Jón Norðfjörð
Jón Norðfjörð
Samkeppnin sem átti að vera svo hagstæð fyrir neytendur hefur snúist að því er virðist upp í einhvers konar löglega ræningjastarfsemi.

Jón Norðfjörð

Um þessar mundir er hér á landi ríkisstjórn sem virðist hafa kjark til að gera ýmsar breytingar sem jafnvel eru mjög umdeildar.

Raforka er ein af grunnþörfum fólks og fyrirtækja og framleiðsla og dreifing ætti alfarið að vera á hendi opinberra aðila. Samkeppni í sölu á raforku hefur alls ekki leitt til jákvæðrar þróunar og nýjustu ráðstafanir stjórnvalda til enn meiri hækkunar á raforkuverði eru enn einn milliliðurinn, svokölluð markaðstorg sem meðal annars eru í eigu einkaaðila sem geta setið heima við tölvuna og rukkað og grætt á neytendum. Þarna á ég við Vonarskarð ehf.

Það er með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld skuli líða þessar aðfarir að fólkinu í landinu.

Hefur ríkisstjórnin kjark til að breyta?

Nú vil ég spyrja: hefur ríkisstjórnin kjark til að breyta sölufyrirkomulagi á raforku til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki? Síðustu mánuði og ár höfum við séð tíðar tilkynningar um verðhækkanir á raforku jafnvel langt umfram almenna verðþróun. Ég tel að upphafið að ógæfu okkar í raforkumálum hafi verið þegar orkustefna Evrópusambandsins var innleidd hér á landi árið 2003 með lögleiðingu á fyrsta orkupakkanum. Þá var íbúafjöldi á Íslandi um 290 þúsund manns og hvergi í heiminum var framleitt jafn mikið og hér á landi af vistvænni og ódýrri raforku á hvern íbúa. Þáverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, með iðnaðarráðherrann Valgerði Sverrisdóttur, lagði þá ofurkapp á að innleiða fyrsta orkupakka ESB. Þetta var gert þrátt fyrir að EES-samningurinn legði ekki þær skyldur á Ísland að samþykkja orkustefnu ESB og ljóst væri að Ísland gæti ekki orðið hluti af innri raforkumarkaði Evrópusambandsins. Orkustefna ESB miðar einmitt meðal annars að því að gera aðildarríkin að einum samtengdum raforkumarkaði og að aðskilja framleiðslu og dreifingu á raforku, sem stjórnvöld fullyrtu að ætti að tryggja samkeppni og þar með lægra og hagstæðara raforkuverð. Í upphafi var augljóst að hvorugt þessara markmiða myndi henta okkur Íslendingum, eins og hefur sýnt sig og sannað svo rækilega.

Óheillaþróun hófst með fyrsta orkupakkanum

Fram til þess að fyrsti orkupakki ESB var lögleiddur hafði framleiðslu raforku og dreifingu verið stýrt af opinberum aðilum, sveitarfélögum og ríki. Samlegðaráhrif af framleiðslu og dreifingu hjá sama aðila þar sem því var viðkomið, hafði gefist vel og tekist hafði að halda kostnaði niðri. Þannig hafði verðlag á raforku til neytenda verið mjög hagstætt. Fyrsti orkupakkinn var fljótur að skila óheillaþróun til neytenda með hækkun raforkuverðs. Aðskilnaður framleiðslu og dreifingu hafði mikinn kostnað í för með sér sem fyrst og fremst jók verð á raforkunni. Samkeppni á raforkumarkaði sem átti að skila mikilli hagræðingu hefur í raun aldrei virkað, enda er markaðurinn allt of smár. Kostnaður til neytenda hefur vaxið jafnt og þétt frá þeim tíma sem þessi óheillaþróun hófst að frumkvæði stjórnmálafólks sem misreiknaði gæði breyttrar stefnu.

Ræningjastarfsemi í boði stjórnmálafólks?

Eftir lögleiðingu á fyrsta orkupakka ESB fóru einkaaðilar og fyrirtæki að seilast til að eignast orkuframleiðslufyrirtæki og jafnvel dreifingarfyrirtæki og varð nokkuð ágengt í þeim efnum. Nægir að nefna Hitaveita Suðurnesja, sem var breytt í hlutafélag og skipt upp í framleiðslufyrirtækið HS orku og dreifingarfyrirtækið, HS veitur. Síðan fóru að spretta upp ýmsir milliliðir og einkafyrirtæki sem kaupa raforku af framleiðendum og kaupendurnir geta eins og áður segir, setið heima hjá sér við tölvuna og endurselt raforkuna til neytenda með verulegum hagnaði. Og enn hefur bæst við ógæfuna með markaðstorginu Vonarskarði ehf. til óheilla fyrir neytendur. Í raun er alveg óskiljanlegt að stjórnmálafólk skuli láta þetta viðgangast. Samkeppnin sem átti að vera svo hagstæð fyrir neytendur hefur snúist að því er virðist upp í einhvers konar löglega ræningjastarfsemi og raforkuverð hefur tekið stökkbreytingum til hækkunar. Þetta er hin dæmigerða gullhúðun og þetta eru „orkupakkagæðin“ sem stjórnmálafólk hefur lagt á okkur neytendur og látið spila með okkur síðustu ár. Nú er spurning: hefur núverandi ríkisstjórn kjark til að taka á þessum stóru mistökum og færa til betri vegar fyrir þjóðina?

Höfundur er fyrrverandi fulltrúi í stjórn Hitaveitu Suðurnesja.

Höf.: Jón Norðfjörð