Sló í gegn Chamberlain í rullu Kildares læknis.
Sló í gegn Chamberlain í rullu Kildares læknis.
Fréttir af andláti leikarans Richards Chamberlains vöktu minningar um sjónvarpsþættina um James Kildare lækni, sem sýndir voru í sjónvarpinu fyrir rúmlega hálfri öld. Þættirnir voru stökkpallur fyrir Chamberlain, sem sagði eitt sinn í viðtali að frægðin hefði verið dásamleg

Karl Blöndal

Fréttir af andláti leikarans Richards Chamberlains vöktu minningar um sjónvarpsþættina um James Kildare lækni, sem sýndir voru í sjónvarpinu fyrir rúmlega hálfri öld.

Þættirnir voru stökkpallur fyrir Chamberlain, sem sagði eitt sinn í viðtali að frægðin hefði verið dásamleg. Hann varð heimsfrægur og sagði að konur hefðu elt sig á röndum, en hann yfirleitt komist undan á blæjubílnum sínum.

Sjónvarpsþættirnir voru frumsýndir árið 1961 og gengu í fimm ár. Þeir náðu hins vegar ekki til Íslands fyrr en áratug síðar.

Hinn ágæti læknir átti sér forsögu. Hann birtist fyrst í flokki skáldsagna á fjórða áratug 20. aldar. Bækurnar urðu uppspretta útvarpsleikrita og bíómynda, sem gerðar voru á árunum 1938 til 1942 og urðu alls níu. Í það minnsta einhverjar þeirra bárust hingað og voru sýndar í Gamla bíói.

Ekki virðist hlaupið að því að sjá þættina um Kildare lækni. Á netinu má finna stiklur og er vísað í myndasafn Warner Brothers, en þar standa þeir aðeins til boða á mynddiskum. Reyndar er allsendis óvíst að þættirnir um hinn geðþekka Kildare lækni þoli nánari upprifjun en að skoða þessar ágætu stiklur.

Höf.: Karl Blöndal