[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef verið alæta á bækur frá því að faðir minn kenndi mér að lesa fimm ára gamalli. Hann færði mér í hverri viku bækur úr Borgarbókasafninu. Ég fékk snemma áhuga á ættfræði og 12 ára var ég búin að lesa öll bindi Kennaratalsins

Ég hef verið alæta á bækur frá því að faðir minn kenndi mér að lesa fimm ára gamalli. Hann færði mér í hverri viku bækur úr Borgarbókasafninu.

Ég fékk snemma áhuga á ættfræði og 12 ára var ég búin að lesa öll bindi Kennaratalsins. Ég safna einungis tvenns konar ritum, ættfræðiritum og stéttartölum. Ég var einmitt að endurlesa Engeyjarættina og Viðskipta- og hagfræðingatalið nýverið. Ég les sennilega hátt í 150 bækur á ári. Í þeim hópi eru ævisögur í uppáhaldi, ekki síður þær sem fjalla um erlenda einstaklinga en um Íslendinga. Ég las um jólin lífshlaup Dunu skólasystur minnar úr gamla Kvennaskólanum og hafði mjög gaman af.

Ég var að ljúka lestri glænýrrar bókar, Kúnstpásu, eftir Sæunni Gísladóttur, sem er að mínum dómi (reyndar er ég móðir höfundarins) afar læsileg bók sem er kjörið að grípa með sér í páskafríið. Þetta er ein fyrsta íslenska bókin, sem lýsir því hversu gríðarleg áhrif covid hafði á ungt fólk. Fortíð og nútíð er blandað vel saman. Önnur ljúflestrarbók sem ég naut nýverið var Óseldar bækur bóksala eftir Shaun Bythell.

Síðasta þýdda skáldsagan sem ég las var Ferðabío herra Saitos, eftir danskan höfund, Annette Bjergfeldt, sem einnig er þekkt söngkona. Ég gat ekki lagt þessa bók frá mér en hún fjallar um argentínskar mæðgur, sem alast upp í klaustri í Buenos Aires, en flytja svo til Nova Scotia í Kanada. Önnur áhugaverð bók er 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld eftir Eolif Shafak, sem fjallar um lífshlaup tyrkneskrar vændiskonu í Istanbúl.

Ég hafði gaman af að lesa bók Guðmundar Andra Thorssonar Synir himnasmiðs um íslenska karlmennsku. Sama á við um bók Árna Heimis Ingólfssonar Tónar útlaganna, um þrjá landflótta tónlistarmenn, sem náðu að auðga ríkulega íslenskt tónlistarlíf.

Að lokum vil ég nefna Kingmaker eftir Soniu Purnell, sem segir frá ótrúlegu lífshlaupi Pamelu Digby, Churchill Leland og Harriman. Um bókina sagði The Economist að hún fjallaði um diplómasíu sem færi fram á milli laka, en Pamela var fræg fyrir að tæla ríka og áhrifamikla menn og nýta þau sambönd Bretlandi til góða í seinni heimsstyrjöldinni. Hún varð síðar lykilmanneskja í bandaríska demókrataflokknum.