Unnur Gígja Baldvinsdóttir fæddist að Stóra-Eyrarlandi á Akureyri 22. mars 1933. Hún lést 28. mars 2025 á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum.
Foreldrar hennar voru Snjólaug Hlíf Baldvinsdóttir, f. 21. nóvember 1912, d. 3. maí 2000, og Baldvin Gunnlaugur Sigurbjörnsson skipstjóri, f. 9. júlí 1906, d. 2. maí 1970.
Systkini hennar eru:
Erla, f. 30. október 1931, d. 18. maí 2015. Guðbjörn, f. 30. maí 1937, d. 31. ágúst 1976. Baldvin Sigurbjörn, f. 24. júní 1947.
Unnur Gígja giftist 22. ágúst 1956 Magnúsi Bjarnasyni frá Vestmannaeyjum, f. 5. júlí 1934, d. 21. nóvember 2019. Foreldrar hans voru Ásta Haraldsdóttir, f. 26. október 1914, d. 2. júní 2005, og Bjarni Jónsson, f. 28. september 1911, d. 9. júní 1987.
Börn þeirra Unnar Gígju og Magnúsar:
1) Snjólaug Ásta, f. 18. febrúar 1957, d. 26. febrúar 1957. 2) Margrét Lilja, f. 24. desember 1961. Sambýlismaður Jóhann Pétursson. Hennar sonur: Baldvin Búi Wernersson. 3) Bjarni Ólafur, f. 4. apríl 1963. Börn hans: Jenný Huld, Magnús Ellert, Gígja Sunneva og Snjólaug Hildur.
Unnur Gígja ólst upp á Akureyri við leik og störf. Fyrstu fjögur starfsár sín, að loknu gagnfræðaprófi, vann hún á Bæjarskrifstofum Akureyrar en hélt síðan í hjúkrunarnám sem hún lauk árið 1956 frá Hjúkrunarskóla Íslands. Eftir útskrift starfaði hún hjá Sjúkrahúsi Vestmannaeyja og síðar á Heilsugæslustöð Vestmannaeyja.
Árið 1973 lauk hún námi í heilsuvernd við Statens Helsesösterskole í Ósló.
Þau hjónin bjuggu í Reykjavík á árunum 1980–1986 er þau fluttu aftur út í Eyjar.
Á Reykjavíkurárunum starfaði hún fyrst á Heilsugæslustöðinni í Árbæ en síðar á Dagdeild Landspítalans í Hátúni.
Er út í Eyjar kom aftur vann hún á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þar til hún lét af störfum um áramótin 2002 og 2003. Síðustu árin dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum.
Útför Unnar Gígju fer fram frá Landakirkju í dag, 4. apríl 2025, klukkan 13.
Nú hefur hún mamma kvatt okkur, er komin á betri stað og hvíldinni fegin.
Ég átti alveg einstaka móður og er svo þakklát fyrir allar stundirnar með henni. Hún var frábær fyrirmynd bæði fyrir okkur systkinin og ekki síður fyrir barnabörnin.
Hún var einstaklega heilsteypt manneskja, heiðarleg, hlý og umhyggjusöm. Með mjög ríka réttlætiskennd, þá sjaldan hún reiddist var það oftast vegna þess að brotið hafði verið á hlut einhvers.
Um tvítugt fór hún til Reykjavíkur í hjúkrunarnám. Það starf hentaði henni mjög vel og helgaði hún sig starfinu af lífi og sál. Sérstaklega átti ungbarnaeftirlitið hug hennar og hjarta. Ég er enn að hitta fólk sem rifjar upp hvað mamma hafi reynst þeim vel og verið gott að leita til hennar með veik börn.
Hún var ekki bara einstaklega góð mamma heldur einnig besta amma sem hægt er að hugsa sér. Henni þótti afskaplega vænt um barnabörnin og veitti þeim skilyrðislausa ást, umhyggju og þolinmæði. Þau voru alltaf velkomin til hennar og alltaf gat hún gefið þeim góðan tíma. Hún leyfði þeim að byggja tjaldbúðir í stofunni, leika sér með kristalsdýrin, leyfði þeim alltaf að vinna í olsen olsen og breyta reglunum eftir hentugleikum, horfði á teiknimyndir með þeim og fengu Bangsímon, Litla hafmeyjan og Járnrisinn ansi mörg áhorf. Bústaðaferðirnar voru svo alveg sér á parti og þar voru allir að njóta sín í botn.
Hún var líka að kenna þeim góð gildi í lífinu, lagði áherslu á að borða hollan mat og mikilvægi þess að lesa á hverjum degi.
Mamma var ekki mikið fyrir mannamót og slíkt. Henni leið best með fjölskyldunni og þá sérstaklega í rólegheitunum í bústaðnum. Það má segja að hún hafi helgað sig fjölskyldunni og hjúkrun.
Samband foreldra minna var einstaklega fallegt og einkenndist af væntumþykju og virðingu. Þau voru samtaka um flesta hluti og hjálpuðu hvort öðru sem best þau gátu. Það var mjög erfitt fyrir hana þegar pabbi féll frá 2019, hann hafði verið við hlið hennar í 65 ár og hafði alltaf verið stoð hennar og stytta. Hann hafði sýnt henni einstaka umhyggju í veikindum hennar.
Það er svo ótal margs að minnast og margt sem ber að þakka. Minningin um yndislega mömmu og ömmu lifir í hjörtum okkar.
Margrét Lilja.
Mamma kvaddi okkur eftir erfið veikindi sem drógu úr henni mátt og hug. Þetta var löng barátta og hvíldin var henni kærkomin. Hún fékk loks að fara til pabba og Snjólaugar Ástu. Í sorginni og missinum er það huggun.
Þó svo að margt hafi tapast í baráttunni við þennan miskunnarlausa sjúkdóm náði hann aldrei að taka frá henni hlýjuna og manngæskuna. Hún var mild og gefandi allt til loka. Þannig var hún sem móðir bernsku minnar og sem minn besti vinur í gegnum mitt lífshlaup.
Börnin mín fengu að njóta umvefjandi hlýjunnar allt frá fyrstu skrefum. Hún veitti þeim, líkt og okkur Margréti, vernd, leiðsögn og ást. Þeirra missir er mikill.
Barnæskan var mömmu ekki létt og mótaði lífssýn hennar. Engin biturð eða reiði komst þó að, heldur einsetti hún sér að gera allt í hennar valdi til að tryggja okkur það sem hana hafði skort.
Hún var gefandi sál og valdi starfa þar sem umhyggja og lækning varð hennar lífsvegur. Ungbarnahjúkrun átti hug hennar og lengst af starfsferlinum annaðist hún börn. Hún var elskuð af þeim sem unnu við hlið hennar og elskuð af mæðrum barnanna sem hún hjúkraði.
Mamma var hógvær og hæglát. Henni var gefið svo margt, tónlist, hjartahlýja, skarpur hugur og næmni. Hún fór vel með það allt en hafði ekki hátt um sínar gáfur. Samdi falleg lög sem hún söng fyrir okkur litlu fjölskylduna. Það var henni nóg. Hún hafði yndi af ljóðum og fallegri tónlist og allri góðri list og hönnun og hafði næmt auga.
Allt mitt líf hefur mamma fylgt mér og börnunum mínum. Hún verndaði, leiðbeindi, gaf og fyrirgaf. Mildin var svo mikil og ástin svo einlæg. Missirinn verður því svo mikill.
Hlýja brosið þitt og allar minningarnar verða ætíð hjá mér.
Bjarni Ólafur
Magnússon.
Ég kveð þig nú elskuleg tengdamóðir. Okkar kynni hófust fyrir rétt um 20 árum þegar leiðir okkar Margrétar Lilju lágu saman. Þú varst alltaf einstaklega innileg og hlý og ekki man ég til þess að þú hafir skipt skapi þennan tíma. Mér var sagt frá því að þú gætir sett upp Akureyrarsvipinn ef þér var misboðið en aldrei sá ég þann svip.
Þú hafðir lokið starfsævinni, starfað sem hjúkrunarfræðingur og lagðir þú líf og sál í það starf. Aðstæður oft erfiðar svo sem eftir gosið en þegar síminn hringdi að kvöldlagi varst þú boðin og búin til aðstoðar. Það eru margir sem minnast þinna starfa með miklum hlýhug. Þið Muggur voruð alla tíð samrýnd og samband ykkar einstakt. Þú misstir mikið þegar hann féll frá. Þá var hugur þinn byrjaður að dvelja meira í fortíðinni og naustu þá ómetanlegrar aðstoðar Margrétar Lilju.
Síðustu árin dvaldir þú við gott atlæti á Hraunbúðum. En alltaf var yndislegt að koma til þín. Þó svo að þú vissir ekki alltaf nákvæmlega hvaða dagur var tókstu mér og öðrum alltaf fagnandi, glöð og ánægð.
En nú er komið að kveðjustund. Þú kveður sátt enda skilað góðu verki. Muggur bíður þín og hefur án efa skipulagt komu þína nákvæmlega. Það verða fagnaðarfundir og ekki er ólíklegt að þín bíði lítið garðshorn. Ég þakka þér fyrir allt og blessuð sé þín minning.
Þinn tengdasonur,
Jóhann Pétursson.
Margar af minningum mínum um ömmu eru órjúfanlegur þáttur af góðri barnæsku. Amma var alltaf til staðar fyrir mann, þegar ég datt og slasaði mig sem barn leitaði ég til ömmu. Umhyggja hennar var svo mikil ásamt væntumþykju og hlýju að það var varla annað hægt en að leita til hennar.
Hún kenndi mér ótal margt og mörg góð gildi í lífinu, betri fyrirmyndar er ekki hægt að óska sér.
Mér þykir vænt um allar þær minningar sem ég átti með ömmu og afa eins og ferðirnar í bústaðinn og norður, samverustundir okkar eru mér ómetanlegar. Ég lít upp til þeirra beggja og dáist að þeirri vinsemd og hlýju sem fallega hjónabandið þeirra virtist eiga óendanlega mikið af.
Ég á erfitt með að ímynda mér lífið án þess að geta leitað til ömmu, en ég get fundið gleði við tilhugsunina að hún og afi séu sameinuð á ný.
Ég á eftir að sakna þín, elsku amma.
Baldvin Búi.
Elsku amma, þegar ég rifja upp minningar okkar fyllist ég þeirri hlýju sem einkenndi þig alla þína tíð. Mildi þín og góðmennska snerti hjörtu allra í kringum þig, og þitt fallega bros lýsir upp allar minningar mínar um þig.
Þér var gefið svo margt, en þú gafst enn meira af þér. Ekki síst sýndir þú ótrúlegan kjark, hvort sem það var þegar þú fluttir frá æskuslóðum á litla, hvassviðra eyju vegna ástarinnar, hófst nám á fertugsaldri í Noregi eða stóðst af þér veikindi með óbilandi þrautseigju.
Það er mér mikill heiður að bera nafn þitt og halda minningu þinni á lofti. Ég er ævinlega þakklát fyrir hvernig þú mótaðir mig og þau gildi sem þú kenndir mér – að sýna hlýju, hjálpa öðrum og mæta lífinu með æðruleysi, styrk og fyrirgefningu.
Samverustundir okkar einkenndust af einstakri vináttu. Að koma heim til ömmu og afa var eins og að koma heim. Heim þar sem maður var metinn fyrir allt það besta sem maður bar og mætt þar sem maður var. Þið kennduð mér að sjá þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða og veittuð mér styrk til að elta drauma mína – ávallt með kærleikann að leiðarljósi.
Ég myndi gefa mikið fyrir að sitja með ykkur afa eitt síðasta sinn og finna fyrir þeirri hlýju sem þið gáfuð mér. Í staðinn er það hughreystandi að vita að þið eruð aftur sameinuð, með litlu Snjólaugu Ástu ykkar.
Minning þín verður ávallt ljós í hjarta mér.
Þín
Gígja.
Gæðakona, hvað er það? Svarið er m.a. Gígja eins og hún var ævinlega kölluð í fjölskyldunni. Kynni okkar hófust er Ágústa mín kom með mig í fyrstu heimsókn til Vestmannaeyja fyrir sextíu árum, en Gígja var gift Magnúsi (Muggi frá Garðshorni), mági mínum og góðvini. Kynni mín af Gígju voru þannig að ég skynjaði strax að þarna var gæðakona sem bar hag annarra fyrir brjósti og hafði valið sér sem ævistarf að hjúkra og líkna öðrum. Þegar þau hjónin komu í ferð upp á land var iðulega þeirra fyrst stopp hjá okkur Ágústu minni og urðu þá miklir fagnaðarfundir. Gígja var ljóðelsk og átti fjölda ljóðabóka. Mikið var þakklæti hennar er ég færði henni að gjöf nokkrar ljóðabækur ungskálda sem ég hafði ekki sama áhuga á að eiga og gat glatt hana með þessum verkum ungu skáldanna. Það kom í minn hlut að hringja í Gígju að næturlagi er gosið hófst í Eyjum árið 1973, en þá var hún við framhaldsnám í Noregi í sínum fræðum. Hún var vakin þar sem ég tilkynnti henni hvernig væri komið í heimabæ hennar. Við tók óvissutími sem þó eins og flestir vita hvernig fór. Síðustu árin hafa verið Gígju erfið og eftir að Muggur féll frá dofnaði lífslöngunin og veikindi sóttu á. Ég kveð þessa sómakonu með söknuði og þakklæti fyrir alla okkar góðu samveru og veit að þau systkinin Muggur og Labba taka henni fagnandi í Sólarlandinu.
Anton Örn Kærnested.