Hreinn Ólafsson fæddist á Laugabóli í Mosfellsdal 17. júlí 1934. Hann lést 13. mars 2025.

Foreldrar hans voru Ólafur Gunnlaugsson frá Meiri-Hattardal í Álftafirði, f. 15.7. 1904, d. 12.7. 1966 og Ólafía Andrésdóttir frá Hrísbrú, f. 21.6. 1912, d. 20.4. 1974. Þau stofnuðu og ráku garðyrkjustöð á Laugabóli.

Hreinn átti tvo yngri bræður, Andrés, f. 1938, og Erling, f. 1942, garðyrkjubændur í Mosfellsdal, þeir eru báðir látnir.

Hreinn ólst upp á Laugabóli og gekk í Brúarlandsskóla og síðan Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal.

Þann 28. maí 1955 kvæntist Hreinn Herdísi Gunnlaugsdóttur Holm, f. 22. febrúar 1935, d. 13. október 2020. Þau voru gift í 65 ár.

Börn Herdísar og Hreins eru: 1) Gunnlaugur Jón, kvæntur Láru Marelsdóttur og eiga þau þrjár dætur, Herdísi, Bryndísi og Þórdísi. 2) Svanhvít, gift Ingólfi Þór Baldvinssyni og eiga þau tvö börn, Söndru Dís og Hrein Ólaf. 3) Garðar, kvæntur Huldu Jónasdóttur og eiga þau tvö börn, Hreindísi Ylvu og Yngva Rafn. 4) Jóhanna, gift Guðmundi Magnússyni og eiga þau þrjú börn, Lovísu Ólöfu, Lísbet Dögg og Atla Snæ.

Langafabörnin eru 14 og langalangafabörnin tvö.

Hreinn og Herdís hófu búskap á Laugabóli en bjuggu í Krýsuvík árin 1956-1957 en þar var Hreinn bústjóri hjá Hafnarfjarðarbæ. Þaðan fluttu þau aftur að Laugabóli, en árið 1966 kaupa þau Helgadal og búa þar til ársins 2020 er þau fluttu í þjónustuíbúð á Eirhömrum í Mosfellsbæ.

Hreinn var mjög virkur í félagsmálum. Hann var stofnfélagi í Hestamannafélaginu Herði, þá aðeins 15 ára. Hann er sá síðasti í þeim hóp sem kveður. Hann sat í stjórn félagsins og var formaður í mörg ár. Einnig var hann í Landsmótsnefnd og sinnti fleiri störfum fyrir hestamenn. Hann sat í stjórn Búnaðarsambands Kjalnesinga í fjöldamörg ár og einnig í stjórn Búnaðarfélags Mosfellssveitar.

Hreinn kom að gerð fjölda kvikmynda þar sem hestar komu við sögu og lék í barnamyndinni „Fullkominn fákur“.

Árið 1963 fór Hreinn akandi upp á Esju ásamt fleiri mönnum á þremur jeppum, Land Rover, Willys og rússajeppa. Með í för var Ásgeir Long kvikmyndagerðarmaður sem festi ferðina á filmu.

Útförin fer fram í Guðríðarkirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni á mbl.is/andlat.

Elsku pabbi minn, það er komið að kveðjustund.

Þú ert nú lagður af stað í ferðina löngu sem bíður okkar allra og hef ég fulla trú á því að þú þeysir nú um á fáki fráum um engi og tún og blómabrekkur ásamt henni mömmu.

Margs er að minnast og þakka fyrir á samleið í gegnum lífið í rúm 60 ár.

Ég var ekki hár í loftinu þegar ég fór að fara með þér í hestaferðir og urðu þær ófáar ferðirnar sem við fórum, mér er minnisstæð ferð sem við fórum ríðandi yfir Mosfellsheiðina yfir í Grafninginn, ætli ég hafi ekki verið sjö eða átta ára. Þær voru líka skemmtilegar ferðirnar þegar við riðum saman á landsmót bæði fyrir norðan og sunnan.

En skemmtilegast fannst þér nú samt að ríða um þjóðgarðinn á Þingvöllum með barnabörnunum þínum. Þú varst sannkallað náttúrubarn, elskaðir sveitina þína Helgadalinn, hestana þína og kindurnar.

Þú kenndir mér margt á þessum rúmu 60 árum sem við ferðuðumst saman í gegnum þetta líf, þú kenndir mér að vinna og lagðir áheyrslu á að maður ætti alltaf að gera sitt allra besta. Þú varst ætíð traustur og hjálpsamur og þú varst ekki bara pabbi minn heldur líka minn allra besti vinur.

Ég á eftir að sakna þín elsku pabbi minn og þú munt alltaf eiga stað i hjarta mínu.

Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.

Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Æskunnar ómar ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson)

Takk fyrir allt.

Þinn

Garðar.

„Hvað segir Jóga mín í dag, er eitthvað að frétta úr Kjósinni?“ Þannig hófust öll símtölin frá pabba alveg frá því að ég flutti að heiman og næstum því fram á hans síðasta dag. Þessi símtöl voru mörg, oftast á hverjum degi og iðulega strax eftir veðurfréttir í sjónvarpinu á kvöldin. Og eins snaggaralega og þau hófust þá enduðu þau líka, því án nokkurs fyrirvara sagði hann „Allt í lagi bless,“ og lagði á. Þannig var pabbi, tryggur, ljúfur, áhugasamur um sitt fólk og stundum svolítið fljótfær. Það voru forréttindi að fá að alast upp með pabba, hann hafði alltaf tíma, nennti endalaust að drösla mér með sér og ekki spillti það fyrir að ég naut þeirra forréttinda að vera yngst og hafði hann því út af fyrir mig þegar eldri systkini mín voru farin í skólann. Hann tók mig með sér út um allt, í kaffi hér og þar í sveitinni, í kinda- eða hestastúss og jafnvel þegar hann ákvað að fá sér nýjan bíl og varð að hitta bankastjórann, ég var alltaf með. Mínar bestu minningar frá því í æsku eru þegar ég var ein úti með pabba, ég ýmist sat á garðabandinu eða uppi á einhverjum hesti inni í hesthúsi og fylgdist með honum vinna verkin, mitt hlutverk var að syngja og halda honum félagsskap. Eftir að við komum inn gaf hann sér svo oft tíma til að spila við mig. Þannig var pabbi, einstakur maður sem sjaldan skipti skapi, var aldrei fúll eða ósanngjarn og aldrei man ég eftir að hafa verið skömmuð, ekki einu sinni þegar við frænkurnar ca. 10 ára gamlar ákváðum að fara ríðandi upp að Tröllafossi þrátt fyrir að hafa aðeins fengið leyfi til að ríða Sporthringinnn sem var reiðleið í kringum túnin í Helgadal. Eftir að mamma og pabbi höfðu leitað að okkur um allan Mosfellsdalinn og loksins fundið okkur við Laxnes á heimleið glotti pabbi bara út í annað og sagði fátt. Seinna sagði hann mér að hann hefði nú verið frekar stoltur af okkur að fara alla þessa leið einar og rata.

Pabbi var sveitastrákur sem naut þess að vera bóndi og vissi ekkert betra en ferðast á hestum um landið og borða nestið sitt úr hnakktöskunni. Hann byrjaði aldrei heyskap nema á laugardögum og hafði þá skoðun að Zetor væri besti traktorinn. Hann hafi gaman af því að kaupa og selja hesta en þegar hann eignaðist sérstaklega góðan hest gaf hann mömmu hestinn til að tryggja að hann yrði ekki seldur. Það varð til þess að mamma átti flesta bestu hestana sem voru til í Helgadal. Hann hafði líka þá trú að börnin ættu að fá bestu hestana þegar farið var í reiðtúr, þannig væri tryggt að þau yrðu hestamenn.

Pabbi var nægjusamur, fór vel með hlutina, keypti engan óþarfa, vildi hafa snyrtilegt í kringum sig og hafði gaman af því að stússa með mömmu í gróðurhúsinu.

En nú er pabbi farinn í sumarlandið og ég veit að mamma hefur tekið vel á móti honum og trúi því að núna sé hann búin að leggja á Ægi, mamma á Blakk og þau séu lögð af stað í eilífðar hestaferðalög þar sem alltaf er gott veður og endalaust af góðum reiðleiðum.

Hvíl í friði elsku pabbi og takk fyrir allt.

Jóhanna.

Að lifa með blik í auga og styrk í fótspori.

Við systur viljum minnast afa okkar, Hreins Ólafssonar, með djúpri virðingu og þakklæti í hjarta. Afi var maður rósemi og yfirvegunar, maður sem sagði meira með nærveru sinni en mörg orð gátu gert. Hann hafði þann sjaldgæfa hæfileika að vera alltaf til staðar, án þess að þröngva sér fram. Í kringum hann ríkti kyrrð – ekki kyrrstaða heldur sú ró sem kemur aðeins af innri styrk og visku. Yfirvegun og ró sem við sjáum í huga okkar þegar afi sat í sólstofunni og horfði yfir Helgadal eða tók á móti gestum með glettnu brosi.

Afi var félagsvera, vinmargur, traustur og heiðarlegur og lagði ríka áherslu á að börn hans og barnabörn væru það einnig ásamt því sem hann innrætti í okkur öflugt vinnusiðferði. Hann var sannur þjóðfélagsþegn – virkur í samfélaginu og félagsmálum og hvatti okkur til þess sama. Hann var meðal annars stofnandi Hestamannafélagsins Harðar – samfélag sem lifir góðu lífi í dag og ber merki um arfleifð hans.

Hreinn var bóndi í Helgadal í Mosfellssveit, þar sem hann og amma okkar byggðu upp heimili sitt, þar sem samheldni þeirra ríkti jafnt innan dyra sem utan. Þau stóðu alltaf saman – afi stjórnaði utanhúss, amma innanhúss og í sínum dásamlega garði. Saman ólu þau upp fjögur börn sem öll bera með sér þau gildi sem þau hjón lögðu grunn að, og nú þegar eru orðin að arfleifð í tíu barnabörnum og kynslóðinni sem á eftir kemur. Það skein í gegn hvað afi var stoltur af börnum sínum, barnabörnum og börnum þeirra og lagði hann ríka áherslu á að við myndum öll eignast hús, trausta vinnu og eiga börn og fjölskyldu. Alltaf var það sama leiðarljósið; vera traust, heiðarleg og vinnusöm en á sama tíma glettin og hafa gaman. Enda var Ómar Ragnarsson í miklu uppáhaldi hjá afa.

En þrátt fyrir að kunna að vinna vel og hafa lagt áherslu á vinnusiðferði, þá var hann líka snillingur í því að vinna ekki of hratt eða of mikið – hann kunni að taka daginn rólega og njóta stundarinnar. Sem minnir okkur á að það þarf ekki alltaf að vera hraðinn sem segir til um dýpt lífsins, heldur hvernig við bregðumst við hverjum degi með virðingu, hugulsemi, gleði og jafnaðargeði. Þessum gildum hefur hann skilað áfram – til barna sinna, barnabarna og nú áfram til barna okkar. Þau eru hluti af honum, hluti af okkur.

Við systur minnumst afa með hlýju, virðingu og þakklæti. Hann verður alltaf hluti af okkur – í því hvernig við hugsum, hvernig við elskum og hvernig við lifum.

Hvíldu í friði, elsku afi. Nú hvílir þú rótt í sveitinni þinni með ömmu

Við elskum þig.

Þú kenndir okkur að vinna –

en aldrei of mikið.

Að vera sterk –

án þess að hækka röddina.

Og að lifa –

með blik í augum og styrk í fótspori.

Herdís, Bryndís og Þórdís Gunnlaugsdætur.

Þegar við Sigga fluttum í Mosfellsdal fyrir tæpum 30 árum kom Hreinn í Helgadal fyrstur manna til okkar í heimsókn og bauð okkur velkomin í dalinn. Þarna hófst vinátta með honum og Dísu sem stóð til æviloka þeirra beggja. Hreinn var alltaf boðinn og búinn að leggja okkur lið og við áttum margar góðar stundir í hesthúsinu hjá honum eða í eldhúsinu hjá þeim hjónum, þar sem menn og málefni voru tekin fyrir, mjög oft tengd hestamennsku. Hreinn var nefnilega einn þeirra sem lögðu sitt lóð á vogarskálarnar til að hefja íslenska hestinn til þeirrar virðingar sem hann á skilið. Hann var einn stofnfélaga hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ fyrir 75 árum, aðeins 15 ára gamall. Hann vissi því fljótt hvert lífsleið hans lá. Við tók áratuga starf í félagsstarfi og hestamennsku, keppni og útreiðum. Hestakosturinn var góður og áhugi hans og metnaður smitaðist yfir á borgarbörnin sem höfðu hreiðrað um sig í sveitinni.

Nú er komið að leiðarlokum hjá Hreini í þessum heimi og vonandi hefur hann hitt Dísu sína aftur. Við þökkum samfylgdina og hin góðu kynni við Hrein og Dísu og vottum fjölskyldu þeirra alla okkar samúð.

Rafn Jónsson.

Nú er hann Hreinn okkar búinn að kveðja þennan heim. Árið 1975 fluttum við systur með foreldrum okkar á Hraðastaði í Mosfellsdal. Með þeim fyrstu sem komu og buðu okkur velkomin voru Hreinn og Dísa, og upp úr því hófst þessi fallega og góða vinátta sem entist ævina. Öll árin var ekki keyrt fram hjá öðruvísi en að flauta og veifa.

Það koma endalaust margar minningar upp í huga okkar en fyrst og fremst öll hjálpsemin, vináttan, reiðtúrarnir, hestaferðirnar og öll góðu ráðin. Fyrsta hestaferðin sem við munum eftir var þegar við fórum á Landsmót á Skógarhólum 1978 og tjölduðum uppi í Leirdal, einnig hestaferðin sem var með viðkomu í Kringlumýri þar sem við systur vorum litlar skoppandi aftan í bláa Landrovernum hans Hreins, voru þær ófáar kúlurnar eftir þá ferðina. Samgangur var mikill milli húsa þar sem ekki þurfti að banka eða hringja bjöllum, dæmi um það er að ósjaldan vorum við vaktar af Hreini til þess að hlaupa upp í fjall til að smala hrossum eða rollum.

Til að lýsa góðmennskunni og hugulsemi hans var þegar hann kom með blóm á konudaginn fyrir mömmu því hann vissi að pabbi var ekki mikið að hugsa út í svoleiðis hluti. Ekki nokkurn tímann munum við eftir að hann hafi skipt skapi sama hvaða vitleysu sem við gerðum. Alltaf var Hreinn fyrstur að koma og bjóða hjálp sína þegar eitthvað bjátaði á, fyrir það erum við ævinlega þakklátar. En minningarnar eru óteljandi og of langt mál að telja það allt upp hér.

Nú er hann eflaust búinn að hitta Dísu sína í sumarlandinu.

Mikið söknum við allra góðu tímanna í Helgadal. Minnigin lifir í hjörtum okkar um góðan mann.

Hulda og Herdís Þórðardætur.

„Ríðið ekki hraðar en sem nemur hæga töltinu,“ sagði Hreinn við okkur þegar við riðum frá Hvítárvatni á leið okkar yfir Kjöl. Hreini fannst við fara heldur hratt yfir. Þetta ár varð Hreinn 74 ára gamall og var alls ekki hættur að fara í hestaferðir, enda hestar líf hans og yndi. Við fórum saman í margar hestaferðirnar og oft í 12 til 15 manna hópum. Farið var vítt og breitt um landið og stóðu ferðirnar jafnan yfir í 7 til 10 daga. Þetta voru ógleymanlegar ferðir, í frábærum félagsskap og hvar sem við vorum stödd var fólk sem þekkti Hrein.

Hreinn og Dísa eiginkona hans sem lést árið 2020 voru jafnan kennd við bæinn Helgadal í Mosfellsdal sem þau keyptu árið 1966 af Sigurði nokkrum sem við kaupin keypti eign þeirra við Laugaból. Við kaupin var ákveðið að eignaskiptin yrðu 1. júní og hittust þeir í hliðinu við Helgadal þann dag kl. 12 og skiptust á lyklum. Enginn flutningur átti sér stað fyrr en þá. Í Helgadal bjuggu þau hjónin með kindur, hross og hænur. Hreinn átti marga góða hesta og stundaði einnig viðskipti með hross. Hreinn var alltaf vel ríðandi og lagði metnað sinn í að eiga góða og gullfallega hesta. Hreinn tók þátt í hestamannamótum og gekk honum oft vel. Hann sinnti einnig félagsstörfum og sat í stjórn Harðar og hann var í forsvari fyrir mót sem haldið var á Hellu. Dísa var mjög hestglögg og fór í hestaferðir. Haft var eftir henni þegar verið var að ræða um hestaferð, þá sagði hún; „Ég fer ekki styttra en í eina viku.“ Í Helgadal var alltaf allt hreint og snyrtilegt. Augljóst var að þau höfðu bæði þann metnað að hafa snyrtilegt í kringum sig.

Samskipti mín og Hreins og Dísu ná marga áratugi aftur í tímann. Mest vorum við í samskiptum í kringum hross og svo þurfti að smala, en það gerðum við árum saman. Það var smalað í Hafravatnsrétt, í réttina við Gljúfrastein og síðar að Hraðastöðum.

Við Dagbjört þökkum þeim Hreini og Dísu fyrir samveruna á liðnum árum. Ég sendi börnum þeirra, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum mína dýpstu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning þeirra.

Hrafnkell Björnsson.