Jón Björnsson fæddist í Geitavík, Borgarfirði eystri, 2. júlí 1945. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á dvalarheimilinu Hrafnistu Laugarási 25. mars 2025.

Foreldrar hans voru Björn Jónsson bóndi, f. 6.7. 2017, d. 30.12. 2010, og Þorbjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 8.7. 2023, d. 21.8. 2006.

Systkini Jóns: Svavar Halldór, f. 25.4. 1947, d. 9.1. 2022, drengur Björnsson, f. 22.8. 1948, d. 10.5. 1950, Guðrún, f. 31.8. 1949, Birgir, f. 7.6. 1952, Axel Andrés, f. 24.3. 1956, Þorbjörn Bjartmar, f. 8.10. 1959, Geirlaug Gunnfríður, f. 19.12. 1960, og Ásdís, f. 27.6. 1964.

Jón giftist 29. nóvember 1975 Guðlaugu Kröyer frá Stóra-bakka í Hróarstungu, f. 28.4. 1946. Dætur þeirra eru: 1) Hrefna Kristín, f. 29.6. 1976, d. 26.7. 1977. 2) Hrefna Kristín, f. 1.8. 1978, gift Agli Þorvarðarsyni, f. 27.3. 1978, þeirra börn eru Tristan Elí, f. 25.9. 2003, Tómas Aron, f. 4.10. 2007, og Harpa Hrönn, f. 11.11. 2010. 3) Þórey, f. 26.9. 1981, gift Finni Hilmarssyni, f. 20.10. 1974, synir hans eru Andri, f. 26.11. 2002, Bjarki, f. 14.6. 2004, og Logi, f. 8.1. 2008.

Jón fæddist í Geitavík á Borgarfirði eystri, í nábýli við fjöldann allan af frændfólki á útbæjunum fjórum í Borgarfirði. Hann bjó þar og stýrði búinu í samvinnu við föður sinn til ársins 1974, þegar hann 29 ára gamall fluttist til Reykjavíkur. Jón giftist Guðlaugu hinn 29. nóvember 1975 og bjuggu þau í Reykjavík fyrstu búskaparárin. Árið 1985 fluttu hjónin með dæturnar austur á Fljótsdalshérað, að Skriðu á Skriðuklaustri. Þar stýrði Jón fjár- og tilraunabúi í um 10 ár. Árið 1997 fluttist fjölskyldan til Egilsstaða í Bjarkarhlíðina og bjuggu hjónin þar til ársins 2019 þegar þau fluttust til Reykjavíkur til að vera nær dætrum sínum og fjölskyldu. Á Egilsstöðum sinnti Jón ýmsum störfum. Hann átti leigubíla og keyrði í mörg ár og var umboðsmaður Morgunblaðsins á svæðinu. Auk þess hélt hann kindur í nokkur ár og átti fjöldann allan af hestum og hænum.

Jón var músíkalskur, söng í kirkjukórum bæði í Fljótsdal og á Egilsstöðum og í karlakór Fljótsdalshéraðs. Hann spilaði á harmonikku, píanó og orgel. Hann var félagslyndur og tók mikinn þátt í og sinnti félagsstörfum, sat í hreppsnefnd í Fljótsdal, sóknarnefnd Valþjófsstaðarprestakalls og skólaráði Hallormsstaðaskóla. Helsta áhugamálið var taflmennska, hann var í Taflfélagi Reykjavíkur og síðar Austurlands, tók þátt í fjölmörgum skákmótum fyrir bæði félög, kenndi börnum skák og tefldi fram á síðasta dag.

Árið 2019 fluttust þau hjónin til Reykjavíkur. Þar bjuggu þau á Skógarveginum í Fossvoginum. Síðustu mánuðina þegar heilsu Jóns hafði hrakað fluttist hann á dvalarheimilið Sólteig, Hrafnistu Laugarási, þar sem hann lést í faðmi fjölskyldunnar.

Hann verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni sjá
www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi minn hefur nú fengið langþráða hvíld. Heilsu hans hafði hrakað smám saman og hann var tilbúinn í ferðalagið langa.

Pabbi var einstakur maður með stórt hjarta, félagslyndur og mikill húmoristi sem gerði grín að sjálfum sér og öðrum. Hann hafði mikinn áhuga á fólki, var forvitinn og frændrækinn. Hann talaði við alla sem á vegi hans urðu. Ég man hvað hann náði oft að spjalla við alla á biðstofunni á heilsugæslunni áður en læknirinn kallaði á okkur, þótti kostur ef fólk var utan af landi.

Hann var stoltur af okkur fjölskyldunni sinni, eiginkonu, dætrum og barnabörnum, kynnti okkur iðulega fyrir hjúkrunarfólkinu á spítalanum, „þetta er eiginkona mín og dætur“, svo ánægður með ríkidæmi sitt. Hann var mjög vinmargur fyrir austan og var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd. Keyrsla á leigubíl á Egilsstöðum hentaði honum vel, þar gat hann talað við alls konar fólk og sagt sögur. Við systur fengum ósjaldan símtal frá pabba þegar hann þurfti túlk fyrir erlenda farþega, en einhvern veginn náði hann oftast að tjá sig á sínu eigin „tungumáli“. Þeir höfðu greinilega gaman af, því oft bárust jólakort og póstkort með þökkum frá farþegum.

Margar af ljúfu minningunum tengjast uppvexti okkar á Skriðu. Bústörfin áttu hug hans allan, og ég var ekki gömul þegar ég fór að skottast út í fjárhús með pabba, hafði mestan áhuga á að halda fjárhúsunum hreinum, sópaði fóðurganginn og garðana, sem hann var ánægður með. En við hjálpuðum reyndar til við allt sem þurfti að gera, hvort sem það var sauðburður, heyskapur eða smölun. Pabbi kenndi mér að keyra líklega 12 eða 13 ára gamalli svo ég gæti hjálpað til í heyskap. Ég man sérstaklega eftir því þegar pabbi kenndi mér að bakka traktor niðri á nesi með fullan vagn af böggum, það var víst besta leiðin. Svo áttum við fullt af hestum sem þurfti að sinna og okkur þótti ekki leiðinlegt að fara í útreiðartúr með pabba. Pabbi var uppátækjasamur og fór sínar eigin leiðir. Ég gleymi því ekki þegar pabbi bjargaði folaldi úr skurði, gaf því koníak heima í baðkari til að hressa það við – dæmigert fyrir pabba og það virkaði, lifði hryssan í mörg ár og gaf af sér mörg afkvæmi!

Pabbi hafði mikinn húmor og var oft fljótur að bregðast við með fyndnum athugasemdum, segjandi brandara sem honum þóttu a.m.k. sjálfum stórfyndnir. Ef einhver kvaddi hann með orðunum: „Það var gaman að sjá þig,“ svaraði hann um hæl: „Ég er ekki hissa!“ og hló manna hæst sjálfur. Jafnvel síðustu dagana var ekki langt í brosið þegar við töluðum saman.

Elsku pabbi, takk fyrir allar dýrmætu stundirnar, stuðninginn og ástina í gegnum árin – þú reyndist mér alltaf vel. Ég er óendanlega þakklát fyrir að þú hafir kynnst Finni og drengjunum, og mér þykir ómetanlegt að hafa haft þig við hlið mér þegar þú leiddir mig inn kirkjugólfið á brúðkaupsdaginn okkar Finns. Ég er þakklát fyrir þá fallegu kveðjustund sem ég átti með þér, en nú ert þú kominn á góðan stað, hjá litlu Hrefnu Kristínu, sú hugsun veitir mér huggun

Elska þig að eilífu.

Þín

Þórey.

Elsku hjartans pabbi minn, þú hefur nú kvatt í hinsta sinn. Söknuðurinn er sár, minningarnar ótalmargar og hlýjar. Það yljar manni að vita að þið séuð sameinuð á ný, þú og litla englastelpan okkar, Hrefna Kristín eldri. Ég man svo vel hvar við sátum, ég og þú, í eldhúskróknum heima og skrifuðum saman rökstuðning fyrir því hvers vegna fyrir fermingu mína ég vildi bæta við Kristínar-nafninu. Þú svo ánægður með ákvörðunina og stoltur af sjálfstæðinu.

Ein fyrsta minningin mín er þó enn eldri, í gulum stórum strætó sem þú stýrðir. Á sunnudögum fékk ég stundum að fara með, þá voru farþegar fáir. Ég minnist þess þegar við svo fluttum austur í sveitina og ég hafði ekki aldur til að aðstoða við sveitastörfin að mér fannst alltaf svo gott og gaman að skottast með þér. Sat í fjárhúsunum, lék mér eða talaði við sjálfa mig. Fékk líka að sitja í traktornum. Fannst svo gott að fá að vera með þér, læra af þér og tala við þig. Þú elskaðir sveitina þína, alltaf stórbóndi í hjartanu.

Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur systur, vildir alltaf allt fyrir okkur gera. Fannst ekki tiltökumál að skutlast með okkur milli sveitarfélaga þegar við vorum komnar á unglingsaldur, keyra okkur fram og til baka á böll niður á firði, sama hvort það voru áramót eða önnur tilefni, við vorum alltaf í forgangi.

Við deildum líka ýmsum skoðunum. Vorum lík að mörgu leyti. Ég var ung þegar ég fór að fylgjast með og ræða pólitík við þig. Við sátum saman og vöktum fram eftir öllu, yfir kosningasjónvarpi, hvort sem það voru sveitarstjórnar- eða alþingiskosningar. Seinna þegar ég var flutt í bæinn hringdir þú oft í mig og spurðir mig hvernig mér litist nú á stöðuna í borginni, nú eða í þinginu. Já, þú kenndir okkur svo sannarlega margt.

Barnabörnin þín voru augasteinarnir. Þau voru heppin að fá að dvelja hjá ykkur mömmu í Bjarkarhlíðinni langdvölum á sumrin og í vetrar- og páskafríum. Þér fannst strákarnir vera framúrskarandi fótboltamenn, hringdir jafnvel í vini þína til að fá þá til að fylgjast með fótboltatilþrifum þeirra í garðinum. Svo voru þau líka svo skemmtileg fannst þér, Harpa alltaf með svo góð tilsvör, svo klár fannst þér. Þú kenndir þeim að tefla og tefldir við þau fram á síðasta dag. Þú hringdir oft til að frétta af frammistöðu þeirra í skóla og íþróttum. Þegar þið fluttuð svo suður mættir þú á alla fótboltaleiki þeirra. Þá sastu gjarnan í varamannaskýlinu og ræddir frammistöðu þinna manna beint við þjálfarann, endalaust stoltur.

Elsku pabbi, minningarnar eru ótal margar. Efst í huga mér eru þó einstakir mannkostir þínir og manngæska, einlægur áhugi þinn á fólki. Hvernig þú hafðir svo sterka og mikla þörf fyrir að vera vinur, vera til staðar, aðstoða fólk sem var einmana, sem minna mátti sín. Sagðir sögur, hafðir húmor fyrir sjálfum þér. Hvað þú varst brosmildur, glaður og jákvæður þrátt fyrir öll áföllin á lífsleiðinni, alltaf stutt í gleðina.

Elsku pabbi minn, takk fyrir allt. Ég er sú manneskja sem ég er í dag þín vegna. Ég er og verð alltaf pabbastelpa. Elska þig mikið.

Þín

Hrefna.

Ég heiti nú bara Jón! Þannig kynnti hann sig fyrir verðandi tengdasyni með bros á vör fyrir hartnær tuttugu og fimm árum þessi sérstaki maður. Hann dró mig skömmu síðar út í fjárhúsin sín rétt við Egilsstaði þar sem ég skyldi moka undan fénu. Honum þótti það enda afbragð að fá aðstoð verðandi lögfræðings við fjárbúskapinn, moka þarf út skít á fleiri stöðum en í réttarsölunum. Hann hringdi hróðugur í systkini sín og tilkynnti þeim um afrekið en þótti víst ekki mikið til þeirra handbragða koma sem voru viðhöfð þennan daginn.

Hann var þannig ekki bara Jón. Eins og ég átti síðar eftir að komast að var hann svo miklu meira og ávallt fjárbóndi í hjarta sínu. Ég lærði fljótt að fé getur verið misfallegt og langt í frá að fegurðin komi bara að innan. Hreinhvítt fé skyldi það vera og hann veigraði sér ekki við að skammast yfir misljótu og –fallegu fé. Jón hafði alla tíð einlægan áhuga á þessum blessuðu skepnum og hringdi landshluta á milli til að fá fréttir af ástandi búfénaðar og mögulegum niðurskurði vegna riðu sem upp hafði komið. Ekkert var honum óviðkomandi þegar kom að búfénaði.

Fljótlega eftir að barnabörnin komu í heiminn og fóru að venja komu sína til afa og ömmu á Egilsstöðum varð til hugtakið „afavesen“. Það leið varla sá dagur að Jón drægi okkur ekki með sér í eitthvert bras í kringum frístundabúskap tengdan kindum eða hestum. Þegar hann hafði endanlega skilið við fjárbúskapinn hélt hann nokkuð stórt stóð af hrossum rétt við bæjarmörkin. Þangað þurfti oft að fara til að sinna alls kyns afaveseni, fanga hrossin, heyja eða gefa. Honum datt meira að segja í hug að halda nokkrar landnámshænur á jörðinni sem hann hafði til afnota fyrir hrossabúskapinn. Langlífust af þeim varð Hrafnhildur Kolbrún, sem gerðist svo fræg að rata í fréttainnskot hjá Magnúsi Hlyni, enda vel þekkt hæna á Egilsstöðum sem bjó í garðinum í Bjarkarhlíðinni.

En Jón var ekki bara með vesen. Hann sá ekki sólina fyrir barnabörnunum og notaði hvert tækifæri til að breiða út boðskapinn um ágæti þeirra. Betri fótboltamenn hafði hann ekki séð en í Tristani og Tómasi, Harpa var á heimsmælikvarða í fimleikum. Jón var enda frændrækinn með eindæmum og hans ættmenni framúrskarandi í hverju sem þau tóku sé fyrir hendur.

Ég minnist í dag tengdaföður sem hélt alltaf í gleðina og glettnisbros sitt þrátt fyrir allt sem gekk á. Þrátt fyrir að hann væri bara Jón markaði hann stórt spor í mína ævi og ég er nokkuð viss um að hann hafi náð að skilja eftir hjá mér eitt eða tvö viskukorn. Að leiðarlokum er fátt annað að segja en að ég þakka þér fyrir að ég kom, kæri Jón.

Egill Þorvarðarson.

Elsku afi minn, þú varst eitt af því besta sem ég átti. Þú varst alltaf svo góður, umhyggjusamur og passaðir upp á mig. Þú hafðir þessa sérstöku hlið af þér sem sá alltaf til þess að mér liði vel og væri ekki ein.

Þú varst ekki bara afi heldur líka vinur og fyrirmynd. Ég elska þig fyrir smáu stundirnar sem að við áttum saman, eins og bíltúrana okkar til hestanna þinna. Minningarnar með þér eru ómetanlegar, hlýjar og óbætanlegar.

Það sem mun alltaf standa upp úr er hvernig hann gat talað við alla sem hann kynntist eins og bestu vini sína. Hann var tilbúinn að hjálpa hverjum sem er og styðja.

Ég sakna þín svo mikið, hver minning fyllir mig bæði af gleði og sorg. Ég er svo þakklát þér og er ánægð að hafa verið heppnasta afastelpa í heimi, vegna þess að þú varst afi minn.

Þín

Harpa.

Elsku afi, þú varst alveg einstakur. Meiri jólasveinninn eins og einhver hefði nú sagt. Ég var ekki gamall þegar þú fékkst mig til að vinna fyrir þig að bera út Morgunblaðið. Því gat ég ekki neitað þegar ég heyrði hvað ég fengi borgað fyrir það. Þú kenndir mér ekki bara að vinna heldur einnig góð handbrögð í sveitinni og svo auðvitað að tefla, kenndir mannganginn. Þú gafst svo aldeilis ekki neitt eftir þegar kom að skákinni. Það var ekki fyrr en á seinni árum að okkur bræðrum tókst loksins að vinna þig. Til að byrja með lékstu á okkur heimaskítsmát þangað til við lærðum hvernig átti að verjast því, en þá kom eitthvað annað og svo koll af kolli þar til við vorum orðnir aldeilis seigir, eins og þú sjálfur komst að orði. Þú sást til þess að við bræðurnir hefðum áhuga á skák, en mögulega var áhuginn alltaf örlítið meiri hjá þér því eitt sinn, þegar þér fannst Tómas vera orðinn mjög góður, þá hringdir þú frá Egilsstöðum og lést skrá hann í skákklúbb KR. Þú ætlaðir að greiða æfingagjöldin fyrir hann. Þau eru endalaus þessi litlu kostulegu atriði sem við munum svo vel eftir.

Okkur þótti alltaf svo gaman að koma með þér í allt „afavesenið“ eins og við kölluðum ýmislegt bras með þér, en í því fólust alls konar mikilvæg verkefni sem þurfti að sinna á Egilsstöðum í tengslum við frístundabúskapinn þinn. Þá fengum við mikilvæg hlutverk.

Alltaf svo ljúfur og hjálpsamur. Hafðir svo mikinn áhuga á hvernig við bræðurnir og systkinin öll stæðum okkur í skólanum og fótboltanum. Hringdir oft daglega þótt það væri ekki nema til að heyra í okkur og fá að vita hvernig veðrið væri. Mættir líka oft og horfðir á okkur spila. Fannst við langbestir. Við eigum eftir að sakna þín.

Þínir afastrákar,

Tristan og Tómas.

Í dag kveð ég Nonna bróður minn í hinsta sinn.

Nonni var bóndi í Geitavík með pabba fyrstu ár ævi minnar.

Það var dýrmætt að eiga bróður eins og hann, Nonni var ekki bara góður bróðir, hann var vinur og leiðbeinandi.

Hann hefur eflaust átt drjúgan þátt í að ala okkur yngri systkinin upp og var hann mikil fyrirmynd.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að sækjast eftir að skottast í fjárhúsin með honum og var það alltaf auðsótt mál.

Ég fékk fljótt hlutverk, sjá um að sópa garðann og önnur létt verk sem ég réði vel við.

Ég fékk að vera þátttakandi og fann ég mjög til mín við það.

Nonni var mjög músíkalskur og spilaði hann á harmonikku, sat ég oft í hornherberginu hjá honum og hlustaði á hann æfa sig. Ekki er ólíklegt að dans bakterían mín hafi kviknað við það að hlusta á hann spila polka og ræl og fleiri danslög.

Þegar ég er 10 ára ákvað Nonni að hætta búskap og flutti til Reykjavíkur, ég man að mér fannst það erfitt þegar hann flutti.

Nonni var hjálpsamur, var alltaf boðinn og búinn að aðstoða okkur yngri systkinin ef þurfti. Hann var stoð okkar og stytta eftir að við fluttum suður, t.d. aðstoðaði hann okkur við að finna leiguhúsnæði, vinnu og að komast í nám. Hann hafði metnað og umhyggju fyrir velferð okkar.

Þegar Nonni frétti að mig langaði í danskennaranám var hann fljótur að koma á sambandi við danskennara sem tók nema, sem var mín lukka.

Nonni var mikill húmoristi og var alltaf gaman að sitja og spjalla við hann. Oftar en ekki hafði hann einhverja skemmtilega sögu að segja af sér, eitthvað sem hann hafði lent í. Hann gerði óspart grín að sér og tók sig ekki of alvarlega, sérstaklega ef efniviðurinn var góður til að segja góða sögu.

Nú er komið að leiðarlokum elsku Nonni, takk fyrir allt, þú varst góður og skemmtilegur bróðir.

Ég kveð þig eins og ég var vön að gera, bless, það var gaman að sjá þig, og þú segir „ég er ekki hissa“ og hlærð.

Elsku Gulla, Hrefna, Þórey og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur, blessuð sé minning hans, hann var einstakur.

Ásdís systir.

Í dag er kvaddur Jón Björnsson mágur minn. Margar minningar rifjast upp en Jón var á margan hátt einstakur maður. Hann var húmoristi góður, sagði sínar skoðanir umbúðalaust og lét ekki segja sér fyrir verkum. Hann stundaði ýmsa atvinnu um tíðina en fyrst og síðast var hann bóndi þrátt fyrir að hafa verið hættur búrekstri fyrir löngu. Hann rak m.a. fjárbú á Skriðuklaustri í nokkur ár, þar til hann fékk heilablóðfall við störf sín á fjárhúsunum. Ók sér þá sjálfur heim, með dynjandi höfuðkvalir og skerta meðvitund. Dvaldi hann lengi á sjúkrahúsi og var um tíma ekki víst hvora leiðina hann veldi. En Jón sneri að sjálfsögðu til lífsins. Margt hefur komið fyrir hann um dagana og oft verið haft á orði að ef einhver hafi fengið níu líf í vöggugjöf hafi það verið Jón Björnsson.

Jón hafði yndi af að heimsækja bændur og skoða féð hjá þeim. Kom það því skemmtilega við hann er Sigurður Sigurðsson dýralæknir fékk hann til að ferðast um hálft landið til að athuga með riðuveiki í bústofni bænda. Heyrðum við margar áhugaverðar sögur frá ferðum þessum.

Eftir að hann flutti í Egilsstaði vann hann mest við leigubílaakstur og lenti í ýmsum ævintýrum. Það reyndist sama hverrar þjóðar þeir voru sem hann flutti eða hvaða tungumál var talað, alltaf virtist hann skilja fólk og kom því á rétta staði – en oft voru samræðurnar skrautlegar fyrir þá sem til heyrðu.

Jón hafði mikinn áhuga á veðurfarinu, spáði mikið í það og hringdi í ýmsa til að spyrja um veðrið. Þar á meðal hringdi hann í mig og oftar en ekki renndi hann svo upp eftir, frá Egilsstöðum í Hallormsstað, til að ganga úr skugga um að ég hefði nú sagt satt. Ýmis orðatiltæki festust við Jón. Meðal annars, ef haft var á orði: „Gaman að sjá þig, Jón!“ „Ég er ekki hissa,“ var þá svarað.

Nú ert þú snúinn á aðrar slóðir, kæri mágur, og ég yrði ekki hissa þótt þú sinntir bústörfum þar líkt og þú gerðir hér. Þín mun oft verða saknað, kæri Jón. Hlýjar kveðjur til þín, elsku systir, og til ykkar kæru Hrefna Kristín, Þórey og fjölskyldur.

Elín Kröyer.

Kveðjustundin bíður okkar allra þó að við vitum aldrei hvenær kallið kemur. Almættið var oft búið að kalla á Jón Björnsson frá Geitavík. Hann þóttist bara aldrei heyra það eða taldi sig eiga eitt og annað ógert í lífinu. En svo kom að skapadægri og þá held ég að Jón hafi kvatt sáttur enda langt líf að baki með alls kyns ævintýrum.

Við Héraðsbúar höfum stundum á orði að Borgfirðingar séu alveg sér á báti og Jón Björnsson hljóp ekki undan merkjum með það. Ég kynntist Jóni þegar ég kvæntist dóttur mágkonu hans. Þá bjuggu Jón og Gulla á Skriðu í Fljótsdal og var gaman að heimsækja þau þangað, m.a. um jólin til að spila. Alltaf var Jón með bros á vör og sögur á reiðum höndum af sér og sínum eða bara einhverjum á hinum enda landsins. Það breyttist ekki þó að hann flytti úr sveitinni og í þorpið á Egilsstöðum eða aftur til Reykjavíkur nú hin síðustu ár. Hann hafði áhuga á hinum margbreytilegustu málefnum. Sauðfjárrækt og búskapur stóðu hjarta hans næst og hann var óragur við að banka upp á hjá bændum eða hringja í þá að fyrra bragði til að fá fréttir úr sveitum landsins. Hann hafði einnig yndi af tónlist, spilaði á harmónikku og söng í kórum. Skák var hans heilaleikfimi allt til æviloka og tefldi hann við skákáhugamenn um allan heim með hjálp tölvunnar auk þess að taka þátt í mótum hérlendis.

Jón dó aldrei ráðalaus og var uppátækjasamur þannig að eftir var tekið, eins og þegar landnámshænurnar hans sem völsuðu um garða á Egilsstöðum komust í fréttir RÚV um árið. En það truflaði hann ekki enda hafði hann góðan húmor fyrir sjálfum sér og hló manna hæst þegar gert var grín að honum á þorrablótum.

Það er sjónarsviptir að manni eins og Jóni sem kom ætíð til dyranna eins og hann var klæddur. Góður maður er genginn. Hann rækti störf sín af samviskusemi og alúð, hvort heldur sem skólabílstjóri, bóndi, leigubílstjóri eða hreppsnefndarmaður, svo fátt eitt sé nefnt sem hann tók sér fyrir hendur. Nú er Jón örugglega sestur við taflborðið í sumarlandinu með öðrum austfirskum snillingum og hefur vakandi auga með beitilöndum og búfénaði.

Við hjónin munum sakna þess að eiga gott spjall við Jón þegar við komum næst í kaffi í Fossvoginn. Elsku Gulla, Hrefna, Þórey, makar og börn, megi minningar um hjartahlýjan eiginmann, föður, tengdaföður og afa sefa sorg ykkar og styrkja.

Skúli Björn og Elísabet.