Paul, Joseph, Barry og Harris.
Paul, Joseph, Barry og Harris. — AFP/Ethan Miller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar breski leikstjórinn Sir Sam Mendes tók ákvörðun um að ráðast í það þrekvirki að segja sögu sjálfra Bítlanna á hvíta tjaldinu gerði hann sér fljótt grein fyrir því að ein mynd myndi ekki duga til að gera efninu skil og hvorki heldur tvær né þrjár

Þegar breski leikstjórinn Sir Sam Mendes tók ákvörðun um að ráðast í það þrekvirki að segja sögu sjálfra Bítlanna á hvíta tjaldinu gerði hann sér fljótt grein fyrir því að ein mynd myndi ekki duga til að gera efninu skil og hvorki heldur tvær né þrjár. Myndirnar verða því fjórar – ein út frá sjónarhóli hvers og eins Bítils.

Sir Sam kynnti þessi áform sín með pomp og prakt í Las Vegas í vikunni ásamt leikurunum fjórum sem fara munu með hlutverk Bítlanna. Þeir eru Harris Dickinson sem leika mun John Lennon, Paul Mescal sem túlka mun nafna sinn McCartney, Joseph Quinn sem fer í föt George Harrisons og Barry Keoghan sem mun fara með hlutverk Ringos Starrs.

„Hver og ein mynd verður sögð út frá sjónarhorni eins af gæjunum,“ tjáði Sir Sam fjölmiðlum. „Þær skarast stundum en á mismunandi vegu og stundum ekki. Þeir eru fjórar gjörólíkar manneskjur. Ef til vill er þetta tækifæri til að skilja þá aðeins betur á dýptina. En sem ein heild munu allar myndirnar fjórar segja sögu merkustu hljómsveitar sögunnar.“

Gefur sér góðan tíma

Leikstjórinn kveðst einnig hafa íhugað að leggja upp með smáseríu fyrir sjónvarp en ekki fundist það ganga upp. Þess vegna fer verkið á stóra tjaldið. Þar sem það auðvitað á best heima.

Sir Sam gefur sér drjúgan tíma í verkið en fyrirhugað er að frumsýna myndirnar, hverja á eftir annarri, í apríl 2028. Góður tími gefst því til að dusta rykið af gamla Bítlavínilnum, komi þessar upplýsingar flatt upp á einhverja.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn freista þess að segja sögu Bítlanna í leiknum myndum. Í því sambandi má nefna Backbeat, Nowhere Boy og I Wanna Hold Your Hand en eftirlifandi Bítlar og dánarbú hinna hafa ekki í annan tíma lagt blessun sína yfir verkefnið, bæði hvað varðar söguna og notkun á Bítlakatalógnum.

Sir Sam talar um verkefnið sem „fyrsta hámhorfsbíóið“. „Satt best að segja þurfum við að bjóða upp á meiri háttar bíóupplifun til að draga fólk út úr húsi,“ sagði hann.

Létt var yfir Dickinson, Mescal, Keoghan og Quinn á sviðinu og vitnuðu þeir meðal annars í titillag Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band: „Það er dásamlegt að vera hérna, sannarlega ljúft, þið eruð svo huggulegir áheyrendur og okkur langar að taka ykkur með okkur heim.“

Síðan hneigðu þeir sig sem einn maður að hætti Bítlanna og gengu út af sviðinu eins og þeir væru staddir á gangbrautinni á Abbey Road.

Hvað dúddar eru þetta?

En hverjir eru þessir fjórir leikarar sem fá þá verðugu áskorun að leika Bítlana?

Paul Mescal er 29 ára gamall Íri. Honum skaut upp á stjörnuhimininn fyrir fimm árum í myndaflokknum Normal People, þar sem hann þótti leika meistaralega vel á móti Daisy Edgar-Jones. Fyrsta kvikmyndin sem hann lék í var The Lost Daughter með Oliviu Colman og fleirum og þar á eftir Aftersun, en fyrir frammistöðu sína þar var Mescal tilnefndur til Óskarsverðlauna. Af öðrum myndum má nefna All of Us Strangers og Gladiator II. Paul McCartney er ekki fyrsta sögulega persónan sem Mescal spreytir sig á en hann mun leika leikskáldið William Shakespeare í Hamnet eftir Chloé Zhao í mynd sem nú er á eftirvinnslustiginu.

Harris Dickinson er 28 ára gamall Breti. Hann hefur getið sér gott orð fyrir leik sinn í myndum á borð við Maleficent, The King's Man, Triangle of Sadness og Where the Crawdads Sing. Nú síðast birtist hann okkur sem ástmaður Nicole Kidman í Babygirl. Dickinson fékk tilnefningu til BAFTA-verðlaunanna fyrir A Murder at the End of the World og veðbankar telja hann nú líklegastan til að verða næsti James Bond. Ekkert skal um það fullyrt en eigi að síður má gera því skóna að foreldrar Harris Dickinsons hafi hlustað (og hlusti jafnvel enn) mikið á breska bárujárnsbandið Iron Maiden en aðalspaðarnir í því heita einmitt Harris og Dickinson.

Einn sá heitasti í dag

Barry Keoghan er elstur fjórmenninganna, 32 ára. Hann er Íri og sló rækilega í gegn í kvikmyndinni Saltburn fyrir tveimur árum. Fljótt á litið er hann líkastur sínum Bítli í útliti, Ringo. En nú eiga förðunarmeistarar auðvitað eftir að fara um þá félaga höndum. Einhverjir muna líka eftir Keoghan úr The Banshees of Inisherin frá 2022 en fyrir framgöngu sína þar vann hann BAFTA-verðlaunin sem besti leikari í aukahlutverki og var tilnefndur til bæði Golden Globe- og Óskarsverðlauna. Óhætt er að segja að Keoghan sé með eftirsóttari leikurum af yngri kynslóðinni nú um stundir.

Joseph Quinn er líklega minnst þekkta nafnið á listanum. Við erum að tala um 31 árs gamlan Breta sem meðal annars hefur leikið í myndaflokknum Stranger Things, fjórðu seríu. Karakterinn var Eddie Munson ef það hjálpar. Quinn var einnig í A Quiet Place: Day One, og með meðbítli sínum Paul Mescal í Gladiator II. Áður en hann birtist okkur sem George Harrison verður Quinn Johnny Storm/Human Torch í The Fantastic Four: First Steps seinna á þessu ári og mun koma við sögu í tveimur Avengers-myndum. En fínt að hita upp fyrir Fab Four, eins og Bítlarnir eru gjarnan kallaðir í útlöndum, með því að leika í The Fantastic Four.

Forsætisráðherra látinn bíða

Bítlarnir nutu gríðarlegrar lýðhylli meðan þeir voru upp á sitt besta og raunar fá dæmi um annað eins, ef nokkur. Um langt skeið gátu þeir varla um frjálst höfuð strokið og múgæsing greip um sig svo til hvar sem þeir komu. Árið 1963 flutti Morgunblaðið frétt þess efnis að Bítlarnir hefðu verið staddir á Heathrow-flugvelli í Lundúnum á leið úr landi. Að vonum þurfti að ræsa út harðsnúið lið öryggisvarða til að gæta öryggis þeirra enda soguðust flugvallargestir að þeim eins og mý að mykjuskán. Nema hvað, sjálfur forsætisráðherra Bretlands, Alec Douglas-Home (borið fram Hjúm), var einnig staddur á Heathrow, á leið úr landi. Slógu öryggisverðir nú upp neyðarfundi til að leysa málið. Niðurstaðan var einföld; ráðherrann var látinn bíða meðan Bítlunum var fylgt út í vél.