Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sent erindi til innviðaráðuneytisins vegna stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í máli er lýtur að meintu vanhæfi Björns Gíslasonar borgarfulltrúa. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hefur verið efast um hæfi hans til að taka sæti í íþrótta- og tómstundaráði á sama tíma og hann er formaður Fylkis í Árbæ.
Í erindinu, sem Helgi Áss Grétarsson lögmaður og varaborgarfulltrúi sendi inn, er rifjað upp að fyrir tveimur árum hafi tveir embættismenn borgarinnar gefið út það lögfræðiálit að Björn væri vanhæfur, stöðu sinnar vegna. Björn kveðst hafa fengið hvatningu víða að um að bera það undir æðra sett stjórnvald hvort hægt sé að meina honum alfarið að sitja í fagráði þar sem reynsla hans og sérþekking nýtist vel. Er vísað til þess að þetta kunni að hafa fordæmisgildi fyrir marga aðra, víða um land.
Segir Helgi í erindi sínu að af þessum sökum hafi þótt mikilvægt að málið væri sett í formlegt ferli innan borgarstjórnar og að borgarstjórn myndi hafna því að kjósa hann í viðkomandi fagráð. Björn myndi þá hafa tækifæri til að skjóta málinu sjálfur til innviðaráðuneytisins. Málsmeðferð meirihlutans hafi aftur á móti í reynd frestað málinu enn frekar.
Vilja þeir annars vegar fá úr því skorið hvort málsmeðferð borgarstjórnar hinn 1. apríl 2025 hafi brotið á rétti borgarfulltrúans Björns um að geta sjálfur borið stjórnsýslu Reykjavíkurborgar undir æðra sett stjórnvald.
Hins vegar vilja þeir að innviðaráðuneytið taki til skoðunar hvort lögfræðiálitið frá mars 2023 standist. Sé á þetta grundvallaratriði fallist er þess krafist að Birni sé gefinn kostur á að koma á framfæri ítarlegri greinargerð um málið.