináttu og gríðarmörgu samverustundir.
Það er okkur mjög mikils virði að geta kafað í minningabankann þessa dagana. Samvera í Landeyjunum, hrossastúss, kindastúss, bæði á Böðmóðsstöðum og Snorrastöðum sem m.a. leiddi okkur í margar frábærar kindakaupaferðir vestur á Strandir, í Ísafjarðardjúpið og enn lengra enda varstu stuðningsfulltrúinn okkar í sauðfjárræktinni, kaffispjall, að sitja saman og borða góðan mat og jafnvel dreypa á einum köldum með.
Einn sólríkan laugardag að vori kom símtal frá þér, það sást til sólar og þú spurðir hvort það væri ekki tilvalið að fagna því með því að hittast og grilla og svona mætti lengi telja. Svona varst þú.
Elsku Jón Þormar, við skiljum ekki hvernig það getur átt sér stað að þú hafir verið að gleðjast með okkur í Eyvindartungu laugardagskvöldið 22. mars og svo kemur þetta hræðilega högg á miðju kvöldi, að þú sért farinn.
Þú varst nýbúinn að koma í hús með bjöllusauðinn Bensa sem þú hafðir verið að temja fyrir vin þinn.
Það er greinilegt að þín hefur verið þörf við önnur verkefni á öðrum stað.
Við stöndum eftir hnípin og sorgmædd og full af söknuði en gerum okkar besta til að standa við bakið á Huldu þinni og börnunum ykkar öllum því þeirra missir er mestur.
Dætur okkar, þær Thelma Rún og Lovísa Ýr, biðja Guð að passa þig, þeim þótti ósköp mikið vænt um þig.
Elsku vinur okkar, hvíldu í friði „Og síðan hittumst við aftur á miðri leið“.
Jóhann Reynir og
Guðbjörg Þóra
(Jói og Gugga).
Glettinn augnsvipur, hallandi aðeins undir flatt og þögull um stund en brast svo á með góðlátlegum hlátri. Hrjúfur að utan en algert ljúfmenni við nánari kynni. Þetta er sú minning sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég minnist góðs vinar og samstarfsfélaga, Jóns Þormars, sem kvaddi okkur allt of snemma. Leiðir okkar Jóns lágu fyrst saman fyrir nokkuð mörgum árum en þá vorum við báðir kúabændur. Vissum síðan vel hvor af öðrum og svo tók hann að sér að reykja fyrir okkur hangiket og bjúgu árlega og aldrei klikkaði það. Hangiketið hjá honum var sannarlega alger fyrsta flokks vara og löngu orðin hluti af jólum okkar fjölskyldunnar.
Í gegnum tíðina þegar við hittumst barst búskapur oftar en ekki í tal og helst voru það umræður um sauðfé og hross. Það duldist engum sem þekktu Jón Þormar að þar var á ferðinni mikill skepnumaður. Hann var afskaplega næmur á skepnur og menn og verð ég að minnast aðeins á að síðastliðið vor lentum við í því að missa nýkastaða hryssu og barst Jóni það til eyrna. Sá var ekki seinn á sér að láta okkur vita að hann ætti eina nýkastaða hryssu. Hann hefði oft séð til hennar undanfarin ár leyfa öðrum folöldum að sjúga og við ættum að sækja hana sem fyrst og sjá hvort hún tæki ekki móðurleysingjann okkar að sér. Það fór svo að drifið var í því og það stóð heima að hún fóstraði okkar folald sem sitt eigið. Ekki var við komandi að Jón tæki greiðslu eða greiða fyrir viðvikið, heldur sagði hann okkur að taka sitt folald undan nú í haust en hryssan gæti mjólkað okkar fram eftir vetri. Þarna er Jóni best lýst sem bæði miklum dýra- og mannvini.
Jón hóf störf í byggingadeild fyrirtækis okkar fyrir rúmlega þremur árum. Hann var með eindæmum bóngóður og alveg sama hvað hann var beðinn um, alltaf leysti hann sín störf eftir bestu getu með sitt glettna bros á vör. Hann var sannur vinur samstarfsfélaga sinna og skipti þá engu máli á hvaða aldri þeir voru né af hvaða þjóðerni, þrátt fyrir að hann talaði aldrei annað en íslensku við þá. Hann var mikill gleðimaður að eðlisfari og var nýbúinn að hafa það á orði að nú væri bjart fram undan þar sem að næstu helgar væru eintóm veisluhöld og fjör. En svo fór sem fór og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.
Jóns er sárt saknað af okkur samstarfsfélögunum og verður hans skarð ekki fyllt. Blessuð sé minning hans. Ég votta Huldu og fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.
Arnar Bjarni Eiríksson.