Eyjólfur Árni Rafnsson, Marta Jónsdóttir og Pétur Þ. Óskarsson segja verkefnið hafa verið skemmtilegt.
Eyjólfur Árni Rafnsson, Marta Jónsdóttir og Pétur Þ. Óskarsson segja verkefnið hafa verið skemmtilegt. — Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimssýningin í Osaka í Japan verður opnuð 13. apríl nk. og stendur til 13. október í haust. Yfirskrift sýningarinnar, sem fer fram á Yumeshima, 370 hektara manngerðri eyju í Osakaflóa, er í lauslegri íslenskri snörun „Hönnun framtíðarsamfélags fyrir tilveru okkar“ (e

Heimssýningin í Osaka í Japan verður opnuð 13. apríl nk. og stendur til 13. október í haust. Yfirskrift sýningarinnar, sem fer fram á Yumeshima, 370 hektara manngerðri eyju í Osakaflóa, er í lauslegri íslenskri snörun „Hönnun framtíðarsamfélags fyrir tilveru okkar“ (e. Designing Future Society for our Lives).

Ísland er meðal þátttökuþjóða og deilir 900 fermetra skála með hinum Norðurlandaþjóðunum.

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu sem hefur umsjón með þátttöku Íslands í góðu samstarfi við utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Japan, og Eyjólfur Árni Rafnsson, fulltrúi atvinnulífsins, og Marta Jónsdóttir, fulltrúi Utanríkisráðuneytisins, sem sitja í samnorrænni stjórn skálans, segja í samtali við ViðskiptaMoggann að verkefnið sé skemmtilegt.

„Við fórum til Japans í janúar sl. og kynntum okkur gang mála. Það er búið að byggja heilt þorp á eynni. Þeir koma til með að geta flutt sem samsvarar öllum Íslendingum til og frá svæðinu á 16 klukkustundum,“ segir Eyjólfur Árni um gestaflæðið.

Hann bætir við að allur efniviður í skálann sé japanskur og byggingarstarfsmenn sömuleiðis allir innlendir. „Þetta hefur vakið athygli fjölmiðla, hvað viðskipti Norðurlanda við heimamenn eru mikil. Málið skapar jákvæðni í umhverfinu.“

Pétur segir að búist sé við 28 milljón gestum á sýninguna.

Síðast í Sjanghaí

„Við tókum síðast þátt í Sjanghaí í Kína árið 2010. Þá vorum við í eigin skála sem er alltof dýrt og mikið fyrirtæki fyrir okkur,“ segir Pétur en Íslandsstofa sér nú um þátttökuna í fyrsta skipti.

Heimssýningin er haldin á fimm ára fresti. Síðast var hún í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en verður Ríad í Sádi-Arabíu árið 2030.

Pétur segir að eitt helsta markmiðið með þátttökunni sé að efla viðskiptasambönd í Japan. „Markmiðið er að auka útflutning til landsins, auka þekkingu á Norðurlöndum og styrkja samvinnu og tengsl Norðurlanda og Japans.“

Pétur segir að í skálanum verði m.a. fullbúinn ráðstefnusalur, fundarsalir og veitingasalur.

Um heimssýningar almennt segir Pétur aðspurður að mjög eftirsótt sé að halda sýningarnar sem draga aðallega að sér heimamenn og gesti frá nærliggjandi ríkjum.

„Japanir eru að leggja mikið í þetta,“ segir Eyjólfur. „Þeir vilja búa til tengsl og aukin utanríkisviðskipti.“

Eyjólfur segir að norræni skálinn hafi verið sá þriðji sem fékk fullnaðarsamþykki yfirvalda og hafi verið einn af örfáum sem kláruðust á undan áætlun. „Það er búið að tilnefna skálann til hönnunarverðlauna í hönnunartímaritinu Wallpaper.“

Endurreisa skálann

Marta segir aðspurð að mikil áhersla sé á sjálfbærni á svæðinu. Því sé þegar búið að ákveða að flytja skálann að sýningu lokinni og endurnýta hann annars staðar í Japan sem samfélagsmiðstöð.

Ýmislegt verður um að vera í skálanum. „Við munum flytja út hóp listamanna, tónlistarmenn og hönnuði. Við verðum einnig með „Taste of Iceland“-uppákomu í stíl við þá sem við höfum haldið í landkynningum í Bandaríkjunum síðastliðin 25 ár.“

Taste of Iceland er kynning á íslenskri menningu, mat og öllu því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða, segir Pétur. „Markmiðið er að vekja áhuga fjölmiðla á Íslandi.“

Hver norrænu þjóðanna verður með svokallaðan þjóðardag. Dagur Íslands verður 29. maí en þá mun Halla Tómasdóttir forseti Íslands heimsækja sýninguna.

„Það verða viðburðir allan þann dag, en Taste of Iceland byrjar þriðjudaginn 27. maí í Tókýó,“ segir Pétur.

Um listafólkið segir Pétur að horft hafi verið til listamanna með ákveðna fótfestu í Japan. „Einn tónlistarmannanna, Ásgeir Trausti, nýtur nokkurrar hylli í landinu. Það sama má segja um rithöfundinn og teiknarann Rán Flygenring. Það er til dæmis nýbúið að gefa út bók hennar um Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta á japönsku.“

Pétur bætir við að val á listamönnum hafi verið unnið með tónlistar-, bókmennta-, hönnunar- og myndlistarmiðstöð en sett verður upp myndlistarsýning með verkum átta íslenskra listamanna.

20 fyrirtæki koma

Um þátttöku íslenskra fyrirtækja í heimssýningunni segir Pétur að meiri áhugi hafi verið á verkefninu en hann átti von á. Tuttugu fyrirtæki eru búin að melda sig inn að hans sögn. „Við förum með viðskiptasendinefnd á sýninguna í september undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Sjötta maí verður svo sérstök áhersla á sprota- og orkufyrirtæki.“

Marta bendir á að þriðjungur af útflutningi Íslands til Asíu fari til Japans. „Landið er fjórða stærsta hagkerfi heims. Því eru mörg tækifæri þarna.“

Þá segir Marta að áhugi japanskra ferðamanna á Íslandi sé mikill. Ellefu þúsund japanskir ferðamenn hafi komið til Íslands á síðasta ári. „Þeir koma aðallega utan háannatímans, til að sjá norðurljósin.“

Áhugi á árangri Íslands

Fyrsta september verður norrænn jafnréttisdagur. „Það er mjög mikill áhugi á þeim degi og meiri en við bjuggumst við. Japanir hafa mikinn áhuga á árangri Íslendinga í jafnréttismálum en Ísland fer fyrir samnorrænum viðburði á jafnréttisdeginum,“ segir Pétur.

Eins og Pétur útskýrir styðja sex bakhjarlar við Íslandsstofu á heimssýningunni. „Það eru Ísey Skyr, sem er með samning við eitt stærsta matvælafyrirtækið í Japan, Reykjavíkurborg, flugfélagið Icelandair, ferðaþjónustufyrirtækið Bláa lónið, fisksölufyrirtækið Icelandic, dótturfélag Brims, sem er með talsverða starfsemi í Tókýó, og lækningavörufyrirtækið Kerecis.“

Marta segir að markmið Norðurlanda sé að skálinn endurspegli framtíðarsýn norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

„Það var mögnuð samstaða í stjórn skálans og öll norrænu löndin voru sammála um að gera þetta saman frekar en hvert í sínu lagi. Flest þeirra voru með sér skála á síðustu sýningu í Dúbaí og það var bæði flókið og kostnaðarsamt. Menn voru á því að þetta fyrirkomulag væri hagkvæmara og líklegt til að vekja meiri athygli. Þetta er stærsta samnorræna kynningarverkefnið á þessum áratug.“

Kostar 2,3 milljarða

Spurður um kostnað segja Eyjólfur og Pétur að heildarkostnaðaráætlun fyrir norræna skálann og rekstur hans á tímabilinu sem sýningin er opin hljóði upp á 2,3 milljarða íslenskra króna. Hlutur Íslands í þeim kostnaði er 78 milljónir króna. Heildarkostnaður Íslands með öllu er áætlaður 100 milljónir króna, en á móti koma tekjur frá bakhjörlum upp á 45 milljónir. „Byggingin sjálf kostar um 950 milljónir.“

Pétur segir að lokum að ekki þurfi marga ferðamenn eða aukin viðskipti til að skila kostnaði Íslands til baka.