Þorsteinn Bjarnason fæddist á Bæ í Hrútafirði 12. október 1936. Hann lést á Mánateigi á Hrafnistu í Laugarási 2. mars 2025.
Foreldrar hans voru Bjarni Þorsteinsson, kennari og skólastjóri barnaskólans á Borðeyri, rithöfundur og bóndi, f. 11. ágúst 1892, d. 24. september 1973, og kona hans Helga Jónsdóttir, saumakona og húsfreyja, f. 6. ágúst 1892, d. 13. nóvember 1973.
Þorsteinn var ókvæntur og barnlaus. Systkini hans voru: 1) Jóna Kristín Bjarnadóttir f. 2. júlí 1933, d. 23. júlí 2003. Eiginmaður hennar var Hannes Þorkelsson f. 23. júlí 1935, d. 16. desember 2013. Dætur þeirra eru a) Ástríður I., f. 15. september 1959, hennar börn eru Hannes Bergmann Eyvindsson, f. 10. desember 1980, Andri Bergmann Eyvindsson, f. 27. janúar 1986, Guðrún Bergmann Eyvindsdóttir, f. 15. september 1990, og Svandís Bergmann Eyvindsdóttir, f. 15. september 1990; b) Helga, f. 15. september 1959; c) Bjarndís f. 10. ágúst 1961, hennar börn eru Bjarni Jóhann Lúthersson, f. 9. ágúst 1987, Alma Lóa Lúthersdóttir, f. 5. apríl 1989, og Jóna Kristín Lúthersdóttir, f. 20. desember 1990; d) Gunnlaug, f. 10. mars 1964, gift Hlyni Bergvin Gunnarssyni, f. 7. apríl 1964, þeirra börn eru Berglind Ósk, f. 1. nóvember 1994, og Kristinn Már, f. 6. apríl 1998; e) Anna Kristín, f. 4. janúar 1966, hennar börn eru: Auður Helgadóttir f. 27. júlí 1999, Helgi Ari Helgason f. 6. febrúar 2002, Jóna Lísa Helgadóttir, f. 17. september 2003, og Þorbjörn Helgason, f. 17. september 2003. 2) Þorbjörn Bjarnason, f. 22. ágúst 1934, d. 3. október 2016.
Þorsteinn ólst upp með foreldrum sínum og systkinum á Borðeyri fyrstu árin, síðar á Valdasteinsstöðum, en fljótlega fluttist fjölskyldan að Lyngholti við Borðeyri þar sem Bjarni og Helga héldu heimili og stunduðu búskap. Foreldrar Þorsteins keyptu Lyngholtsjörðina vorið 1942 og bjuggu þar alla sína tíð upp frá því. Þorsteinn bjó þar stóran hluta ævinnar en fluttist til Reykjavíkur um 1980.
Þorsteinn lauk prófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði og árið 1958 útskrifaðist hann frá Samvinnuskólanum á Bifröst í Borgarfirði.
Síðustu 19 ár hefur Þorsteinn átt heima á Mánateigi við Hrafnistu í Reykjavík.
Útför Þorsteins fór fram frá Fossvogskapellu hinn 13. mars 2025, en hann verður jarðaður í Prestbakkakirkjugarði í Hrútafirði.
Móðurbróðir minn Þorsteinn Bjarnason er látinn og er þá genginn síðastur af elstu kynslóð fjölskyldunnar.
Steini frændi náði hæstum aldri systkinanna, 88 árum. Hann var yngstur, fæddur 1936, og í dagbók frá árinu 2023 sem hann lét eftir sig segir hann „12. október í haust verð ég 87 ára ef ég lifi“. Við lestur dagbókarinnar lifnar hversdagur hans við. Hversdagur sem hann veitti manni ekki oft innsýn í að fyrra bragði, og jafnvel þótt spurt væri eftir. Hann vildi heldur tala um það sem var í fréttum. Um heimsfréttir eða fréttir af fjölskyldunni. En hann var ekki margmáll.
Steini var sveitastrákur að norðan, ólst upp í Lyngholti við Borðeyri við leik og áhyggjuleysi, þótt hann hjálpaði til við bústörfin eins og sveitabörn gerðu þá og gera enn. Á bænum voru nokkrar kýr og aðeins fleiri kindur, en þar dvöldu líka oft og einatt aukabörn sem komu um mislangan tíma til að sækja barnaskólann á Borðeyri. Þröngt mega sáttir sitja, og víst er að oft var fjör á bænum. Afi minn, faðir Steina, Bjössa og mömmu, var kennari og skólastjóri við barnaskólann. Æskan var góð, og fara þær sögur af Steina að hann hafi verið skemmtilegur félagi, fallegt barn með ljúfa lund. Hann óx úr grasi og lauk prófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði og útskrifaðist frá Samvinnuskólanum á Bifröst árið 1958.
Við tók tími þar sem hann vann sér inn pening við ýmis störf, en svo fer hann til Bandaríkjanna og dvelur um tíma. Þegar hann kemur heim er hann búinn að veikjast af þeim sjúkdómi sem átti eftir að marka líf hans upp frá því. Hann fékk geðklofa. Þá fluttist hann heim í Lyngholt aftur og bjó með foreldrum sínum og bróður fram til ársins 1973 að þau féllu bæði frá.
Þá bjuggu þeir bræðurnir saman til ársins 1980 er Bjössi fór suður í framhaldsnám.
Þá fluttist Steini einnig á mölina. Hann leigði sér oftast herbergi með salerni og eldunaraðstöðu, en ekki bjó hann alltaf svo vel að komast þar í sturtu eða bað.
Um langan tíma kom hann vikulega heim til systur sinnar, hennar mömmu, þar sem hann komst í bað og gat rétt henni poka með óhreinum fatnaði sem mamma þvoði og hafði tilbúinn fyrir hann þegar hann kom aftur að viku liðinni.
Ég veit að mamma hafði oft áhyggjur af bróður sínum, að hann borðaði nóg eða fæðið væri einhæft, að hann hugsaði nógu vel um sig. Mamma var elst þeirra systkina og með ábyrgðina á herðum sér eftir fráfall foreldra þeirra. Henni þótti óskaplega vænt um litla bróður og minntist þess oft hversu góður drengur og fallegt barn hann hefði verið. Hann Steini frændi hafði sem sagt ekki alltaf verið svona fálátur, hann átti sér aðra fortíð sem mamma vildi gjarnan halda á lofti.
Við systurdætur hans ólumst upp með þessum sögum og þessum sjálfsagða systkinakærleika. Það er gott að geta hugsað vel til sinna nánustu og fordæmi mömmu hefur mér alltaf þótt svo fallegt.
Eftir að mamma dó 2003 komst Steini fljótlega inn á Hrafnistu í Laugarási þar sem hann bjó alla tíð síðan. Þar hafði hann sitt herbergi, vikulegt bað, hreinan þvott og gott fæði. Eftir því sem árin hafa liðið þykir mér vænt um að hafa kynnst honum ögn betur og fengið tækifæri til að spjalla annað slagið um allt og ekkert, eða bara tekið að mér að endurnýja DAS-miðann fyrir hann. Ég er þakklát fyrir samfylgdina í gegnum árin.
Blessuð sé minning kærs frænda.
Anna Kristín Hannesdóttir.