Sævar Kristinsson
Sævar Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að öllum líkindum erum við í dag að upplifa þá stöðu sem fjallað er í sviðsmyndinni Jötunheimar.

Karl Guðmundur Friðriksson og Sævar Kristinsson

Á undanförnum árum höfum við, höfundar þessarar greinar, bent á gildi þess að rýna framtíðina og mikilvægi þess að búa fyrirtæki og samfélagið undir það að takast á faglegan hátt við þær breytingar sem eru greinanlegar við ystu sjónarrönd. Við skrifuðum og gáfum út bók til að efla þekkingu á framtíðargreiningum sem ber heitið „Framtíðin. Frá óvissu til árangurs. Notkun sviðsmynda við stefnumótun.“ (sem nálgast má á www.framtidarsetur.is). Þetta starf hefur borið þann árangur að sviðsmyndahugtakið er orðið þekkt og viðurkenning á aðferðinni við að móta framtíðir hefur átt sér stað. Reyndar finnst okkur stundum að hugtakið sviðsmyndir sé ekki nýtt með þeim faglega metnaði sem við lögðum upp með, en alla vega eru Íslendingar farnir að horfa mun meira til framtíðar í atvinnulífi og stjórnsýslu en áður og því ber að fagna.

Margar framtíðir

Við höfum lagt áherslu á að framtíðin geti þróast á margvíslegan máta, eftir breytingum á hverjum tíma. Þess vegna notum við orðið framtíðir í fleirtölu og tölum um framtíðir og mótum sviðsmyndir til lengri tíma, miðað við bestu þekkingu á viðkomandi sviði. Hér verður sagt stuttlega frá einu slíku verkefni. Eftir efnahagshrunið vorum við fengnir til að móta sviðsmyndir til ársins 2025, sem er jú í ár. Lykilspurning verkefnisins var hvernig atvinnulíf og lífsgæði yrðu árið 2025. Um 150 aðilar tóku þátt í verkefninu.

Í vinnuferlinu kom í ljós að helsta óvissan til ársins í ár væri annars vegar þróun alþjóðlegra samskipta og samvinnu þjóða og hins vegar þróun í framboði og eftirspurn auðlinda. Margvíslegir aðrir þættir komu fram í greiningarvinnunni sem jafnframt var tekið tillit til. Niðurstaða þessarar vinnu leiddi fram fjórar sviðsmyndir og fékk hver sviðsmynd lýsandi heiti. Ein þeirra var nefnd „Taka tvö“. Hún einkenndist af opnu alþjóðasamsamfélagi og að eftirspurn eftir auðlindum væri meiri en framboð. Önnur sviðsmyndin var nefnd „Eden“. Hún einkenndist einnig af opnu alþjóðasamfélagi en þar var framboð auðlinda nægt til að mæta eftirspurn. Þriðja sviðsmyndin var nefnd „Eyland“ og einkenndist hún af lokuðu alþjóðasamfélagi og verulegum samdrætti á eftirspurn eftir auðlindum.

Jötunheimar

Fjórða sviðmyndin var nefnd „Jötunheimar“. Að öllum líkindum erum við í dag að upplifa þá stöðu sem fjallað er í þeirri sviðsmynd. Það sem einkenndi hana var óstöðugleiki á alþjóðasviðinu og innleiðing hafta og verndarstefnu (eins og tolla), ásamt mikilli sókn í auðlindir. Meðan á þessu verkefni stóð töldu margir þátttakendur að þessi staða gæti alls ekki ræst og sumir lýstu vanþóknun sinni á slíkri framsetningu. Þarna og í svo mörgum slíkum verkefnum gætir misskilnings á eðli sviðsmyndagreiningar. Greiningin laðar fram ólíkar framtíðir sem byggðar eru á grundvelli bestu þekkingar á hverjum tíma. Þannig geta sumar sviðsmyndir verið hagstæðar fyrir ákveðna hópa en óhagstæðar fyrir aðra. Því er mikilvægt að skilja að sviðsmyndir eru ekki spár, framtíðarsýn eða stefna og ekki heldur framreikningur. Þær eru aðferðafræði til að skilja betur umhverfið og það sem mestu máli skiptir að skapa sameiginlegan skilning á því hvað sé rétt að gera í dag til að mæta óvissi framtíð.

Eins og fyrr segir eru íslensk stjórnvöld nú að fást við það umhverfi sem sviðsmyndin Jötunheimar lýsir. Svo virðist sem það hafi komið mörgum á óvart að þessi þróun gæti átt sér stað, þrátt fyrir ákveðin teikn um breytta heimsmynd á undanförnum árum. Ljóst er að þjóðir heims eru mismunandi í stakk búnar til að takast á við þessar breytingar. Ef vel hefði verið hefði verið ákjósanlegt að þessi vinna og viðbrögð við henni hefði verið uppfærð reglulega af stjórnsýslunni og þá hefði viðbragð opinberra aðila og atvinnulífs við stöðunni í dag verið undirbúið og mun markvissara.

Framtíðin er síbreytileg. Hún er tækifæri þeirra sem hlutast til að breytast í takt við breytingar í starfsumhverfinu, en er ógn ef breytingarnar eru virtar að vettugi.

Verum viðbúin ólíkum framtíðum

Það er ánægjulegt að heyra vaxandi umræður þessa dagana um að samfélagið þurfi að halda vöku sinni og gagnvart breytingum sem oft virðast okkur fjarlægar en geta snert okkur með svo öflugum hætti. Er sama hvort um sé að ræða þróun gervigreindar, varnar- og þjóðaröryggismál eða önnur samfélagsleg málefni.

Þar getur faglega unnin sviðsmyndagreining komið vel að notum.

Karl er framkvæmdastjóri Framtíðarseturs Íslands og Sævar er ráðgjafi hjá KPMG.