Frakkar tryggðu sér sigur í 2. riðli A-deildarinnar með því að sigra Norðmenn, 2:0, í Ósló í gær með mörkum frá Clöru Mateo og Sandy Baltimore. Franska liðið er með 12 stig, Noregur fjögur, Ísland þrjú og Sviss tvö þegar fjórar umferðir af sex eru búnar í keppninni. Frakkland verður því eitt þeirra fjögurra liða sem leika til úrslita um meistaratitil Þjóðadeildarinnar í haust.
Þessi úrslit þýða um leið að gríðarlega hörð barátta er fram undan um annað sætið í tveimur síðustu umferðunum í vor. Norðmenn standa best að vígi, eiga eftir heimaleik gegn Íslandi 30. maí og útileik gegn Sviss, og eru því með örlögin alveg í eigin höndum. Ísland á eftir heimaleik við Frakkland í lokaumferðinni 3. júní og Sviss á eftir útileik við Frakkland.
Leikurinn gegn Norðmönnum í Þrándheimi fer langt með að vera úrslitaleikur um annað sætið, sem gulltryggir keppnisrétt í A-deildinni þegar leikið verður um sæti á næsta heimsmeistaramóti. En um leið er ljóst að Sviss mun alltaf eiga möguleika á að bjarga sér frá því að falla beint úr riðlinum í lokaleiknum gegn Noregi á heimavelli, hvernig sem fer hjá liðinu í Frakklandi.
Þriðja sætið í riðlinum þýðir umspil um áframhaldandi sæti í A-deildinni gegn einhverju liðanna sem enda í öðru sæti riðla B-deildarinnar. Í þeim sætum sitja nú Norður-Írland, Írland, Finnland og Tékkland.