Norður
♠ G1032
♥ K84
♦ D4
♣ 10973
Vestur
♠ 4
♥ D1096
♦ 83
♣ D9652
Austur
♠ K98
♥ G53
♦ ÁKG1092
♣ G
Suður
♠ ÁD765
♥ Á72
♦ 765
♣ ÁK
Suður spilar 4♠.
Að henda tapslag í tapslag getur oft leyst ýmis vandamál sagnhafa. Spilið að ofan er dæmi um það.
Austur opnaði á 1♦ en eftir það tóku NS við og lokasamningurinn var 4♠ í suður. Vestur spilaði út ♦8 og austur tók tvo efstu og spilaði þriðja tíglinum sem vestur trompaði með ♠4.
Sagnhafi velti spilinu ekkert sérstaklega fyrir sér, yfirtrompaði með tíunni í blindum, spilaði spaða á drottninguna og tók ásinn. En austur reyndist eiga kónginn valdaðan; þótt spaðafjarkinn léti ekki mikið yfir sér hafði hann upphafið slag á tromp fyrir vörnina, sem fékk í fyllingu tímans fjórða slaginn á hjarta.
Sagnhafa yfirsást einföld spilamennska: að henda hjarta í borði í stað þess að yfirtrompa. Eftir það hefði hann getað svínað tvisvar fyrir ♠K austurs og trompað síðan hjarta í borði.