Ísland verður að sæta færis nú á tímum þegar mikil óvissa ríkir í heimsbúskapnum. Um þetta eru fyrrverandi ráðherrar Framsóknarflokksins, þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson, sammála.
Þau eru gestir Spursmála að þessu sinni og fara yfir fréttir vikunnar. Þar ber tollaaðgerðir Trumps hæst auk annarra mála.
Benda þau bæði á að tollar séu ekki til þess að efla samvinnu milli þjóða eða ýta undir verðmætasköpun. Hins vegar þurfi íslenskt þjóðarbú að vinna með þá stöðu sem komin er upp. Gott sé að Ísland hafi lent í lægsta tollflokki sem ætti að gefa landinu tækifæri í samkeppni við aðrar þjóðir.
Bendir Lilja á að Ísland hafi sífellt meiri hagsmuna að gæta gagnvart Bandaríkjunum. Huga þurfi að því að styðja við útflutningsgreinar Íslands af öllu afli vegna mikillar óvissu. Vísar hún þar meðal annars til fyrirætlana ríkisstjórnar Íslands um að hækka veiðigjöld á útgerðina.
Willum ræðir í viðtalinu stuttlega um þá ákvörðun sína að bjóða sig fram til forseta Íþrótta- og ólympíusambands Íslands en kosið verður í embættið í maí næstkomandi. Segist hann hafa komið að íþróttum frá mörgum hliðum, meðal annars sem þjálfari afreksfólks. Nú hafi hann ákveðið að bjóða fram krafta sína gagnvart stjórnsýslu starfseminnar og segist vona að reynsla sín, meðal annars sem heilbrigðisráðherra, geti nýst í þeim efnum.