Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu er gestur vikunnar.
Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu er gestur vikunnar. — Morgunblaðið/Hallur Már
Ólafur Sigurðsson, framkvæmda­stjóri Birtu lífeyrissjóðs, er gestur í viðskiptahluta Dagmála sem sýndur er á mbl.is. Þar er meðal annars rætt um niðursveiflur á mörkuðum vegna tollaáforma Trumps, fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða og málefni ÍL-sjóðs

Ólafur Sigurðsson, framkvæmda­stjóri Birtu lífeyrissjóðs, er gestur í viðskiptahluta Dagmála sem sýndur er á mbl.is. Þar er meðal annars rætt um niðursveiflur á mörkuðum vegna tollaáforma Trumps, fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða og málefni ÍL-sjóðs.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að markaðir jafni sig kveðst hann vera bjartsýnn á að það gerist að lokum.

„Þetta er auðvitað mjög svart núna og erfitt að átta sig á því hvað gerist næst. Þó að margir hafi metið Trump sem ólíkindatól þá held ég að það hafi nú enginn átt von á svona svakalegum tollum sem enginn skilur í og það verður örugglega töluverður hristingur eitthvað fram eftir þessari viku og jafnvel eitthvað inn í vorið,“ segir Ólafur.

Talið berst að fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Spurður hvort Birta hafi markmið varðandi sjálfbærar fjárfestingar og hvernig það horfi við honum að mörg stór sjóðastýringarfyrirtæki úti í heimi séu farin að hverfa frá stefnu um sjálfbærar fjárfestingar segir Ólafur að það sé að mörgu að huga í þessum efnum.

„Við hjá Birtu settum okkur það markmið að horfa til umhverfis, félagslegra málefna og stjórnar­hátta. Það er ekki bara það sem ég vil sem viðbótarsjónarmið við mat á fjárfestingum. Okkar stefna hefur ekkert breyst þrátt fyrir það sem má kannski kalla bakslag sem hefur orðið bæði vegna þess að umræðan er meira um hernað og ýmislegt annað,“ segir Ólafur og bætir við að hann hafi tröllatrú á því að þegar fyrirtæki eru með jákvætt sjóðstreymi, greiðan aðgang að langtímaauðlindum og gera vel við starfsfólk sé sjálfbær þróun jákvæð og leiði til virðisaukningar fyrir hluthafa. „En að því sögðu þá er allt þetta skýrslufargan, það þarf að grisja töluvert bæði vegna kostnaðar og skynseminnar. Þannig að mér finnst nú Evrópusambandið svolítið hafa svarað því og hyggjast einfalda það. Það fylgir öllum breytingum oft svolítil froða. Það er verið að reyna að koma mörgu til leiðar í risastórum pakka,“ segir Ólafur.

Spurður hvernig þær hugmyndir horfi við honum að almenningi verði gert heimilt að ráðstafa séreignarsparnaði sínum í sjóði hjá sjóðastýringarfyrirtækjum í stað lífeyrissjóða segir Ólafur að honum lítist vel á þær.

„Ég held að það sé til bóta, að þeir sem vilja fara með séreignina þangað sem þeim hugnast best eigi að gera það og geta gert það. Við erum engir varðhundar séreignarsparnaðar, að hann haldist hjá okkur. Bara frábært ef fólk fylgir eigin brjóstviti og fer með séreignina þangað sem það telur best að geyma hana,“ segir Ólafur.