Heildarrekstur Garðabæjar á síðasta ári var gerður upp með tæplega 1,2 milljarða kr. í plús. Þetta sýnir ársreikningur bæjarfélagsins sem hefur verið lagður fyrir bæjarstjórn til umræðu. Almar Guðmundsson bæjarstjóri segir þetta í tilkynningu umfram væntingar. Spáð hafi verið að útkoman yrði 474 milljónir kr. í plús
Tekjur Garðabæjar í fyrra voru liðlega 30 ma.kr., nokkru meiri en ráð var fyrir gert. Rekstrargjöld voru 25,2 ma.kr. og stóðu því sem næst á pari við áætlun. Eigið fé í árslok nam 28.671 m.kr. skv. efnahagsreikningi. Veltufé frá rekstri nam 2.331 m.kr. og hækkaði verulega á milli ára. Eiginfjárhlutfall bæjarins er nú 43,9%.
„Grunnrekstur sveitarfélagsins styrktist verulega, eins og við lögðum upp með í áætlun. Við sjáum það á sterku sjóðsstreymi og afkomu fyrir fjármagnsliði. Önnur staðfesting þess er að skuldir A-sjóðs lækka um 2 ma.kr. á milli ára,“ segir Almar bæjarstjóri. „Við ákváðum að sýna fyrirhyggju og ábyrgð, hagræða myndarlega í rekstri og búa samhliða í haginn til framtíðar.“
Í Garðabæ er íbúafjöldinn kominn yfir 20.000 og fjölgaði íbúum um ríflega 5% á síðasta ári eða um 1.000 manns. Almar segir trausta fjárhagsstöðu bæjarins undirstöðu þess að hægt sé að brjóta land undir ný hverfi og veita íbúum þar – og annars staðar – þá þjónustu sem vænst er.
Alls námu framkvæmdir Garðabæjar í fyrra 6,8 milljörðum kr. Slegin voru 4,9 milljarða kr. langtímalán vegna þeirra en jafnframt voru greidd niður langtímalán að fjárhæð 1.643 milljónir kr. Helsta framkvæmdin var bygging Urriðaholtsskóla. sbs@mbl.is