Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti greindi frá því í gær að Úkraínuher hefði handsamað tvo kínverska ríkisborgara sem hefðu tekið þátt í bardögum við hlið rússneskra hermanna. Sagði Selenskí að Úkraínumenn myndu krefja stjórnvöld í Kína skýringa á þátttöku mannanna í innrás Rússa, en þar að auki myndu þeir kalla eftir viðbrögðum frá bandamönnum sínum.
Selenskí sagði á samfélagsmiðlum sínum að mennirnir tveir hefðu verið handsamaðir í Donetsk-héraði. Þá hefðu Úkraínumenn einnig náð að leggja hald á skjöl, greiðslukort og persónulegar upplýsingar mannanna. Selenskí birti einnig myndband sem sýndi annan af mönnunum.
Selenskí sagði einnig að Úkraínumenn hefðu sönnunargögn fyrir því að fjöldi annarra Kínverja hefði einnig barist við hlið Rússa og að hann hefði falið Andrí Síbíha utanríkisráðherra að kalla eftir svörum frá Kína.
Síbíha sagði í yfirlýsingu í gær að sendiráðsstjóri Kínverja í Kænugarði hefði þegar verið kallaður á teppið í ráðuneytinu til þess að útskýra hvers vegna mennirnir tveir hefðu verið á víglínunni í austurhluta Úkraínu.
„Nærvera kínverskra ríkisborgara, sem eru að berjast sem hluti af innrásarher Rússa í Úkraínu, vekur spurningar um hina yfirlýstu afstöðu Kína fyrir friði og dregur úr trúverðugleika stjórnvalda í Peking sem ábyrgðarfulls fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Síbíha í yfirlýsingu sinni um málið.
Kínversk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau séu hlutlaus gagnvart innrás Rússa í Úkraínu og að þau hafi ekki sent neinn herstuðning til Rússa eða Úkraínumanna.
Kínverjar og Rússar hafa hins vegar lýst því yfir nokkrum sinnum á undanförnum árum að vinátta og samstarf þeirra eigi sér „engin takmörk“ og hafa vesturveldin sakað Kínverja um að hafa gert Rússum kleift að halda innrás sinni áfram með efnahagslegum stuðningi af ýmsum toga.
Sýnir friðarviljann í verki
Selenskí sagði jafnframt í gær að þátttaka Kínverjanna í bardögum sýndi að Pútín hefði ekki hug á því að binda enda á stríðið. Kallaði hann eftir viðbrögðum frá Bandaríkjunum, Evrópu og öðrum ríkjum sem vildu frið í Úkraínu.
Úkraínumenn hafa áður kallað eftir viðbrögðum frá bandamönnum sínum eftir að Rússar sendu um 12.000 hermenn frá Norður-Kóreu til bardaga í Kúrsk-héraði. „Norður-Kóreumenn börðust gegn okkur í Kúrsk, Kínverjarnir berjast gegn okkur á landsvæði Úkraínu. Og ég tel þetta mikilvægan hlut til þess að ræða við bandamenn okkar og það sem fyrst,“ sagði Selenskí á blaðamannafundi sínum í gær.
Vestrænir hernaðarsérfræðingar sögðu í gær líklegast að um málaliða væri að ræða frekar en hermenn úr kínverska alþýðuhernum, en að nærvera þeirra á vígvellinum í Úkraínu vekti engu að síður áhyggjur um að kínversk stjórnvöld væru reiðubúin að veita Rússum meiri aðstoð en þau hafa gert til þessa.
Stríðið „snúi aftur heim“
Úkraínumenn staðfestu svo í fyrrakvöld að Úkraínuher væri nú með hermenn í Belgorod-héraði Rússlands, en Rússar greindu frá því í mars að Úkraínumenn hefðu reynt innrás í héraðið. Sagði Selenskí í kvöldávarpi sínu í fyrrakvöld að Úkraínumenn myndu áfram sinna aðgerðum í landamærahéruðum Rússlands og sagði það vera rétta stefnu. „Stríðið verður að snúa aftur þangað sem það kom,“ sagði Selenskí.
Úkraínskir herbloggarar sögðu í gær að Úkraínuher hefði nú á valdi sínu um 13 ferkílómetra í Belgorod-héraði. Þá eru Úkraínumenn enn með viðveru í Kúrsk-héraði, en Rússar hertóku í gær eitt af síðustu vígjum þeirra þar.