Gylfi Ólafsson og Ragnar Sigurðsson í Spursmálum.
Gylfi Ólafsson og Ragnar Sigurðsson í Spursmálum.
Sveitarfélög sem byggja afkomu sína í ríkum mæli á starfsemi sjávarútvegsins vilja skýrari svör frá meirihlutanum á Alþingi um það hvaða áhrif hann telji að tvöföldun veiðigjalda á útgerðarfélög muni hafa á byggðir landsins

Sveitarfélög sem byggja afkomu sína í ríkum mæli á starfsemi sjávarútvegsins vilja skýrari svör frá meirihlutanum á Alþingi um það hvaða áhrif hann telji að tvöföldun veiðigjalda á útgerðarfélög muni hafa á byggðir landsins.

Um þetta eru þeir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, og Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, sammála. Sá síðarnefndi bendir á að algjört samráðsleysi hafi einkennt undirbúninginn að frumvarpinu sem lagt var fram í samráðsgátt og hefur nú tröllriðið allri umræðu í íslenskum stjórnmálum síðustu daga.

Gylfi bendir á að sveitarfélögin á landsbyggðinni hafi átt í vök að verjast. Það eigi því miður ekki aðeins við um þetta mál heldur einnig aðra gjaldtöku sem fyrri ríkisstjórn hafi dengt á starfsemi á þeirra vettvangi. Þar nefnir hann sérstaklega svokölluð innviðagjöld sem lögð voru á skemmtiferðaskip og að þau hafi verið lögð á með skömmum fyrirvara. Sömuleiðis niðurfellingu virðisaukaskatts á leiðangursskip sem hafi lagt leið sína í minni hafnir, meðal annars á Patreksfirði og í Flatey, en svo einnig stighækkandi gjöld á laxeldið sem verið hefur í mikum vexti á Vestfjörðum. Segir Gylfi þetta mjög bagalegt.

Í viðtalinu bendir Ragnar á að sú verðmætasköpun sem verði til á Austfjörðum sé úr öllu samhengi við þann mannfjölda sem þar býr. Í Fjarðabyggð eru launatekjur á hvern íbúa enda langhæstar, sé það borið saman við önnur svæði. Hann segir að fyrirætlanir stjórnvalda vegi að þessu og þeim möguleikum sem sjávarútvegsfyrirtækin á svæðinu hafa til þess að efla starfsemina enn frekar og fjárfesta til framtíðar.

Þeir eru í viðtalinu báðir spurðir út í samskipti við kjörna fulltrúa á Alþingi. Gylfi, sem hefur lengi gegnt trúnaðarstörfum fyrir Viðreisn, segist hafa heyrt í sínu fólki á Alþingi og komið sjónarmiðum Ísfirðinga á framfæri. Hann vill ekki greina nánar frá þeim samskiptum enda sé um tveggja manna tal að ræða.

Ragnar segist bíða spenntur eftir viðbrögðum stjórnarþingmanna frá Austfjörðum.

„Ég hef auðvitað fylgst með þeim á þingi og mér krossbrá að sjá þingamnn úr Fjarðabyggð styðja þetta frumvarp, hafandi verið með henni í bæjarstjórn og fylgst með henni sem formanni bæjarráðs leggja fram miklu kröftugri bókun gegn veiðigjöldum heldur en það sem við erum að leggja fram núna […] þar var hún að leggjast mjög harkalega gegn því að uppsjávarflotinn yrði skattlagður umfram aðrar greinar landsins. Það er mjög sérstök bókun ef maður skoðar síðan það sem hún er að segja í dag þannig að ég efast ekki um að hún á eftir að koma með útskýringar á því.“

Þar er Ragnar að vísa til Eydísar Ásbjörnsdóttur þingkonu Samfylkingarinnar.