Sturla Bragason, alltaf kallaður Stulli Braga, fæddist í Reykjavík 16. apríl 1950. Hann lést á Landspítalanum 8. mars 2025.
Foreldrar hans voru Bragi Einarsson, f. 1930, d. 1994, og Margrét Bettý Jónsdóttir, f. 1930, d. 1997. Bræður Stulla eru Þór Bragason, f. 1951, Jón Bragason, f. 1952, d. 2002, og Einar Bragi, f. 1965, d. 2019 .
Eftirlifandi eiginkona hans er Hrafnhildur Guðnadóttir, f. 1951, og synir þeirra eru Snorri Sturluson, f. 1974, og Guðni Örn Sturluson, f. 1980.
Stulli fór ungur í þjónanám til Danmerkur og vann á ýmsum veitingastöðum í Danmörku og á Íslandi. Seinna fluttist hann til Blönduóss og vann við ýmis störf ásamt því að þjóna á Hótel Blönduósi. Síðar nam hann kerfis- og kennslufræði og lauk starfsævi sinni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem kennari og kerfisstjóri. Alla tíð var hann mjög virkur í skátahreyfingunni.
Útför Sturlu fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 15.
Hinn ávallt hjálpsami og kæri félagi okkar Stulli er farinn heim, eins og við skátar segjum. Stulli var tilbúinn að takast á við allar þær áskoranir sem skátastarfið og lífið færði honum. Skátahjartað sló sterkt, sem sást svo sannarlega í starfi hans með skátahreyfingunni en líka í einkalífinu þegar þau Rabbý giftu sig á Landsmóti skáta í kirkjunni á Úlfljótsvatni. Tæknimálin voru hans sterka hlið síðustu árin í skátastarfi og með smiðjuhópnum færði hann fjölda ungmenna innsýn í hratt breytilega tækni heim á Smiðjudögum sem haldnir voru samhliða JOTA JOTI alheimsmóti skáta á netinu sem haldið er ár hvert.
Orðið „nei“ var ekki til í orðabók Stulla, allt var hægt og hann fann leiðir á öllum vandamálum sem leitað var til hans með, hvort sem það var með því að taka upp pensil, hamar og nagla, að koma á netsambandi fyrir heilt skátamót eða einfaldlega að finna tíma fyrir góðan kaffibolla og spjall.
Skátahreyfingin kveður góðan dreng og þakkar Stulla ævistarf hans fyrir æskulýðsstarf skáta á Íslandi, fyrir öll verkin stór sem smá og stuðning hans við þá sem þess þurftu á leiðinni.
Skátar sakna vinar í stað, fjölskyldu hans og ástvinum öllum sendi ég samúðarkveðjur.
Þú ert skáti horfinn heim,
himinn, jörð, ber sorgarkeim.
Vinar saknar vinafjöld,
varðar þökkin ævikvöld.
Sérhver hefur minning mál,
við munum tjöld og varðeldsbál,
bjartan hug og brosin þín,
þau bera ljósið inn til mín.
Kveðjustundin helg og hlý,
hugum okkar ríkir í.
Skátaminning, skátaspor,
skilja eftir sól og vor.
(H.Z.)
Hinsta kveðja frá Bandalagi íslenskra skáta.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi.
Leiðir okkar Stulla lágu saman í gegnum skátastarfið. Einarðir í því að besta leiðin til að ná árangri og hafa það gaman væri í gegnum skátaflokkinn. Með þá hugmynd að vopni stofnuðum við Smiðjuhópinn.
Smiðjuhópurinn er skátaflokkur stráka sem vill láta gott af sér leiða og stóð fyrir viðburðum og mótum um land allt þegar hæst lét. Hver úr sinni áttinni í skátalandslaginu en allir til í fjör og flókin viðfangsefni. Dæmi um verkefni þessa öfluga skátaflokks eru Smiðjudagar, Litli skátadagurinn og sýningin „Undraland“ í Ljósafossstöð sem leiddi af sér stofnun Fræðaseturs skáta sem nú rekur m.a. Skátasafnið á Úlfljótsvatni og ótal önnur verkefni.
Í þessum verkefnum var Stulli algjör klettur, mætti manna fyrstur til allra verka, útvegaði það sem í fyrstu var óhugsandi að útvega, léði öllum verkefnum alúð sína og þekkingu og var, þegar allt kemur til alls, gaurinn sem gerði svo margt mögulegt.
Þegar ég las félagsfræði við Háskóla Íslands voru mér kynntar áhugaverðar pælingar varðandi samsetningu einstaklinga sem mynda hóp.
Einhverjir þyrftu að vera hugsandi og halda sig til hlés en vera viðbúnir því að stíga á bremsuna þegar það ætti við, aðrir að hafa þann eiginleika að stíga á bensíngjöfina og vaða áfram og þriðji eiginleikinn lá í því að hafa í hópnum aðila sem geta haldið ró sinni, doka örlítið og sjá til hvort tímabært sé að bremsa eða gefa í.
Stulli límdi saman „bremsurnar“ og þá sem voru alltaf með „kjaftinn út á öxl„ með því að vera „alltaf til í allt“ en alltaf sæmilega raunsær.
Hans er sárt saknað. Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.
Guðmundur Pálsson og fjölskylda.