Þétt Hljómsveitin Spiritual Reflections.
Þétt Hljómsveitin Spiritual Reflections.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úrslitarimma Músíktilrauna 2025 verður háð í Hörpu á morgun, sunnudag, og hefst kl. 17.00. Alls 42 hljómsveitir og einherjar kepptu um sæti í úrslitum í lok síðustu og í upphafi þessarar viku og eftir standa þau tíu atriði sem keppa í kvöld, átta…

UMFJÖLLUN

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Úrslitarimma Músíktilrauna 2025 verður háð í Hörpu á morgun, sunnudag, og hefst kl. 17.00. Alls 42 hljómsveitir og einherjar kepptu um sæti í úrslitum í lok síðustu og í upphafi þessarar viku og eftir standa þau tíu atriði sem keppa í kvöld, átta rokksveitir og tveir einherjar sem leika mjög ólíka tónlist.

Asbezt, Big Band Eyþórs, Elín Óseyri, Geðbrigði, j.bear & the cubs, Lucasjoshua, Rown, Spiritual Reflections, Splitting Tongues og Þögn komust áfram, ýmist eftir atkvæðagreiðslu áheyrenda, eða niðurstöðu dómnefndar. Í kvöld ræður svo mat dómnefndar úrslitum í vali á fyrsta, öðru og þriðja sæti tilraunanna, en áheyrendur velja Hljómsveit fólksins í símakosningu.

Tónlistin sem hljómsveitirnar leika er rokkkyns, en hver túlkar rokkið á sinn hátt, ef marka má skrif gagnrýnanda Morgunblaðsins, Arnars Eggerts Thoroddsen undanfarna daga.

Arnar segir að Asbezt hafi leikið „sæmilegasta „Músíktilraunarokk“ ... þéttleiki svona og svona, lög svona og svona en ástríða fyrir framkomunni tilfinnanleg“.

Stórsveitin Big Band Eyþórs flutti að mati Arnars „grúvandi, bláeyga sálartónlist sem náði landi og vel það“. Honum fannst spilamennskan þétt og góð og söngur rífandi flottur.

Elín Karlsdóttir, eða Elín Óseyri, kemur fram ein með píanó og spilar „píanóballöður með góðum textum“. „ … Elín brenndi í gegnum þetta allt saman eins og sú sem valdið hefur.“

Mesta hrifningu Arnars vakti Geðbrigði: „Stórkostlegt suddapönk, beinustu leið neðan úr kviku, og var ástríðan slík að maður varð orðlaus ... Sturlað!“

Þó rætt sé um rokkhljómsveitir hér að ofan var mismikið rafmagn í gangi sem sannast á j.bear & the cubs: „Skemmtilegt, stuðvænt þjóðlagapopp með reglubundnum, smáskrítnum uppbrotum.“

Hinn einherji kvöldsins er Lucas Joshua Snædal Garrison, sem kemur fram sem Lucasjoshua. Hann flytur „iðandi raftónlist, taktvæna og gáskafulla“.

Laugasveitin Rown leikur, að mati Arnars, sérkennilega þungarokkssamsuðu, „eins slags þungarokkspopp“ með víkingarokksáhrifum.

Tónlist Spiritual Reflections var tiltölulega þétt, lögin flókin og Arnar segir að sveitin hafi komist á gott skrið á köflum.

Splitting Tongues bauð upp á „myljandi öfgarokkskeyrslu“. „Vel samið og vel flutt grændkor.“

Vestmanneyska rokksveitin Þögn vakti athygli í síðustu Músíktilraunum „fyrir hráa en stórskemmtilega framfærslu“ að sögn Arnars, en honum finnst lítið að frétta í ár.

Höf.: Árni Matthíasson