Samkvæmt frumvarpi menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra verður stuðningi við námsmenn breytt þannig að fleiri fái hluta námslána sinna breytt í styrk. Lög um Menntasjóð námsmanna frá 2020 höfðu það markmið að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi, meðal annars með styrkjum fyrir þá sem ljúka námi innan tilgreindra tímamarka. Hins vegar hefur reynslan sýnt að færri en stefnt var að hafa náð að nýta sér kerfið, þar sem margir námsmenn uppfylla ekki skilyrði vegna óviðráðanlegra aðstæðna eins og veikinda eða fjárhagserfiðleika.
Langvarandi fjármagnsskuldbinding fyrra kerfis var óhagstæð fyrir marga. Tökum dæmi af ungri konu sem hóf hjúkrunarnám árið 2002. Hún átti ekki annan kost en að taka fullt verðtryggt námslán til að fjármagna menntun sína.
Hún er enn þann dag í dag að greiða af þessu námsláni. Fyrsta afborgun var árið 2008 og nú 18 árum síðar hefur hún greitt tæpar 5 milljónir inn á það. En það stendur samt í ríflega 6 milljónum. Og gleymum ekki að húsnæðislánin eru verðtryggð líka.
Þegar hún loks lýkur við að greiða námslánið árið 2043, þá orðin sjötug, verður heildarupphæðin sem hún hefur greitt til að ná að mennta sig, og þar með færast upp um einhverja launaflokka, komin upp í um það bil 14 milljónir króna.
Í nýju frumvarpi er lagt til að styrkjakerfið dreifist betur yfir námsferilinn. Í stað þess að bíða fram að námslokum eftir 30% niðurfellingu lána, munu nemendur fá 20% styrk við lok hverrar annar, standist þeir lágmarksnámsframvindu. Að auki breytast 10% lána í styrk við námslok ef námi er lokið innan tilskilins tíma. Þessi breyting mun færa stuðninginn nær námsmönnum og veita þeim fyrr umbun, sem skiptir sköpum fyrir þá sem lifa við óvissu eða takmarkað fjármagn. Með þessu er gert ráð fyrir að fleiri lánþegar, allt að 90%, muni uppfylla styrkskilyrði.
Þetta fyrirkomulag nýtur stuðnings námsmanna og endurspeglar betur aðstæður þeirra. Það eykur öryggi og fyrirsjáanleika, sem getur dregið úr brottfalli og stuðlað að betri námsárangri.
Með breytingunum sem ríkisstjórnin leggur til er stefnt að réttlátara og sveigjanlegra námslánakerfi sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsmanna. Flokkur fólksins fagnar þessum breytingum sem styðja betur við námsmenn í kröppum kjörum og stuðla að jafnara aðgengi að menntun.
Ný ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggur áherslu á að bæta hag námsmanna. Réttlátt menntakerfi er eitt helsta vopn þjóðarinnar í baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði.
Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.