Birta Hannesdóttir
Óskar Bergsson
„Fólki líst ekki á blikuna. Þetta er verulegur fjöldi íbúða sem á að bætast við hverfið. Auðvitað viljum við bjóða fólk velkomið í hverfið okkar en það er margt sem þarf að taka tillit til,“ segir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, formaður íbúasamtakanna í Breiðholti og varaborgarfulltrúi Viðreisnar, innt eftir viðbrögðum um hugmyndir borgarinnar um að reisa 1.700 íbúðir á þéttingarreitum innan hverfisins eins og greint var frá hér í blaðinu í gær. Reykjavíkurborg hefur þegar dregið í land og fallið frá þeim hugmyndum að byggja 100 íbúðir við tjörnina í Seljahverfi. Blaðið kallaði eftir frekari gögnum frá borginni í kjölfar fréttarinnar í gær og fékk þá þau svör að nú væru engin áform um uppbyggingu íbúða á þessum tiltekna reit.
Jóhanna segir í samtali við Morgunblaðið að samhliða uppbyggingu í hverfinu verði að gera ráð fyrir aukinni þjónustu. Eins og staðan sé núna sé ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á leik- og grunnskólum í hverfinu, fyrir utan leikskóla í Arnarbakka.
Þá segir hún íbúa í Stekkjum og Bökkum hafa haft verulegar áhyggjur af fyrirhugaðri uppbyggingu á þéttingarreitum í Neðra-Breiðholti þar sem til stendur að reisa samtals 800 íbúðir í Norður-Mjódd og á lóð Sambíóanna. „Þau hafa haft áhyggjur af hæð húsa sem eiga að vera á svæðinu og hvernig skuggavarp og annað verður fyrir núverandi byggð,“ segir hún. Fyrsti fasi umræðna um uppbyggingu fer fram í umhverfis- og skipulagsráði í dag, þar sem uppbygging í Suðurhólum og Norður-Mjódd verður rædd.