Unnu Sigurmarki Hörpu Þorsteinsdóttur gegn Noregi á Algarve árið 2014 fagnað en það er síðasti sigur Íslands í viðureignum þjóðanna.
Unnu Sigurmarki Hörpu Þorsteinsdóttur gegn Noregi á Algarve árið 2014 fagnað en það er síðasti sigur Íslands í viðureignum þjóðanna. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvæg stig eru í húfi þegar Ísland tekur á móti Noregi á óvenjulegum stað í Þjóðadeild kvenna í fótbolta, á Þróttarvellinum í Laugardal, klukkan 16.45 í dag. Leikurinn er í þriðju umferðinni af sex í 2

Þjóðadeild

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Mikilvæg stig eru í húfi þegar Ísland tekur á móti Noregi á óvenjulegum stað í Þjóðadeild kvenna í fótbolta, á Þróttarvellinum í Laugardal, klukkan 16.45 í dag.

Leikurinn er í þriðju umferðinni af sex í 2. riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar og getur ráðið afar miklu í baráttunni um annað sæti riðilsins.

Sem er gríðarlega mikilvægt því það tryggir viðkomandi liði áframhaldandi sæti í A-deildinni og betri stöðu þegar kemur að undankeppni heimsmeistaramótsins 2027.

Frakkar eru með sex stig eftir tvær umferðir og eru afar sigurstranglegir í riðlinum. Franska liðið hefur þó unnið tvo nauma heimasigra, 1:0 gegn Noregi og 3:2 gegn Íslandi í febrúar.

Noregur vann Sviss, 2:1, á heimavelli og er því með þrjú stig. Ísland og Sviss skildu jöfn í Sviss, 1:1, og eru með eitt stig hvort.

Innbyrðisleikirnir milli Íslands, Noregs og Sviss ráða því úrslitum um sætin í riðlinum en liðið í þriðja sæti þarf að fara í umspil og neðsta liðið fellur beint niður í B-deildina.

Vantar þrjár sterkar

Bæði lið hafa orðið fyrir skakkaföllum fyrir leikinn. Ísland er sem kunnugt er án fyrirliðans Glódísar Perlu Viggósdóttur sem glímir við meiðsli í hné og þrjár firnasterkar úr liði Noregs eru fjarri góðu gamni. Það eru Caroline Graham Hansen, kantmaður Barcelona, sem varð önnur í kjörinu á Gullboltanum, Ballon d’Or, á síðasta ári, Guro Reiten, miðjumaður Englandsmeistara Chelsea, og fyrirliðinn reyndi Maren Mjelde sem leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni en hún heltist úr lestinni í fyrradag vegna meiðsla.

Sjö leikmenn norska liðsins leika í ensku úrvalsdeildinni og þar á meðal er María Þórisdóttir, dóttir Þóris Hergeirssonar handboltaþjálfara, en hún leikur með Brighton og hefur spilað 73 landsleiki fyrir Noreg.

Ada Hegerberg, einn mesti markaskorarinn í sögu kvennafótboltans og leikmaður frönsku meistaranna Lyon, er í liði Noregs en hún hefur skorað 49 mörk í 88 leikjum norska landsliðsins þrátt fyrir að hafa ekki gefið kost á sér í það um nokkurra ára skeið.

Margir samherjar mætast

Ingrid Syrstad Engen leikur með Evrópumeisturum Barcelona, Tuva Hansen er samherji Glódísar Perlu hjá Þýskalandsmeisturum Bayern München, Emilie Marie Aanes leikur með Guðrúnu Arnardóttur hjá Svíþjóðarmeisturum Rosengård og Justine Kvaleng Kielland er samherji Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá þýsku bikarmeisturunum Wolfsburg.

Ennfremur eru Karina Sævik og Thea Bjelde samherjar Sædísar Rúnar Heiðarsdóttur hjá norsku meisturunum Vålerenga.

Ísland er tveimur sætum fyrir ofan Noreg á heimslistanum í dag, í 13. sæti, en norska liðið í því 15. Þetta er fyrsti leikurinn af þremur á milli liðanna á þremur mánuðum því þau mætast aftur í Þjóðadeildinni í Þrándheimi í lok maí og svo á EM í Sviss í júlí.

Ísland hefur aðeins unnið þrjá af fimmtán leikjum þjóðanna en síðasti mótsleikur liðanna, á EM 2013 í Svíþjóð, endaði með jafntefli, 1:1.

Höf.: Víðir Sigurðsson