Guðmundur Einarsson, viðskiptafræðingur og fv. forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, lést á Landspítalanum 1. apríl, á 82. aldursári.
Guðmundur fæddist 25. júní 1943 í Reykholti í Borgarfirði og ólst þar upp við búskap og gróðurhúsaræktun. Foreldrar hans voru Einar Ingimar Guðnason, prófastur og kennari í Reykholti, og Steinunn Anna Bjarnadóttir, enskukennari og námsbókahöfundur í Reykholti.
Guðmundur gekk í Barnaskólann á Kleppjárnsreykjum 1950-55 og Reykholtsskóla 1955-58. Hann varð stúdent frá MR 1962 og vann við brúarsmíði meðfram því námi. Hann varð viðskiptafræðingur frá HÍ 1968.
Með háskólanámi starfaði hann við farþegaafgreiðslu hjá Flugfélagi Íslands og gáfust þá nokkur tækifæri til ferðalaga víða um heim. Eftir útskrift úr háskóla vann Guðmundur hjá Efnahagsstofnun, sem síðan hét Framkvæmdastofnun, 1968-1974, sinnti sem aukastarfi kennslu og reikningshaldi í Hótel- og veitingaskólanum. Þá var hann greinahöfundur fyrir ritið Quarterly Economic Review ca. 1972-1984. Hann var deildarstjóri launadeildar í fjármálaráðuneytinu 1974-1976 og var forstjóri Skipaútgerðar ríkisins 1976-1992, en þá var hún lögð niður. Hann stundaði sjálfstæð ráðgjafarstörf 1992-1994 og var síðan forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík og nágrenni 1994-2005 og með samruna í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var hann forstjóri til 2008. Þá vann hann fyrir heilbrigðis- og velferðarráðuneytið 2007-2011.
Guðmundur sat í bæjarstjórn Seltjarnarness, var varabæjarfulltrúi 1974-1978 og bæjarfulltrúi 1978-1990. Hann starfaði í ýmsum norrænum nefndum um samgöngumál 1974-1990, var formaður stjórnar Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi 1990-1994, og var í samstarfsnefnd um málefni aldraðra 2013-2016.
Guðmundur kom að ýmsum félagsmálum. Sat í stjórn Neytendasamtakanna 1972-1976, þar af formaður í tvö ár. Hann sat í miðstjórn og ýmsum öðrum nefndum á vegum Framsóknarflokksins frá 1970. Var félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness frá 1976 og forseti klúbbsins 1995-96. Hann var einnig í Oddfellowreglunni frá 1984. Þá átti hann sæti í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju frá 1990, var formaður 1994-2022 og varaformaður (til dauðadags).
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Dóra Sigurðardóttir, f. 1943, hjúkrunarfræðingur og fv. flugfreyja. Börn þeirra eru Sigurður Einar, f. 1969, Anna, f. 1971, og Margrét Rúna, f. 1976. Barnabörnin eru alls níu.