Steinfríður Ólafsdóttir fæddist á Siglufirði 27. júlí 1931. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Siglufirði 20. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Ólafur Kristinn Gottskálksson, f. 11.2. 1887, d. 4.11. 1958, og Ólína Sigríður Björnsdóttir, f. 14.7. 1887, d. 5.7. 1949.
Systkini Steinfríðar voru 10 talsins, þau Marselía Katrín, Solveig Gottfreða, Björn Stefán, Rögnvaldur Þorsteinn, Solveig Gottfreða, Einar Jakob, Erla, Gíslína Anna, Eybjörg og drengur, öll látin.
Eiginmaður Steinfríðar var Guðfinnur Grétar Aðalsteinsson frá Siglufirði, f. 29.9. 1934, d. 27.11. 2004. Þau giftu sig 25. desember 1959. Foreldrar Guðfinns voru Aðalsteinn Jónatansson, f. 20.5. 1900, d. 25.11. 1960, og Sigríður María Gísladóttir, f. 12.4. 1897, d. 17.3. 1986.
Börn Steinfríðar og Guðfinns eru Róbert, f. 11.3. 1957, maki Steinunn R. Árnadóttir, f. 21.7. 1957, Erla Helga, f. 24.8. 1959, maki Gunnlaugur S. Guðleifsson, f. 21.6. 1966, og Grétar, f. 9.12. 1967, d. 6.2. 2013, maki Valdís M. Stefánsdóttir, f. 12.3. 1974.
Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin fjórtán.
Steinfríður starfaði ýmist við verslunar- og þjónustustörf þar til hún alfarið sinnti heimilisstörfum. Þau hjónin bjuggu lengst af á Hlíðarvegi 6 og Steinfríður allt þar til hún fluttist á sjúkrahús síðustu vikur lífs síns.
Útför hennar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 13.
Mig langar til að minnast Steinu tengdamóður minnar. Það er ekki sjálfgefið að eignast góða tengdamömmu en þar datt ég í lukkupottinn. Steina var ekki bara tengdamamma heldur var hún líka frábær vinkona og einstök manneskja. Hún var einfaldlega best.
Það er svo margt sem ég á henni að þakka. Takk elsku Steina fyrir að leiðbeina mér þegar við Grétar byrjuðum að búa, takk fyrir að gæta barnanna okkar Grétars áður en þau komust á leikskólann og fyrir allar næturgistingarnar. Takk fyrir alla þolinmæðina við að kenna Stefaníu og Róbertu að lesa. Takk fyrir alla eldamennskuna, þá sérstaklega fyrir börnin þegar þeim þótti ekki nógu gott að borða heima hjá sér og hlupu yfir til ömmu til að sjá hvort hún ætti ekki eitthvað gott að borða, þá var iðulega skellt í grjónagraut handa þeim og þau komu alsæl heim.
Eitt sinn hringdir þú yfir til okkar og baðst mig um að senda Helga Rafn til þín því þú værir búin að elda gellur handa ykkur. Stefanía, Róberta, Vaka og Viktor heyrðu þegar ég kallaði á Helga og sagði honum að þú værir búin að elda gellurnar, þau hlupu á eftir þér og ætluðu sko ekki að missa af þessari veislu. Gellur hlutu að vera mjög góður matur. Þau misstu svo andlitið þegar þau sáu hvað þetta var. Símtalið um kvöldið og hláturinn þegar þú varst að segja mér frá þessu er ógleymanlegur.
Takk fyrir allan kraftinn og stuðninginn þegar Grétar fór. Án þín og mömmu hefði ég aldrei komist í gegnum þetta. Takk fyrir að elska mig og börnin. Steina var ekki bara amma barnanna og barnabarnanna minna heldur einnig allra vina þeirra líka, aldrei kölluð annað en amma Steina af þeim sem þekktu til. Takk fyrir að taka svona vel á móti Rúnari mínum þegar við fórum að vera saman og ég er svo þakklát fyrir að þegar ég sagði þér að við ætluðum að gifta okkur þá sagðir þú að þú mundir koma í brúðkaupið okkar. Það að fá þitt samþykki var mjög mikilvægt fyrir mig.
Í dag hugga ég mig við seinasta brosið sem ég fékk þann 20. mars. Ég verð dugleg að segja Aþenu Rán, Emil Örvari, Eriku Ýri og Ölbu Maríu sögur af langömmu Steinu þegar þau yngri eldast svo þau viti hversu einstök manneskja þú varst. Ég veit að þeir feðgar taka fagnandi á móti þér.
Ég elska þig.
Hún var einstök perla.
Afar fágæt perla,
skreytt fegurstu gimsteinum
sem glitraði á
og gerðu líf samferðamanna hennar
innihaldsríkara og fegurra.
Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,
gæddar svo mörgum af dýrmætustu
gjöfum Guðs.
Hún hafði ásjónu engils
sem frá stafaði ilmur
umhyggju og vináttu,
ástar og kærleika.
Hún var farvegur kærleika Guðs,
kærleika sem ekki krafðist endurgjalds.
Hún var vitnisburður
um bestu gjafir Guðs,
trúna, vonina, kærleikann og lífið.
Blessuð sé minning einstakrar perlu.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Valdís María Stefánsdóttir.
Elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín svo mikið. Mikið sem ég var heppin með þig sem ömmu mína.
Amma Steina var einstök kona með hjarta úr gulli, hún var amma mín og flestir sem ég þekki kalla hana líka ömmu Steinu hvort sem hún var amma þeirra eða ekki, hún tók öllum eins og þeir voru og var alltaf tilbúin að hlusta.
Ég eyddi miklum tíma hjá henni á Hlíðarveginum enda bjuggum við á ská á móti henni og ef það var vont í matinn heima var farið til ömmu að borða, hún átti alltaf eitthvað gott. Hún eyddi miklum tíma í að hjálpa mér með lestur sem ég átti erfitt með og fór ég daglega til hennar að lesa um tíma, ég man eftir því hvað hún var stolt af mér í eitt skiptið sem ég kom til hennar með límmiða sem ég hafði fengið fyrir framfarir í lestri, þessi límmiði er ennþá til og er í eldhúsglugganum heima hjá henni 20 árum seinna. Hún geymdi ótrúlegustu hluti frá okkur barnabörnunum og gerði þessa hluti svo mikið merkilegri en þeir voru.
Amma var einn af mínum helstu hvetjendum í lífinu og sagði mér óspart hversu mikla trú hún hefði á mér og að ef einhver myndi spjara sig þá myndi ég gera það. Hún var alltaf mjög hlý og umhyggjusöm við mig, hún var mín helsta fyrirmynd og er það eitt af mínum markmiðum að verða eins og hún þegar ég verð gömul.
Ég kveð elsku ömmu mína með mikilli sorg en á sama tíma þakklæti fyrir allan þann tíma sem við fengum með henni.
Stefanía Þórdís Grétarsdóttir.
Ég man fyrst eftir Steinu, eins og hún var ávallt kölluð, þegar ég kom til Siglufjarðar fimm ára gamall og átti heima á Hlíðarveginum, nokkru utar en Ólafur Gottskálksson faðir hennar bjó með sína stóru fjölskyldu.
Steina var yngst systkina sinna og ólst upp með þeim á heimili sem okkur þætti merkilegt nú, því faðir hennar rak búskap, var bæði með kindur og kýr, auk þess að gera út vörubíla.
Hún sagði mér að það hefði komið snemma í sinn hlut að reka kýrnar inn í fjörð á morgnana og sækja þær á kvöldin, þannig vandist hún strax á að vinna öll tilfallandi störf á stóru heimili.
Eldri bræður hennar voru fyrirmyndir okkar guttanna, enda allir afburðagóðir skíðamenn, en á þessum tíma fannst mér allt snúast um þá íþrótt á Siglufirði.
Ég rek ekki ævi Steinu, það munu aðrir gera, en vil þakka henni fyrir samfylgd undanfarinna ára. Þegar hún hætti að vinna úti fór hún að ganga sér til heilsubótar eins og margir gera, þá hittust þær Auður og fóru að labba saman um bæinn.
Ég held að þessir göngutúrar spanni yfir tuttugu ára tímabil, það dró úr þeim þegar við Auður fluttum í Skálarhlíð og hættu svo alveg.
Ég ræddi oft við hana að flytja í Skálarhlíð en það kom ekki til mála að hennar mati, hún ætlaði að sjá um sig á sínu heimili og þegar hún gæti það ekki lengur færi hún á sjúkrahúsið.
Og að því kom, hún hafði þar stutta dvöl áður en hún lagði í síðustu ferðina sem við öll þurfum að fara, og ég er viss um að hún var ferðbúin.
Steina var í Félagi eldri borgara og tók virkan þátt í starfsemi þess, ég dáðist að henni þegar hún tók upp á því að fá íbúa í Skálarhlíð til að dansa á sunnudagseftirmiðdögum.
Hún bakaði kökur og bauð fólkinu upp á kaffi eftir dansinn.
Steina hafði mjög gaman af músík, hún söng í Vorboðakórnum í mörg ár og naut þess að hitta kórfélaganna og fara með þeim á æfingar og kóramót.
Hún lagði að mér að koma í þennan félagsskap en ég gerði það ekki fyrr en hún hætti, ég sé eftir því að hafa ekki farið að hennar ráðum strax.
Nú þegar við kveðjum Steinu þökkum við Auður henni allar skemmtilegar og ánægjulegar stundir og samveru og sendum Róberti, Erlu og Valdísi og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Sverrir Sveinsson.