Sif Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 2. febrúar 1958. Hún lést á Landspítalanum 12. mars 2025.

Foreldrar Sifjar voru Bjarni Sigurðsson, f. 19. maí 1920, d. 2. október 1991, sóknarprestur á Mosfelli í Mosfellsdal, síðar prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, og Aðalbjörg S. Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 23. júlí 1921, d. 29. desember 2005.

Sif lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1977. Hún var lengi búsett í Danmörku og stundaði nám í bókmenntum við háskólann í Árósum, lauk síðan prófum í íslensku, dönsku og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Síðustu árin nam hún þjóðfræði við HÍ. Sif var lengi dönskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð og hafði nýlokið löngum og farsælum kennsluferli þar þegar hún lést.

Sif eignaðist tvo syni. Hilmir Þór fæddist 12. apríl 1988, eiginkona hans er Þuríður Sóley Sigurðardóttir, f. 24. desember 1990. Barn þeirra er Halla Sif, f. 11. apríl 2023. Barn Hilmis úr fyrra sambandi er Þórunn, f. 25. september 2008. Yngri sonur Sifjar var Ásbjörn, f. 12. febrúar 1991, d. 1. júní 2009.

Útför Sifjar verður gerð frá Háteigskirkju í dag, 4. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Sif, móðir okkar og tengdamóðir, lést 12. mars á Landspítalanum. Hún var okkur stoð og stytta í okkar lífi og fyrirmynd á mörgum sviðum. Hún hafði miklar væntingar í sinn garð og ætlaðist til þess sama af okkur sem stóðum henni næst. Af henni lærðum við að sýna þrautseigju og að gefast ekki upp þótt á móti blási.

Samhliða því að vera ein að ala upp tvo drengi fór hún í fimm ára háskólanám til að öðlast kennararéttindi og hvorugt gerði hún af hálfum hug. Lífið á þeim tíma var oft krefjandi og áskoranir margar en hún lét ekkert buga sig og kom út sterkari fyrir vikið. Við fjölskyldan vildum þó óska þess að seinni og auðveldari tíðin hefði fengið að vera lengri.

Virkari konu var varla hægt að finna og var hún alltaf með fulla dagskrá. Hvort sem það var við göngur víða hér um land eða erlendis, garðrækt á sumrin í sínum eigin fallega garði og þeim sem hún leigði ár hvert fyrir matjurtirnar, diplómunám við háskólann og stanslaust stúss með ömmustelpunum sínum, svo eitthvað sé nefnt.

Nokkrum mánuðum áður en hún veiktist bauð hún okkur og stelpunum með sér til Danmerkur þar sem við gistum í „kofanum“ í eigu vinkonu hennar, Viggu. Ferðin var svo yndisleg og kærkomin í alla staði að við ætluðum að gera hefð úr þessu og fara helst ár hvert. Minningin um þessa ferð er því ómetanleg því við fengum þennan dásamlega tíma saman en á sama tíma er vont að hugsa til þess að minningarnar verði ekki fleiri.

Að kveðja á þessum tímapunkti var ekki eitthvað sem við vorum undirbúin fyrir og það er erfitt að hugsa til þess að stundirnar með henni verði ekki fleiri. Við kveðjum hana með söknuði og trega í hjarta ásamt því að þakka fyrir allar ómetanlegu stundirnar sem við áttum saman.

Þú varst falleg, greind og hjartagóð,

á takteinum dönskuslettur.

Flakkari fullur af baráttumóð,

mín móðir, mitt skjól og minn klettur.

Þinn mikli kraftur, þitt kennimark,

ásamt gleðinni og smitandi hlátri.

Þú seigluna sýndir mér, sjálfstæði og kjark,

í meinsins illvíga umsátri.

Hugurinn þraukaði meðan líkaminn brást,

gantast af verkjunum hokin.

Elsku mamma, nú hætt ertu að þjást.

Ljúfsár eru leiðarlokin.

Því horfinn er nú klettur minn,

og allur hennar kraftur,

sem lengi syrgði soninn sinn,

en hittir nú loksins aftur.

Hilmir og Þura Sóley.

Elsku besta amma, ég er ekki enn búin að komast yfir það og viðurkenna fyrir sjálfri mér að þú sért endanlega farin. Þú hjálpaðir mikið til við að móta mig sem manneskju og þú varst allavega 90% af félagsmótun minni, með öðrum orðum varst þú stór hluti af lífi mínu. Við áttum fullt af góðum stundum og minningar saman sem ég er þakklát fyrir að hafa upplifað með þér. Ég er mjög glöð að við höfum farið saman í allar ferðirnar. Þú kenndir mér að sjá fegurðina í náttúrunni og kenndir mér að njóta hvers augnabliks sem ég hafði upplifað. Ég mun sakna þessara stunda þegar ég fékk mér grænan frostpinna og þegar við borðuðum ís saman.

Það er einnig mjög krefjandi að vita að ég er oft næstum búin að hringja í þig til að láta vita að ég sé á leiðinni til þín. Alltaf þegar ég geng að húsinu þínu vona ég innst inni í hjarta mínu að þú munir taka á móti mér með opinn faðm. Í þessu húsi hefur margt gerst og það vantaði alls ekkert upp á lífið og fjörið í Meðalholtinu. Alltaf á góðum sumardegi sátum við saman út í garði, ég lá á teppi í grasinu í sólbaði á meðan þú varst sitjandi í garðstól að lesa bók. Lífið var yndislegt þá. Þú elskaðir að vera í litríka garðinum og njóta blómaskeiðsins eftir harða garðvinnu og þú fylltist alltaf af stolti þegar einhver labbaði fram hjá. En núna er eins og húsið sé tómt því að það vantar þig.

Tímarnir voru erfiðir þegar krabbinn kom í heimsókn og það eina sem hélt okkur gangandi var vonin, vonin um að allt yrði betra. Þó að líkaminn væri við það að gefast upp var hugur þinn ákveðinn í að allt myndi ganga vel og að þú myndir lifa aftur eðlilegu lífi. Þú varst baráttukona og barðist hart frá byrjun til enda. Þú mátt vera stolt af því að hafa háð allar þessar baráttur sem þú þurftir að ganga í gegnum.

Þú hafðir góð áhrif á alla sem þú hittir, þú skildir alltaf eftir þig slóða af góðum

minningum fyrir þig og aðra til að njóta og muna. Hver minning er dýrmætur fjársjóður, hún er það dýrmæt að ekkert er nógu mikils virði til að gefa í staðinn. Ég vildi að ég hefði fengið að kveðja þig almennilega og segja þér hversu þakklát ég er fyrir það að hafa þig sem ömmu.

Ég vil bara segja takk fyrir allt.

Þórunn Hilmisdóttir Petersen.

Sif var yngst okkar systkinanna á Mosfelli, samt var hún aldrei litla systir heldur ævinlega jafnoki okkar í leik og starfi. Mest lék hún sér við Guðmund sem var þremur árum eldri en hún.

Bernska okkar var mótuð af umhverfinu í dalnum, nálægðin við náttúruna var mikil, stutt upp í fjallið, þar fórum við í berjamó, 14 kýr í fjósi, hestar, kindur, hænur, hundur og köttur. Á sumrin setti heyskapurinn sterkan svip á daglegt líf okkar, þá sátu Guðmundur og Sif gjarnan á fergusoninum hjá Sigurbergi Bjarnfreðssyni vinnumanni og horfðu þaðan á heiminn.

Sif varð snemma fluglæs og bókhneigð, einu sinni kom bóksali að Mosfelli og bauð þjóðsögur Jóns Árnasonar til kaups. Foreldrar okkar keyptu ritsafnið, mörg þykk bindi sem voru geymd inni á skrifstofu hjá pabba. Þar undi Sif sér vel við lestur, veturinn leið og um vorið hafði hún lesið allt þjóðsagnasafnið.

Á sumrin tóku við ferðalög á landróvernum með foreldrum okkar, stuttar ferðir austur á Skeið, pabbi var Árnesingur að ætt, einu sinni fórum við um Norðurland, tjölduðum í Vaglaskógi og ókum alla leið austur á Norðfjörð, þaðan var Aðalbjörg mamma okkar.

Það kom ekki á óvart að Sif fetaði menntaveginn, hún fór í Menntaskólann á Laugarvatni og eignaðist þar góða vini. Síðan tók við háskólanám heima og erlendis, hún gat sífellt á sig blómum bætt, síðustu árin lagði hún stund á þjóðfræði og var langt komin í námi í þeirri grein. Hún kenndi um árabil í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hafði nýlokið farsælum kennsluferli þar þegar kallið kom.

Ég á ekkert nema góðar minningar um systur mína, sumar þeirra frá bernskutíð í Mosfellsdal fyrir 60 árum, á skilnaðarstundu kemur þetta ljóðabrot upp í huga minn:

Fyrir löngu hlýtur það að hafa verið,

ég á hérna ljósmynd.

Varðveittu minningarnar,

þær eru allt sem þú átt eftir,

já, þær eru allt sem þú átt eftir.

(Harald G. Haralds)

Í Mosfellsdal átti systir mín mörg bernskusporin og þar fær hún sína hinstu hvílu hjá elsku drengnum sínum og ljúflingnum honum Ásbirni.

Hvíldu í friði, elsku systir.

Bjarki Bjarnason.

Elsku kæra Sif „tante“ eins og þú skrifaðir með þinni einstaklega fallegu rithönd á öll jólakort og afmæliskort. Það er óhætt að segja að þú sért tante í orðsins fyllstu merkingu, dýrmætasta frænkudjásnið. Þegar ég fór í Myndlistaskólann í Reykjavík vantaði mig samastað og fékk því að búa hjá þér eitt skólaár. Það var upphafið að okkar innilega vinskap því þó að ég hafi þekkt þig sem frænku alla tíð, þá urðu kynnin mun nánari eftir það og héldust náin alla tíð síðan. Það var einstaklega notalegt að búa hjá þér, afslappað, frjálslegt og þægilegt. Það sem stendur upp úr eru innihaldsrík samtöl og sú venja okkar að sofna hvor á sínum endanum í tungusófanum yfir sérkennilegum dönskum sjónvarpsþáttum.

Eitt kvöldið þegar við vorum að spjalla sagðir þú frá nágrannakonunni sem ásældist myntuna í garðinum þínum. Í stað þess að skammast og rausa nýttum við áhuga hennar sem innblástur til að heiðra plöntuna. Í kjölfarið léstu hendur standa fram úr ermum og bauðst til veislu. Hið árlega og stórskemmtilega myntuboð einkenndist af því að allt var gert úr myntu. Þú lagðir þig alla fram eins og þín var von og vísa, fórst ásamt Þórunni ömmustelpu í græna búninga og gerðir brakandi fersk salöt sem hreinsuðu bæði líkama og sál. Þetta voru svo sannarlega fjörug matarboð með grænni og ferskri stemningu.

Þegar Sif frænka skráði sig í þjóðfræðina dýpkaði samband okkar enn frekar út af þessu sameiginlega áhugasviði. Sif var þjóðfræðingur í eðli sínu enda las hún kornung allt þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar. Ráðstefnuferðin okkar til Tékklands var einstaklega skemmtileg. Það var ómetanlega gaman hjá okkur frænkunum hvort sem það var að þræða krúttlegar götur Prag, setjast niður á kaffihús eða fara saman á fyrirlestra. Ég gleymi því seint hvað þér fannst sprenghlægilegt að sjá fræðimenn sem héldu fyrirlestra bak við tölvur því þér fannst svo fyndið að bjóða upp á andlitslausa fyrirlestra. Eins og þér var einni lagið vaknaðir þú ávallt eldsnemma og fórst í tæplega klukkustundar göngu til þess að stunda tékknesku sundlaugarnar. Göngur voru þér mjög hugleiknar. Þú varst nýbúin að taka þjóðfræðileg viðtöl við fólk sem stundaði göngur áður en veikindin gerðu vart við sig. Þess vegna fannst þér einna sárast, þegar þessu skæðu veikindi ágerðust, að geta ekki gengið með góðu móti.

Um daginn sagðir þú mér að stundum virtist ganga vera án tilgangs, það er að segja að utanaðkomandi sjá ekki tilganginn en göngumaðurinn upplifir hann. Ég veit að þú gengur ennþá. Nú hefur þú endurheimt þitt eigið göngulag og það mótar fyrir kímni í augunum og þér eru allir vegir færir. Rétt eins og sannri fræðikonu sæmir heldur þú áfram að spyrja spurninga: Hvers vegna geng ég og hvert er ferðinni heitið? Takk fyrir að ganga með mér í takt og takk fyrir að vera yndislega þjóðfræðifrænkan mín. Og enn og aftur takk fyrir gönguferðina saman. Hún hafði bæði tilgang og merkingu.

Vilborg Bjarkadóttir.

Elsku Sif; móðursystir mín, systir og vinkona.

Þú ert sú manneskja sem hefur alltaf verið til staðar fyrir mig og mína, í blíðu og stríðu, og fyrir það er ég þakklát.

Minningarnar eru óteljandi. Við höfum brallað ýmislegt, ferðast mikið saman innan lands og utan og verið með leikhúskort í mörg ár, því báðar höfðum við mikinn áhuga á íslensku leikhúslífi og þótti gaman að sjá alls kyns sýningar í gegnum tíðina.

Þú varst einstök fyrirmynd og mjög sjálfstæð. Áskoranir þínar í lífinu voru oft á tíðum óbærilegar en þrátt fyrir að bogna brotnaðir þú ekki. Þú hélst áfram, sinntir starfi þínu, fjölskyldu og vinum af væntumþykju og áhuga, menntaðir þig frekar og ferðaðist um fjarlæg lönd. Þér þótti nefnilega vænt um lífið og hefðir svo sannarlega viljað vera hér lengur.

Söknuðurinn er sár, en ég mun í hjarta mínu varðveita góðar minningar um elsku dýrmætu Sif mína, sem mér þótti svo innilega vænt um.

Ýr.

Sumum hefur þótt það skrýtið í gegnum tíðina hversu gott samband ég hef alltaf átt við Sif. Hún var nefnilega ömmusystir mín og margir þekkja varla systkini ömmu sinnar og afa eða hitta þau bara í stórveislum.

Samband okkar Sifjar var kannski ekkert venjulegt frænkusamband, hvað þá þegar horft er til þess að tæp 40 ár skildu okkur að í aldri. En Sif var heldur engin venjuleg frænka. Stundum lýsti ég henni sem einhvers konar blöndu af móðursystur og ömmu. Hún var samt miklu meira en það einhvern veginn. Hún var manneskja sem ég gat leitað til með hvað sem var, sem var alltaf tilbúin að hlusta, kom mér óteljandi oft til að hlæja og var ómissandi félagsskapur við hvaða aðstæður sem er.

Við prjónuðum saman, héldum upp á dag piparmyntunnar (sem var hennar uppfinning), þar sem við drukkum óáfenga mojito og borðuðum myntusalat, fórum til útlanda, gengum á fjöll, fórum í leikhús, ferðuðumst um Ísland og sungum í karókí. Í menntaskóla var ég með lykil hjá henni og fékk að gista ef strætó var hættur að ganga á kvöldin eftir vinnu eða lærdóm.

Sif var óneitanlega ein þeirra sem mest áhrif hafa haft á mig. Elja hennar, styrkur, hjartahlýja, hugmyndaauðgi og lífsgleði er eitthvað sem ég mun alltaf geyma með mér. Öll ættu að hafa eina Sif í sínu lífi.

Síðustu mánuðir hafa verið afar erfiðir og sársaukafullir en elsku sterka, yndislega Sif gafst ekki upp heldur barðist af sama krafti og í gegnum alla fyrri erfiðleika. Hún skilur eftir sig skarð sem ekki verður hægt að fylla. Því að með Sif missti ég ekki aðeins kæra frænku, heldur einnig stórkostlega vinkonu sem kenndi mér svo margt.

Aðalbjörg.

Það fyrsta sem ég hugsa um þegar Sif kemur upp í hugann er hvað hún var ótrúlega góð manneskja og að ég varð að betri manneskju eftir samveru með henni.

Hennar verður sárt saknað.

Nokkru eftir að Ásbjörn dó bjuggum við saman i Árósum í nokkra mánuði. Margs er að minnast frá þeim tíma. Það var hlegið og grátið. Sorgin eftir sonarmissinn var stór en það var „rum og plads“ í Max Müllersgade a þessum tímum. Það var gott að koma heim til Sifjar á kvöldin eftir langar vaktir. Í Árósum fórum við á söfn og í hjólatúra. Í Reykjavík fórum við í gönguferðir, bíltúra og heimsóknir. Sif elskaði Ísland og íslenska þjóðmenningu. Íslenski þjóðbúningurinn hennar ömmu fór henni vel og engri fór hann betur, enda bar Sif hann með glæsibrag.

Ég á aldrei eftir að finna lyktina af fjallagrösum án þess að minnast Sifjar. Fjallagrösum sem hjálpuðu mér og fleirum í gegnum margt kvefið, en hún sendi mér oft fjallagrös sem hún hafði tínt.

Dugnaðarforkur var hún Sif frænka mín sem aldrei missti áhugann á að læra og kenna öðrum áfram það sem hún hafði lært.

Ég hringdi í Sif þegar mig vantaði orð, sem ekki var sjaldan, eftir næstum því 50 ár erlendis. Hún talaði vandaða íslensku sem einkenndi gæðablóðið hana Sif.

Á torginu í nágrenninu sátu oft „bumser på en bænk“, þeir áttu til að vera háværir og lét ég þetta eitthvað fara í taugarnar á mér en Sif kallaði þá herramenn sem njóta sólar og félagsskapar. Síðan þá geng ég ekki framhjá rónum á bekknum heldur herramönnum. Já, Sif hefur plantað góðmennsku.

Það er sárt að hugsa til þess að ferðin til Austfjarða verður ekki farin. Ferðin á æskustöðvar mæðra okkar sem við ætluðum að fara í. Það minnir mig á mikilvægi þess að vera ekki að fresta því sem mikilvægt er því þegar upp er staðið gildir að lifa lífinu núna.

Ég þakka fyrir að hafa átt Sif í mínu lífi, hún var mitt lífsvitni.

Sárt er til þess að hugsa að litla Halla Sif kynnist ekki ömmu sinni.

Elsku Hilmir, Þura, Þórunn, Bjarki og Ýr, innilegustu samúðarkveðjur.

Bryndís Bylgja Guðmundsdóttir.

Minningarnar einar eftir, hugurinn reikar. Eldhúsið í Meðalholtinu, tómatplöntur í glugga og myndin af Friðriki Danakrónprins býður gesti velkomna. Kaffibollar á borði, spáð og spekúlerað í gönguferðum, nú þarf að velja en það verður erfiðara með hverju árinu. Margar kröfur, ekki bera allt á bakinu, ekki sofa í tjaldi nema kannski eina nótt. Ekki gott að fjöllin séu of há eða brött, báðar lofthræddar og svo verður erfiðara með hverju árinu að fara upp í móti. Kannski er kominn tími til að skoða gönguferðir í öðrum löndum, heitara þar, þurfum bara stuttbuxur og boli, einmitt og við endum í gönguferð um Grænland. Auðvitað æðisleg ferð eins og alltaf og þó að farangurinn hafi orðið eftir á flugvellinum í Keflavík var það bara hluti af ævintýrum þeirrar ferðar.

Ég hugsa til baka, 17 alvöru göngur í alls konar veðri og fullt af óvæntum atvikum. Hvað ætli hafi orðið um trússið sem beið í Hlöðuvík meðan hópurinn var veðurfastur í Fljótavík? Skyldi bandaríska konan sem átti vegabréfið sitt þar hafa komist heim til sín á réttum tíma? Ógleymanlega gangan í Skotlandi þegar við „óvart“ lentum í ferð á vegum Blindrafélaga á Íslandi og Finnlandi og meirihluti göngufólks var verulega sjónskertur en í fanta gönguformi. Lónsöræfi, fyrsta alvöru gangan, langar dagleiðir, brattar skriður sem hentuðu lofthræddum illa, að þurfa að bera allan farangur niður Illakamb yfir í Múlaskála. Þá var tekin sú ákvörðun að bera aldrei aftur allt á bakinu. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir síðasta sumarið okkar, æfingagangan á Vörðufellið, fjallið mitt úr æsku, Grænlandsferðin frábæra og berjaheimsóknin í september. Reyndar afspyrnulélegt berjaár en þú náðir nægu í jólaísinn. Við ákváðum að bláberjalíkjörinn biði næsta hausts, engar samanburðarrannsóknir hjá okkur það árið.

Elsku besta Sifin mín með bjarta brosið og alltumvefjandi hlýja nærveru. Fáir reyndust mér jafn vel og þú þegar dagarnir voru dimmir. Í huganum sé ég þig í þinni síðustu gönguferð, upplitaði bakpokinn, örugglega tvær vatnsflöskur því þú hafðir af fáu meiri áhyggjur en að verða uppiskroppa með vatn. Væntanlega eru ullarvettlingarnir í pokanum og gamli vasahnífurinn. Naslpokinn með rúsínum, hnetum og suðusúkkulaði ofarlega. Við vorum að verða nokkuð góðar í að kaupa hæfilegt magn af súkkulaði. Já, og sílikoneyrnatapparnir hljóta að vera með. Þú lánaðir mér þannig tappa eftir svefnlausa fyrstu skálanóttina mína. Það verður að segjast að þú tókst fullan þátt í hrotukór þeirrar nætur. Hins vegar gleymdirðu alveg að vara mig við að ýta töppunum of langt inn og sast svo flissandi í kojunni að pikka þá úr.

Ég horfi á eftir þér ganga af stað, þú stansar öðru hvoru og beygir þig niður. Kannski sástu glitta í fjallagrös eða ert að athuga berjavísa á lyngi. Góða ferð, ég kveð þig eins og þú gerðir í okkar síðasta samtali

„Vertu blessuð og takk fyrir allt.“

Halla.

Það fór ekki milli mála að tungumáladeildin í MH hafði fengið sterkan liðsauka þegar Sif hóf þar kennslu í dönsku haustið 2006. Ég þekkti hana ekkert en okkur tókst fljótlega að finna sameiginlega fleti því hún þekkti einustu sveitina á landinu sem ég hafði kynnst. Hún hafði kennt í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi og við þekktum sömu kennileitin.

Sif var góður kollegi og alltaf tilbúin að kasta sér út í nýbreytni og tilraunir í kennslu. Við kenndum nokkrum sinnum valáfanga saman og vorum mjög sammála um aðferðir og leiðir. Hún var rösk og samviskusöm og skilaði úrlausnum nemenda fljótt og vel. Ég dáðist að því hvernig hún gat nýtt hverja stund til leiðréttinga á verkefnabunkunum.

Það var mikið fyrir frumkvæði Sifjar að dönskukennarar í MH tóku þátt í norrænu samstarfi. Hún átti hugmyndir að verkefnum sem tengdu saman lönd og kennara og náði gjarnan að flétta inn í þau þjóðsögur og þjóðhætti. Ég naut góðs af og minnist með ánægju ferðalaga og skólaheimsókna sem Sif skipulagði af ábyrgð og vandvirkni en líka með snjöllum lausnum og húmor. Í Turku í Finnlandi fann hún gistingu handa okkur í klaustri, til að nýta norræna styrkinn.

Sif hafði gaman af ferðalögum og var mikill göngugarpur. Hún gekk reglulega í nágrenni Reykjavíkur, um óbyggðir landsins á sumrin og síðasta sumar var hún í gönguferð á Grænlandi. Námsorlofið sitt nýtti hún m.a. í Danmörku við ritgerðarskrif og endaði orlofsárið á að fara til Nepals, skoðaði skóla og kom færandi hendi með ritföng og skólavörur sem hér eru sjálfsagður hlutur.

Stundum lifði Sif í takt við árstíðirnar. Hún hafði verið í sauðburði, dúntekju og tók slátur á haustin sem var allt afskaplega framandi fyrir mér. Á vorin kom Sif færandi hendi með græðlinga af tómatplöntum sem hún hafði komið upp. Þá færði hún áhugasömum sem hún hafði trú á að gætu haldið tómötunum á lífi og notið þeirra.

Afköst hennar í bóklestri vöktu aðdáun mína. Hún hafði mikinn áhuga á bókum Kims Leine og las þær strax og þær komu út. Hún fór talsvert í leikhús og lét sig ekki vanta á leiksýningar nemenda MH. Að sjálfsögðu var farið í Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn til að sjá Hnetubrjótinn.

Við áttum reglulega gæðastundir í „kaffimik“ og á aðventu tilheyrði að fá sér „snebajer“ og snafs „eins og sönnum dönskukennurum sæmir“ sagði Sif. Hún hélt utan um okkur meðan Guðrún var líka með, Sif skipulagði og við hlýddum.

Lífið fór ekki alltaf blíðum höndum um Sif. En hún átti sterkan hóp ættingja og vina sem umvöfðu hana ást og hlýju og eiga nú um sárt að binda. Henni þótti undurvænt um fjölskyldu sína og sonardæturnar. Þórunn var ekki bara barnabarn, hún var líka vinkona ömmu sinnar.

Sif sendi hjarta sem svar við smáskilaboðum mínum daginn áður en hún dó. Þetta hjarta er mér mikilvægt og ég mun alltaf geyma minningarnar um sómakonuna Sif í hjarta mínu.

Syni hennar og fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sifjar Bjarnadóttur.

Lovísa Kristjánsdóttir.

Elsku Sif er farin.

Nágranni, ræktunarfélagi og kær vinkona. Við Sif kynntumst fyrir um 30 árum en urðum góðar vinkonur eftir að hún flutti í Meðalholtið með drengina sína. Við byrjuðum oftast sumardagana á morgunkaffihittingi í sólinni hér hjá mér eða hjá henni og þá var skylda að vera á náttbuxum. Við ræddum lífsins gagn og nauðsynjar fram og til baka en sjaldan án húmors hjá Sif. Húmorinn hennar var lúmskur en aldrei án hjartahlýju. Sif var nagli en rosalega góður nagli. Hún var greiðvikin og úrræðagóð og ávallt tilbúin að rétta hjálparhönd. Hún aðstoðaði mig í ófá skipti með ýmislegt.

Fyrir rúmum 10 árum byrjuðum við að sá fyrir sumarblómum og grænmeti. Var þetta fastur liður hjá okkur frá því snemma vors og fram á sumarbyrjun, enda áttum við blómlegustu garðana í Meðalholtinu. Sögðum samt á hverju vori „ekki svona mikið næst“ sem aldrei stóðst. Þórunn hennar var mjög liðtæk í þessu baksi okkar og stóð sig með prýði frá unga aldri.

Það verður ekkert sáð í vor.

Sif var mikill göngugarpur og heimsflakkari og kom til margra landa og fjalla. Nú hefur hún nægar gönguleiðir að þræða og margt að sjá og upplifa.

Blessuð sé minning hennar.

Bella Saari á nr. 5.