Unnur Dröfn Þórarinsdóttir fæddist 4. janúar 1977. Hún lést 8. mars 2025.
Útför Unnar Drafnar fór fram 21. mars 2025.
Elsku Unnur okkar.
Það er djúp og sár söknuður sem fylgir því að kveðja þig og mikið tómarúm myndast í lífið. Þú varst alltaf sú fyrsta sem kom upp í hugann þegar maður fékk hugmyndir um ferðalög, tónleika, bíó, ísrúnta, útlönd eða bara bíltúr út á land. Enginn rúntur var of langur fyrir þig. Þú varst alltaf til í allt. Það var ekki bara að þú værir alltaf til, þú varst líka svo frábær félagsskapur til að deila öllum þessum stundum með, aldrei neitt vesen, bara drífa sig af stað.
Þú varst sönn vinkona, alltaf til staðar í gleði sem sorg, hvort sem við vorum að fagna lífsins áföngum eða takast á við áskoranir, einnig þegar börnin okkar tóku sín skref áfram. Börnin okkar minnast þín sem hressu, skemmtilegu og gjafmildu vinkonu mömmu.
Lífið var til að njóta, það var þitt viðhorf. Þú kunnir að meta það fallega og góða. Góður matur, fallegir hlutir og ekkert gervidrasl. Helst tvennt af öllu og jafnvel aðeins auka líka svo þú gætir gefið vinum þínum og fjölskyldu með. Þín gjafmildi átti sér engin takmörk.
Þú hefur kennt okkur svo margt, jákvæðni, þrautseigju og undraverða æðruleysi þitt sem skein í gegnum allt. Það er því svo óraunverulegt að þú sért farin. Þú trúðir því svo innilega að þú myndir vinna þessa baráttu sem þú háðir, og trúin þín smitaði okkur öll. Við trúðum með þér.
Við hugsum til þín og hvernig þú hefðir viljað að við héldum áfram, rifjum upp óteljandi stundir þar sem við hlógum saman þar til við fengum magakrampa, sigrana sem við deildum, frasana þína sem við munum alltaf geyma, þeir voru ófáir og einstakir – alveg eins og þú.
Við munum halda minningunni um þig hátt á lofti, elsku Unnur. Þú ert og verður alltaf með okkur.
Þínar vinkonur,
María, Bryndís og Rita Hvönn.