Njáll Torfason aflraunamaður lést á Maspalomas á Kanaríeyjum 1. apríl, 75 ára að aldri.
Njáll fæddist 28. febrúar 1950. Foreldrar hans voru Torfi Bryngeirsson, afreksmaður í frjálsum íþróttum, og Jóhanna Pétursdóttir húsfreyja.
Njáll vann ýmis störf, stundaði sjómennsku um árabil, starfaði sem heilari, nuddari og rak hótel og söluskála í Breiðdalsvík um tíma, þar sem hann bjó ásamt Kristínu, konu sinni.
Njáll varð landskunnur fyrir aflraunir margskonar og sló hann þar nokkur Íslandsmet. Keppti hann og kom fram á sýningum hér á landi og erlendis.
Meðal aflrauna hans var að draga bíla og rútu með löngutöng einni saman, hann gat losað sig úr fjötrum, gengið berfættur á glóðum og glerbrotum og lyft níðþungum hlutum, m.a. 278 kílóa Laufássteini með annarri hendi. Þá gat hann fest á sig hluti með hugarorkunni einni saman, t.d. úr járni og postulíni. Þá afrekaði hann að rífa tíu símaskrár í sundur á 16 sekúndum. Þessi afrek sýna að Njáll bjó yfir einstökum hæfileikum. Hann starfaði í Sálarrannsóknafélagi Íslands og tók m.a. að sér að reka óvætti úr húsum. Í samtali við Morgunblaðið árið 2013 sagðist hann aldrei hafa kallað sig miðil en hann væri hins vegar skyggn.
Njáll var þríkvæntur. Eftirlifandi eiginkona hans er Kristín G. Ársælsdóttir, f. 1953, en þau hafa verið búsett á Kanaríeyjum síðustu árin. Dóttir þeirra er Jóhanna, f. 1982, og sonur Kristínar er Einar Geirsson, f. 1972. Með Aðalheiði L. Aradóttur, f. 1951, eignaðist Njáll börnin Arnheiði Hönnu, f. 1970, og Njál Heiðar, f. 1972. Börn Njáls og Kolbrúnar Björnsdóttur, f. 1952, eru Jón Björn Njálsson, f. 1974, og Harpa Hrund Bjarnadóttir, f. 1978. Barnabörnin eru 16 talsins og eitt barnabarnabarn.