„Þessa dagana erum við hins vegar aðallega að róa lífróður fyrir okkar fólk og fara í mál við opinber stjórnvöld,“ segir Ásgeir, framkvæmdastjóri verkalýðsfélags utanríkisþjónustunnar.
„Þessa dagana erum við hins vegar aðallega að róa lífróður fyrir okkar fólk og fara í mál við opinber stjórnvöld,“ segir Ásgeir, framkvæmdastjóri verkalýðsfélags utanríkisþjónustunnar. — Morgunblaðið/Ásdís
Við erum ekki í einhverjum pólitískum andspyrnuleik heldur erum aðeins að berjast fyrir því að lögum og reglum sé fylgt.

Mitt í hringiðu stjórnmála í Bandaríkjunum, í höfuðborginni Washington D.C., býr og starfar Íslendingurinn Ásgeir Sigfússon. Hann var staddur hér á landi nýlega og notaði blaðamaður þá tækifærið til að kíkja til hans í heimsókn og heyra um líf hans og störf vestanhafs. Í Bandaríkjunum hefur hann búið í tæp þrjátíu ár og stjórnar nú fag- og verkalýðsfélagi utanríkisþjónustunnar. Félagið, American Foreign Service Association, er komið í málaferli við ríkisstjórn Trumps, í fyrsta sinn í sögu þess.

Vinnur í þágu átján þúsunda

Ásgeir fór til Bandaríkjanna eftir nám í Menntaskólanum í Reykjavík og byrjaði í Pennsylvaníu-háskóla, þar sem hann lagði stund á ensku og alþjóðasamskipti. Þaðan lá leiðin í Georgetown-háskóla í Washington, þar sem hann kláraði meistaragráðu í Evrópufræðum.

„Ætlunin var alltaf að klára BA-nám í ensku, flytja beint heim og kenna ensku í MR. En þegar ég var á öðru ári datt mér í hug að það gæti verið gaman að eiga einhvern tímann smá pening og bætti þá við mig alþjóðasamskiptum og fannst það rosalega spennandi. Ég ákvað svo að halda því áfram og fór í Georgetown og stefndi því á einhvers konar frama innan alþjóðamála eða í utanríkisgeiranum,“ segir Ásgeir, en í gegnum námið kynntist hann eiginmanni sínum Sean.

„Ég var í starfsnámi meðfram skólagöngunni hjá American Foreign Service Association. Þeir réðu mig svo í fullt starf strax eftir námið og síðan hef ég náð að vinna mig upp í framkvæmdastjórastöðu. Við erum hagsmunasamtök og verkalýðsfélag bandarísku utanríkisþjónustunnar,“ segir Ásgeir og bætir við að félagið telji átján þúsund meðlimi.

„Yfirleitt erum við að „lobbýa“ uppi á þingi og stöndum í viðræðum við ráðuneyti um vinnuaðstöðu. Við pössum upp á réttindi fólks og að farið sé eftir reglum. Þetta eru týpísk verkefni verkalýðsfélags en auk þess gefum við út tímarit og sjáum um námsstyrki. Utanríkisráðuneytið er hinum megin við götuna frá okkur og við höfum alltaf verið mikið inn og út þar,“ segir hann og segir félagið þverpólitíska stofnun sem ekki sé rekin í hagnaðarskyni. Ásgeir segir að meðal aðalmarkmiða sé að hvetja til þess að nægu fjármagni sé varið til utanríkismála, sem og að sjá til þess að fólk úr utanríkisgeiranum fái sendiherrastöður erlendis, frekar en fólk úr viðskiptalífinu.

„Þessa dagana erum við hins vegar aðallega að róa lífróður fyrir okkar fólk og fara í mál við opinber stjórnvöld.“

Herjar á opinber verkalýðsfélög

Ástæða málaferlanna er sú að Trump hefur nú lokað Þróunarsamvinnustofnun Bandaríkjanna (U.S. Agency for International Development), sem og Voice of America, stofnun sem sér um fréttaflutning til landa sem ekki fá að heyra sannar fréttir. Í báðum starfa bandarískir diplómatar sem heyra undir American Foreign Service Association.

„Báðar þessar stofnanir eru stofnaðar með lagasetningu og við erum því að fara í mál, því ef loka á þessum stofnunum þarf að gera það samkvæmt lögum. Þessar lokanir hafa mikil áhrif á fólk víða um heim. Við heyrðum í konu sem var í Kongó þar sem hún vann hjá þróunarsamvinnustofnununni og þeim var þar hent út úr landi í miðjum óeirðum. Hún var ófrísk og stuttu eftir að hún kom til Bandaríkjanna missti hún fóstur af stressi og áhyggjum,“ segir hann.

„Það er hægt að loka þessum stofnunum en ekki með þessari aðferð, en ástæðan sem Trump nefnir er sparnaður. Það sparast ekki mikið með þessu, enda er í fjárlögum innan við 1% sem fara í utanríkismál og þróunaraðstoð. Þetta eru því rosalega mikil læti og erfiði og vanvirðing við fólk fyrir lítinn sparnað,“ segir hann og segir fjölda fólks nú standa eftir atvinnulausan víða um heim, hvorki með réttindi né tryggingar. Trump hefur einnig gefið út forsetatilskipun þess efnis að stórir hópar opinberra starfsmanna njóti ekki lengdar verndar og þjónustu verkalýðsfélaga á grundvelli þjóðaröryggis.

„Þetta snertir um tíu þúsund manns hjá okkur og flokkast næstum undir grimmd. Við erum nú að berjast gegn þessu og viljum sjá til þess að þetta fólk fái almennilega og réttláta meðferð. Við erum nú með tvö mál í gangi, annað sem tengist þá þróunarsamvinnustofnun og hitt sem tengist Voice of America, en auk þess erum við með „class action“-mál margra manna, þeirra sem hafa verið rekin. Við höfum aldrei áður, í yfir hundrað ára sögu félagsins, farið í mál við hið opinbera,“ segir hann og segist vita að þessi mál muni taka mörg ár og óljóst sé með niðurstöðurnar.

Starfið hans Ásgeirs hefur alltaf verið annasamt, en aldrei eins og nú.

„Það er endalaust áreiti. Málin munu enda einn daginn fyrir hæstarétti. Þetta er allt tengt þeirri hugmynd að forsetinn sé alvaldur, sem er mjög skrítið í landi þar sem valdið er þrískipt.“

Fólk er reitt og þreytt

Snúum okkar að þinni persónulegu upplifun þessa dagana. Hvernig er stemningin núna í Washington?

„Hún er frekar ömurleg. Stórborgir í Bandaríkjunum eru flestar „bláar“ og í Washington fékk Trump aðeins rétt rúmlega 6% atkvæða. Bragurinn í borginni er frekar dapurlegur og fólk er rosalega reitt, enda margir að missa atvinnu og öryggi. Í fyrri stjórnartíð Trumps var fólk dapurt en til í að berjast á móti en núna er fólk reitt og þreytt. Ég held að margir séu í uppgjafarfasa eða í afneitun. Það eru kosningar strax á næsta ári, miðstjórnarkosningar, og þá byrjar allt aftur. Kannski breytist eitthvað þá, sjáum til,“ segir Ásgeir og bætir við:

„Það eru 46 mánuðir eftir og fólk er strax orðið svolítið lúið. En það verður að bregðast við þessum sorglegu og ömurlegu áhrifum sem þetta hefur á okkar fólk. Við erum ekki í einhverjum pólitískum andspyrnuleik heldur erum aðeins að berjast fyrir því að lögum og reglum sé fylgt.“

Ásgeir segir margt fólk upplifa nú að bandarískt samfélag sé að taka skref afturábak í mörgum réttindamálum, eins og mál sem varða minnihlutahópa og innflytjendur.

„Það byrjaði allt með banni við þungunarrofi eftir tæp fimmtíu ár. Það var fyrsta aðförin að réttindum fólks. Það hefur alltaf verið opinber stefna þessa flokks að banna þungunarrof og nú er það innflytjendastefnan,“ segir Ásgeir og nefnir að það sé stórmerkilegt að lönd eins og Kanada, Danmörk og Finnland hafi gefið út ferðaviðvörun til Bandaríkjanna, sem beinist sérstaklega til transfólks og samkynhneigðra.

„Nú eru þreifingar um hvort ekki sé tími til að banna hjónabönd samkynhneigðra. Þetta er allt einhvers staðar í gangi í kerfinu; sumt er búið eins og hvað varðar þungunarrofið og annað er í bígerð. Mér finnst þetta persónulega vera afturför en það er fullt af fólki sem er ósammála mér og það má hafa sína skoðun,“ segir hann og nefnir að hvað varðar þungunarrofslögin séu að minnsta kosti 25-30 ár þar til einhver von sé að þessu verði aftur snúið við.

„Sex af níu dómurum við hæstarétt eru skipaðir af repúblikönum og sitja þar út ævina.“

Er fólk hrætt við að bjóða Trump birginn?

„Fólk vill ekki verða fyrir barðinu á hans neikvæðu athygli að minnsta kosti. Það getur verið endirinn á ferli þínum að fara á móti honum.“

Þetta byrjaði með látum

Langar þig að flytja til Íslands?

„Tæp þrjátíu ár í Bandaríkjunum eru langur tími. Ég hef sagt í gríni að ég bjóst aldrei við að búa í keisaraveldi á meðan það væri að hnigna. Manni finnst aðeins farið að hrikta í stoðum þess sem gerði Bandaríkin að Bandaríkjunum,“ segir hann, en þess má geta að þremur vikum eftir að Ásgeir flutti til Washington varð hryðjuverkaárásin 11. september 2001.

„Ég var í þinghúsinu þennan morgun og okkur var hent út því síðasta vélin átti að fara á þingið. Það er sú vél sem fór á akrana í Pennsylvaníu. Þannig að þetta byrjaði með látum.“

Ásgeir og Sean eiga skemmtilega risíbúð við Tjörnina og una sér vel þar þegar þeir dvelja á landinu, bæði við leik og störf. Þeir geta báðir sinnt sínum störfum í fjarvinnu í nokkra mánuði á ári, en Sean er fjármálaráðgjafi.

„Við erum um þrjá mánuði á ári á Íslandi núna en ef einhver vill ráða mig, þá flyt ég heim,“ segir hann og hlær.

„Ég er að skoða í kringum mig og ef rétta tækifærið birtist myndi ég stökkva á það. Eftir 30 ár hér er maður kominn með djúpt og breitt tengslanet. Sean er eiginlega meira til í að flytja hingað en ég; hann elskar Ísland. Okkur líður báðum mjög vel hér og kunnum vel að meta páskahret og tíu stiga hita. Hér á ég góða vini og fjölskyldu. Planið hefur alltaf verið að enda á Íslandi.“