Hressir Bergur Ebbi og Snorri Helgason.
Hressir Bergur Ebbi og Snorri Helgason. — RÚV
Fílalagsþátturinn um GCD-flokkinn er það fyndnasta sem sést hefur í íslensku sjónvarpi á seinni tímum. Ég veinaði á löngum köflum úr hlátri heima í stofu, svo hundinum stóð ekki á sama. En hafa ber í huga að ég er í grunninn mjög alvörugefinn maður og aumingja skepnan því óvön svona galsa

Orri Páll Ormarsson

Fílalagsþátturinn um GCD-flokkinn er það fyndnasta sem sést hefur í íslensku sjónvarpi á seinni tímum. Ég veinaði á löngum köflum úr hlátri heima í stofu, svo hundinum stóð ekki á sama. En hafa ber í huga að ég er í grunninn mjög alvörugefinn maður og aumingja skepnan því óvön svona galsa.

En þeir fílalagsmenn, Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason, fóru á kostum í þættinum, þannig að þriðjungur hefði verið nóg. Það er vandasöm list að draga menn sundur og saman í háði en um leið sýna þeim fullkomna og tilhlýðilega virðingu. Hér tókst það upp á 10, jafnvel 11, svo við vísum í Spinal Tap. Efniviðurinn var auðvitað fyrir hendi, tvær helstu rokkstjörnur Íslandssögunnar, Bubbi Morthens og Rúnar Júlíusson. Endalaust má leggja út af þeim. Til dæmis var upplýst í eitt skipti fyrir öll hvort skrifa á Rúni Júl eða Rúnni Júl. Og fiskabúrsfréttaskýringin um rokksöguna var gargandi snilld.

Danski þátturinn hjá þeim félögum í vikunni var líka fínn enda þótt ég verði að spjalda þá fyrir að halda því fram að enginn danskur músíkant hafi meikað það í henni Ameríku. Hvað með King Diamond, Lars Ulrich og Niels-Henning Ørsted Pedersen? Strákar, upp með sokkana!

Höf.: Orri Páll Ormarsson