ÍBV tryggði sér í gærkvöld sjötta og síðasta sætið í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Stjarnan þarf hins vegar að fara í umspil eftir að hafa endað í sjöunda sæti og Grótta er fallin niður í 1. deild.
Eyjakonur töpuðu samt naumlega fyrir Haukum á heimavelli, 25:24, og enduðu með 10 stig eins og Stjarnan en Stjörnukonur töpuðu fyrir deildarmeisturum Vals á Hlíðarenda, 34:23. ÍBV var með betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna og náði því sjötta sætinu.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 13 mörk fyrir ÍBV í leiknum.
Grótta þurfti að treysta á að Stjarnan tæki stig af Val til að eiga von um að halda sér í deildinni, og vinna um leið ÍR í Skógarseli, en það var aldrei inni í myndinni. Stjarnan átti aldrei möguleika gegn Val og ÍR vann Gróttu 31:26. Fram vann Selfoss á útivelli, 34:28, í leik sem skipti engu máli.
Önnur sæti í deildinni voru þegar ráðin fyrir leikina í gærkvöld. Valur og Fram enduðu í tveimur efstu sætunum og fara beint í undanúrslitin.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir úr Val, Embla Steindórsdóttir úr Stjörnunni og Steinunn Björnsdóttir úr Fram skoruðu 10 mörk hver fyrir sín lið í gærkvöld.
Í fyrstu umferð úrslitakeppninnar leika Haukar við ÍBV og Selfoss mætir ÍR en sigurliðin í þessum einvígjum fara í undanúrslit. Fyrstu leikirnir í fyrstu umferð fara fram 15. apríl en vinna þarf tvo leiki til að komast áfram. Hinir leikdagarnir eru 19. og 23. apríl.
Undanúrslitin hefjast síðan 25. apríl þannig að Valur og Fram eru komin í 22 daga frí.