Þórir Guðmundur Gunnlaugsson fæddist á Ísafirði 2. ágúst 1944. Hann lést á Landspítalanum 20. mars 2025.

Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Aðalbjörg Stefánsdóttir Richter, f. 21. maí 1921, d. 8. desember 1981, og Gunnlaugur Guðmundsson f. 20. mars 1920, d. 2. apríl 2004.

Þórir var annað barn þeirra hjóna af fimm. Systkini hans eru Stefán (látinn), Gunnar, maki hans er Eygló Óskarsdóttir, Ásta Jónína (látin), maki hennar Sigurður Hallgrímsson og Ingibjörg, maki hennar er Björn Birgisson.

Hinn 19. júlí 1969 kvæntist Þórir Sigurveigu Einarsdóttur. Leiðir þeirra skildi 1994.

Börn þeirra: 1) Stefán Örn, f. 1967, fyrrverandi maki Auður Eva, synir þeirra eru: Hugi Rafn, f. 2000, maki Henný Mist, og Hákon Orri, f. 2005. 2) Drengur, f. 25. febrúar 1968, d. 2. mars 1968. 3) Ingibjörg Ásta, f. 1970, maki Halldór Ágúst, dætur þeirra eru: Unnur Petrea, f. 1998, Fanney Lóa, f. 2005, og Henný Lára, f. 2007. 4) Sigþór, f. 1988, maki Sæunn Heiða, börn þeirra eru: Hrafnþór Hendrik, f. 2020, og Helena Fanndís, f. 2023.

Þórir ólst upp á Ísafirði. Hann byrjaði ungur að hjálpa Olsen-fjölskyldunni í rækjuvinnslunni og vann sem unglingur við beitningar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Eftir skólagöngu í Barna- og gagnfræðaskóla Ísafjarðar lá leiðin til Reykjavíkur. Byrjaði hann að vinna í Loftskeytastöðinni í Gufunesi. Síðan hóf hann nám í Iðnskólanum í Reykjavík við skrifvélavirkjun og var með meistararéttindi í þeirri iðn, seinna öðlaðist hann réttindi í rafeindavirkjun.

Eftir námið fékk hann vinnu hjá Magnúsi Kjaran í Tryggvagötu við viðgerðir á reiknivélum, ljósritunarvélum, faxtækjum og ritvélum. Síðan starfaði hann á Skrifvélinni á Suðurlandsbraut. Hann endaði svo starfsferilinn hjá Nýherja.

Útförin fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 13.

Elsku pabbi, nú ertu búinn að fá hvíldina. Þú varst orðinn leiður á heilsuleysinu sem var búið að hrjá þig eftir að þú ökklabrotnaðir í byrjun síðasta árs og ekki skánaði líðanin eftir krabbameinsgreininguna. Þú gast ekki farið út að keyra og gera allt sem þig langaði til, hitta kallana á Billanum í Skeifunni hjá Fúsa, horfa á fótboltaleiki eða billjard eða að tefla með körlunum. Í staðinn varstu fastur heima með göngugrindina og þurftir algjörlega að treysta á aðra, sem var þér erfitt. Ég og Sigþór fórum fyrir þig í búðina, en ég er í dag þakklát fyrir að hafa átt þær stundir með þér og spjallið okkar þá, þú varðst alltaf að spyrja um stelpurnar mínar og hvernig þeim gengi í námi og vinnu, og þú varst svo stoltur af þeim. Þeim er minnisstæðast þegar þú komst í heimsókn á laugardögum með stútfulla nammipokana handa hverri þeirra, vinsæll varstu þá.

Minningar koma upp í hugann eftir að þú kvaddir, ég man eftir þegar þú og mamma fóruð að byggja sumarbústað í Eylífsdalnum, það var ekki mikið fyrir okkur krakkana að gera, ég man eftir eldhúsinu sem við mokuðum út í moldarbarðinu í brekkunni og bleika plastbollastellinu mínu sem var notað í búleik og hún Hagalína músin sem við veiddum og höfðum sem gæludýr.

Við fórum í tvær Danmerkurferðir í sumarhús, fyrri ferðin þegar ég var 10 ára og mikill spenningur að fara fyrsta skiptið til útlanda, við mamma létum klippa hárið á okkur stutt og mamma saumaði á okkur mæðgur eins samfestinga, hún brúnan og ég fékk bleikan, þér fannst við svo flottar. Á þessum árum var ég mikil pabbastelpa.

Síðan má ekki gleyma sunnudagsbíltúrunum, þá var keyrt niður Laugaveginn, síðan niður á bryggju að skoða skipin, svo lá leiðin í ísbúðina á Hjarðarhaga og jafnvel komið við í sunnudagskaffi á Nökkvavoginum hjá ömmu og afa. Það var líka farið í lengri bíltúra til Keflavíkur og síðar Njarðvíkur að heimsækja ömmu og afa þar, jafnvel var komið við í Grindavík hjá Búggu, Bjössa og krökkunum. Einnig var skroppið í Hveragerði að heimsækja Stebba frænda og fjölskyldu. En þekktastur varstu fyrir lengsta bíltúrinn, sem var hringferð um landið á einni helgi og geri aðrir betur.

Ég er sátt í mínu hjarta og kveð þig með söknuði pabbi minn, það var erfið ákvörðun að leyfa þér að fara í Sumarlandið og ég hvíslaði að þér að drífa þig bara í 105 ára afmælið hans afa.

Þín dóttir

Ingibjörg Ásta.

Þórir fékk mjög snemma mikinn áhuga á skák og tefldi alla tíð síðan, mest hér heima, en einnig þefaði hann uppi skákklúbba á ferðum sínum erlendis og tók þátt í stofnun eins slíks í Taílandi, en þar dvaldi hann gjarnan síðustu árin á meðan heilsan leyfði svo löng ferðalög.

Hann var einn af þeim sem Friðrik Ólafsson smitaði af skákbakteríunni með sinni frábæru frammistöðu.

Þórir var liðtækur snókerspilari og greip gjarnan í spil í góðum félagsskap.

Eins og flestir guttar á Ísafirði, oftast nefndir púkar fyrir vestan, var hann í fótboltanum og lék upp alla yngri flokkana með Vestra í grænu og rauðu helmingaskiptu búningunum!

Eins og allir sem tengdust Olsen-fjölskyldunni, frumkvöðlum rækjuvinnslunnar í Ísafjarðardjúpi, þá vann Þórir hjá Óla Olsen frænda sínum þegar liðtækra handa var þörf.

Hann vann sem unglingur við beitningar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, beitti þar fyrir Torfa Björns á Erninum ÍS. Gunnlaugur, faðir hans, vann í kjötvinnslu Kaupfélagsins beint á móti beitningaraðstöðunni.

Hann fór snemma að heiman til Reykjavíkur, að lokinni skólagöngu í Barna- og Gagnfræðaskóla Ísafjarðar, líklega 16 ára, og fór þá að vinna með námi við ritvéla-, reiknivéla- og búðarkassaviðgerðir í Hafnarstræti.

Síðan vann hann hjá Skrifvélinni á Suðurlandsbrautinni við sömu iðn, en hann varð fullnuma skrifvélavirki, eins og fagið hét þá, rafeindavirki er heitið nú, og sótti hann stíft endurmenntunarnámskeið erlendis og hér heima í þeirri grein vegna gífurlega mikilla tækniframfara, þegar tölvurnar voru að yfirtaka allt og nýjungarnar bókstaflega streymdu inn og allt varð úrelt á örskömmum tíma – þá vildi og varð Þórir að fylgjast grannt með þróuninni.

Þórir var glettinn og alltaf stutt í brosið. Við Ingibjörg kvöddum hann sárþjáðan á sjúkrahúsinu eftir erfiða aðgerð, en brosið var samt á sínum stað.

Þórir lést á afmælisdegi föður síns, 20. mars, en þá voru liðin 105 ár frá fæðingu Gunnlaugs.

Innilegar samúðarkveðjur til barna Þóris og þeirra fjölskyldna.

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, Björn Birgisson.