Valdimar Karlsson var fæddur í Reykjavík 21. desember 1943. Hann lést á líknardeild Landspítalans 23. mars 2025 eftir stutt veikindi.
Hann var sonur Hjördísar Árnadóttur, f. 14.11. 1919, d. 10.2. 2002 og Karls Kristins Valdimarssonar, f. 1.10. 1918, d. 13.4. 2008.
Systur Valdimars voru María Karlsdóttir, f. 16.5. 1942, d. 27.5. 2024 og Kolbrún Karlsdóttir, f. 8.1. 1954.
Valdimar kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni 20.2. 1966, Björgu Halldóru Björgvinsdóttur, f. 29.2. 1944. Foreldrar hennar voru Ásta Sigríður Þorkelsdóttir, f. 20.8. 1915, d. 25.2. 2008 og Björgvin H. Björnsson, f. 24.8. 1915, d. 11.1. 1944.
Börn þeirra eru: 1) Kristinn Benedikt, f. 13.2. 1974, maki hans er Kristina Shagal, þau búa í Danmörku. Synir hans eru Benedikt Már, f. 26.2. 1995, Jakob Árni, f. 24.11. 2005, Sigursveinn Valdimar, f. 5.1. 2009, og barnabarnabarn Valdimars er Tóbías Nói Benediktsson, 1.11. 2022. Kristina á fyrir dæturnar Alisu og Veroniku. 2) Ásta Björg, f. 22.8. 1976, eiginmaður hennar er Jóhann Styrmir Sophusson, dóttir þeirra er Sesselja Sól, f. 9.3. 2009. Fyrir á Ásta Magdalenu Rut, f. 29.4. 1997 og Jóhann á fyrir Eydísi Ýri, f. 9.10. 2002 og barnabarnabarn Valdimars er Adrían Ágúst Magdalenuson, f. 9.8. 2017.
Valdimar bjó fyrstu tvö ár ævinnar á Bergþórugötu 10 í Reykjavík en síðan fluttist fjölskyldan í Melgerði 21 í Kópavogi. Þar bjó hann til tvítugs þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Valdimar gekk í Kópavogsskóla en eftir grunnskóla 17 ára gamall fór hann og lærði rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík. Þá var hann á samningi hjá Óla Jónasar hjá Huver-umboði. Hann útskrifaðist með sveinspróf 1966 og þar á eftir meistarapróf 1969. Þá tók hann til starfa sem rafverktaki, starfaði mikið fyrir Húsasmiðjuna, Ljós og orku og Rammagerðina svo eitthvað sé nefnt og átti stóran kúnnahóp sem leitaði aftur og aftur til hans. Hann kynnist eiginkonu sinni 1965 og hafa þau verið saman síðan og búið á mörgum stöðum innan höfuðborgarsvæðisins og hafa eignast marga góða vini á þessum 60 árum.
Útför Valdimars fer fram í Vídalínskirkju í dag, 4. apríl 2025, kl. 13.
Pabbi var yndislegur og harðduglegur maður.
Við vorum alltaf mjög góðir vinir og gátum rætt um allt milli himins og jarðar. Ég fann alltaf fyrir því hve stoltur pabbi var af mér og þykir mér óendanlega vænt um það.
Þegar ég var lítil fékk ég stundum að fara með honum í vinnuna og er mér minnisstætt þegar ég fór með honum í Grafarvoginn sem þá var nýtt hverfi og það voru bara nokkur hús þar, mér fannst ég vera komin langt upp í sveit. Þegar hann var enn að vinna hittumst við stundum í hádeginu og fengum okkur að borða saman og áttum gott spjall. Síðustu 10 starfsár sín var hann að vinna hjá Orkuveitunni og ég í næsta nágrenni, þá bauð hann mér stundum yfir í hádeginu og ég borðaði með honum í mötuneytinu. Pabbi var alltaf tilbúinn að hjálpa okkur og öllum sem þurftu aðstoð hans, hann unni vinnunni sinni og honum þótti eflaust gott að finna að fólk þyrfti á aðstoð hans að halda. Hann var mjög handlaginn og gat aðstoðað með allt milli himins og jarðar, einnig hafa elstu barnabörnin notið góðs af því.
Pabbi var alltaf flottur og vel tilhafður, og passaði sig að vera alltaf vel greiddur. Pabbi tók alltaf á móti okkur með opinn faðm og kvaddi eins þegar farið var, nánast til síðasta dags, þrátt fyrir að hafa þurft að bíta ansi mikið á jaxlinn undir það síðasta. Þó að það sé sárt að hugsa til þess hvað pabbi fékk stuttan tíma til að kveðja okkur, og við hann, þá veit ég samt að hann þjáist ekki lengur. Mig óraði ekki fyrir því hvað þetta tæki skamman tíma þrátt fyrir að vita að það væri ekki langt eftir. Lífið getur verið ansi ósanngjarnt en ég trúi því að þú sést sáttur með þín afrek í lífinu og öll 60 árin með mömmu. Ég er afar stolt af því að vera dóttir þín elsku pabbi minn.
Þín dóttir,
Ásta.
Í dag kveðjum við elsku Valla.
Það eru rúmlega 60 ár síðan þú komst inn í fjölskylduna, þegar þið Björg systir fóruð að „slá ykkur upp“ eins og sagt var. Ég man þegar þú komst að sækja hana á vörubílnum hans pabba þíns, svo mikill gæi. Þú varst einstaklega hlýr og ljúfur, ávallt tilbúinn að hjálpa og redda. Vinsæll og duglegur til vinnu sem rafvirki. Ég er svo þakklát fyrir allar þessar minningar og að hafa fengið þig inn í okkar líf. Og fyrir þann tíma þar sem ég sat með ykkur Björgu síðustu mánuði og við rifjuðum upp gamla tíma, fullt af yndislegum minningum.
Hvíl í friði, elsku mágur.
Innilega samúð til ykkar allra, elsku systir.
Þó í okkar feðrafold
falli allt sem lifir
enginn getur mokað mold
minningarnar yfir.
(Bjarni Jónsson frá Gröf)
Steinunn Þórisdóttir.