Sævar Þór Reinaldsson fæddist á Patreksfirði 20. júlí 1963 en ólst að mestu upp í Reykjavík. Hann lést á heimili sinu eftir stutta og erfiða baráttu við krabbamein 25. mars 2025.
Foreldrar hans voru Reinald Sævar Antonsson, f. 17. nóvember 1935, d. 1. mars 1973, og Guðlaug Hanna Sveinsdóttir, f. 30. ágúst 1937, d. 22. maí 1982.
Systur Sævars eru Helga Dóra, f. 10. janúar 1955, d. 27. mars 2019, Birgitta Svandís, f. 29. júní 1957, Hafdís Huld, f. 11. maí 1962, og Anna Bára, f. 20. september 1970.
Eiginkona Sævars er Sigríður Þóra Gabríelsdóttir, f. 27. mars 1970. Börn þeirra eru: 1) Hanna Björg, f. 3. desember 1987, maður hennar er Helgi Steinar Ólafsson og eiga þau saman fimm börn: Alexöndru Nótt, f. 2005, Sævar Óla, f. 2007, Þóreyju Ingu, f. 2009, d. 2009, Ólaf Steinar, f. 2010, og Viktor Leví, f. 2014. 2) Gabríel Þór, f. 22. ágúst 1989, sambýliskona hans er Rakel Lind Hafnadóttir og eiga þau saman þrjú börn: Helenu Mist, f. 2009, Sigríði Þóru, f. 2010, og Emilíu Sóleyju, f. 2017. 3) Elísabet Ýr, f. 11. janúar 1993, sambýlismaður hennar er Rasmus Bak Jensen og á hún fyrir þrjú börn: Liam Leo, f. 2015, Lucas Mána, f. 2017, og Hönnu Sofie, f. 2018.
Hann verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, þann 4. apríl 2025, kl. 15.
Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja á þessu kveðjubréfi, ég er bara ekki tilbúin að kveðja.
Við kynntumst þegar ég var bara 16 ára og þú 23. Við höfum haldist í hendur í gegnum súrt og sætt, við eignuðumst þrjú yndisleg börn sem sem hafa svo gefið okkur heil 11 barnabörn sem þú sást ekki sólina fyrir.
Bakkus þvældist fyrir þér en þú barðist eins og ljón við hann og náðir oft góðum tíma, en lengsti tíminn var núna síðast og þú varst svo stoltur.
Tveimur dögum áður en þú fórst ítrekaðir þú að ég ætti að skrá í bókina okkar að það væru komin 7 ár og 10 dagar og það mætti alls ekki gleyma dögunum því hver dagur skiptir máli.
Það er svo ótrúlegt að þú sért farinn.
Það er held ég aldrei hægt að undirbúa sig fyrir dauðann.
Þegar við fengum þessar hræðilegu fréttir úti á Spáni fyrir átta mánuðum að þú værir með ólæknandi krabbamein á 4. stigi kom ekkert annað til greina hjá þér en að fara til Íslands til að vera hjá börnunum og barnabörnunum sem þú elskaðir meira en allt annað, eða út fyrir endimörk alheimsins og aftur til baka eins og þú varst svo duglegur að segja við okkur öll.
Þér var nú ekki gefinn langur tími en þrjóskan var svo mikil að um það var talað uppi á dvalarheimilinu þar sem þú varst þegar það komu veikindatoppar.
Þú varst að undirbúa ferð til Spánar þegar þú veiktist í síðasta skiptið og ætluðum við að njóta þar í sólinni í einhverjar vikur en ekkert varð af þeirri ferð. Í staðinn ætla ég að varðveita allar góðu minningarnar sem við áttum og ylja mér við þær þar til minn tími kemur og ég hitti þig á ný.
Nú ertu laus við þjáningarnar og vonandi búinn að hitta alla sem á undan fóru og tala nú ekki um litlu afastelpuna hana Þóreyju Ingu.
Ég elska þig út fyrir endimörk alheimsins og aftur til baka.
Mér finnst við hæfi að kveðja með bæninni sem þú hélst svo upp á.
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
(Reinhold Niebuhr.)
Þín Sigga Tóta.
Sigríður Þóra.
Elsku pabbi minn.
Orð fá því ekki lýst hversu sárt ég sakna þín, þú ert tekinn allt of snemma frá okkur.
Ég er engan veginn tilbúin, það er svo margt sem þú áttir eftir að upplifa með okkur.
Takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Fyrir það sem þú sýndir mér og kenndir, fyrir að vera til staðar þegar ég þurfti á þér að halda.
Takk fyrir að hafa alltaf fulla trú á mér, jafnvel þótt ég hefði það ekki sjálf.
Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að halda áfram að gera þig stoltan.
Minning þín mun lifa áfram þótt þú sért farinn, við hittumst á ný þegar minn tími er kominn.
Ég elska þig endalaust.
Þín
Elísabet „Jónas“.
Elsku besti pabbi minn, það sem lífið er ósanngjarnt.
Þinn tími með okkur var langt frá því að vera kominn og ég svo fjarri því að vera tilbúin að missa þig.
Það eru svo margar góðar minningar sem hafa runnið fram síðustu daga og höfum við getað hlegið og grátið fullt yfir öllu saman. Þú skilur eftir svo stórt og djúpt spor, svo margar góðar stundir og mikið svakalega á ég eftir að lifa á þessum stundum, sérstaklega þessum síðustu mánuðum sem ég fékk að njóta með þér eftir að þú fluttir til mín. Uppistandinu sem þú hélst fyrir okkur mömmu rétt áður en þú kvaddir okkur.
Eins og þetta er erfitt og sárt þá var svo gott að sjá hversu friðsæll þú varðst þegar þinn tími kom. Það sást svo vel að nú loks varðst þú verkjalaus.
Ég vona að það sé líf eftir þetta líf og þú sért nú í faðmi þeirra sem hafa kvatt okkur, sért einhvers staðar að stríða einhverjum eða reyta af þér brandara. Jafnvel standir úti í vatni að renna fyrir fisk. Bara eitthvað sem þér finnst gaman að gera, án verkja og áhyggjulaus.
Á meðan mun ég vera hérna megin og minnast þín með gleði.
Ég mun halda minningu þinni á lofti, halda áfram að rifja upp allar góðu stundirnar, klaufaskapinn og hrekkina.
Ég vona að ég fái að hitta þig aftur, elsku pabbi.
Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn
vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.
En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér
því hamingjuna áttum við með þér.
(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)
Ég sakna þín. Ég elska þig út fyrir endamörk alheimsins og aftur til baka.
Þangað til næst. Þín
(Hannsa panns)
Hanna Björg
Elsku brósi minn.
Þá loksins fékkstu hvíldina.
Þegar Sigga hringdi í mig í júlí á síðasta ári og sagði mér stöðuna hjá þér varð ég ósköp döpur, eiginlega svo döpur að ég gat ekki hringt í þig.
En þú hringdir og varst svo sterkur og ekkert búinn að gefast upp fyrir þessum krabba, ætlaðir að koma heim, fara í þá meðferð sem væri þér í boði og svo vonandi aftur til Spánar þar sem þér leið best.
Þú peppaðir mig og gafst mér von þegar það hefði átt að vera öfugt.
En svona varst þú, algjör baráttujaxl.
Þú ert litli bróðir minn en samt eiginlega stóri, passaðir alltaf upp á mig og á ég margar þannig minningar frá æskunni okkar. Takk, elsku brósi minn.
Samband okkar var kannski ekkert of mikið í gegnum ævina en þannig var bara þetta líf, þú í þínu stússi og ég í mínu.
En okkur þótti mikið vænt hvort um annað og ég er svo þakklát fyrir þessa síðustu mánuði sem við náðum að tengjast svo vel aftur.
Nokkrum sinnum er ég búin að kveðja þig en þú stóðst alltaf upp aftur og varst ekki tilbúin að yfirgefa þessa jarðvist enda alltof snemmt.
Síðustu símtölin okkar voru góð og þú nokkuð hress og alltaf sagðir þú ég elska þig/ykkur þegar þú kvaddir, ég elska þig líka minn kæri.
Ég er þakklát fyrir tímann sem ég fékk með þér og fjölskyldunni þinni í ágúst þegar við Stebbi komum á Höfn og áttum góðar stundir með ykkur. Þrátt fyrir veikindin þín var húmorinn alltaf til staðar og engin uppgjöf.
Það var svo dásamlegt að sjá hvað þú átt góða sterka fjölskyldu sem hélt svo fallega utan um þig allt til loka og þú fékkst að deyja heima eins og þú vildir.
Elsku brósi minn, takk fyrir allt, sjáumst síðar.
Veit þú ert á góðum stað í Sumarlandinu að hitta alla sem þig langar að hitta og gera bara það sem gerir þig glaðan.
Elsku Sigga, Hanna, Gabríel, Elísabet og fjölskyldur, þið eigið alla mína samúð en munið góðu stundirnar og fallega lífið sem þið áttuð með honum.
Þín systir
Hafdís Huld Reinaldsdóttir
(Haddý).