Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Félag atvinnurekenda (FA) segir það ekki rétt hjá Ríkisendurskoðun að félagið hafi ekki rökstutt gagnrýni sína á stofnunina vegna málefna Íslandspósts. Þvert á móti hafi félagið sent stofnuninni ítarlega gagnrýni.
Sagt var frá erindi Félags atvinnurekenda til innviðaráðuneytisins í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag, en þar var því haldið fram að Ríkisendurskoðun hefði brugðist í eftirliti sínu með Íslandspósti. Þá hefði stofnunin verið vanhæf til að gera úttekt á Póstinum í ljósi starfa sinna fyrir fyrirtækið.
Ásamt innviðaráðuneytinu fengu fleiri aðilar í stjórnkerfiinu afrit af þessu erindi félagsins.
Áður hafði Morgunblaðið sagt frá því á laugardaginn var að Félag atvinnurekenda teldi Byggðastofnun hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt með starfsemi Póstsins, en Byggðastofnun tók við þessu eftirlitshlutverki af Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), sem áður hafði eftirlit með starfsemi Póstsins.
Opinberað vanhæfni sína
„Að mati Félags atvinnurekenda hefur Ríkisendurskoðun einnig brugðist hlutverki sínu í þessum málum og um leið opinberað vanhæfni sína til að leggja mat á starfsemi Póstsins,“ sagði í frétt Morgunblaðsins sl. mánudag. „Segja má að Ríkisendurskoðun hafi skautað fram hjá öllum meginatriðum sem fram komu í skýrslubeiðni Alþingis. Svo virðist sem niðurstöður frumathugunar Ríkisendurskoðunar séu settar fram í þeim tilgangi að villa um fyrir Alþingi í viðleitni þess til að hafa eftirlit með meðferð almannafjár,“ sagði þar jafnframt.
Nánar var fjallað um gagnrýni FA á Ríkisendurskoðun í Morgunblaðinu sl. mánudag og svaraði stofnunin þeirri gagnrýni með tilkynningu sem sagt var frá á mbl.is í gær.
Tilhæfulausar aðdróttanir
„Ríkisendurskoðun hafnar með öllu tilhæfulausum aðdróttunum Félags atvinnurekenda (FA) um vanhæfi hvað varðar málefni Íslandspósts ohf. og að embættið hafi með einhverjum hætti villt um fyrir Alþingi þegar það birti, í marsmánuði 2024, niðurstöður frumathugunar á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu nr. 98/2019.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins þann 7. apríl 2025 hefur Félag atvinnurekenda nýverið sent erindi til innviðaráðuneytisins þar sem þessum staðhæfingum er haldið fram. Félagið hefur ekki sent Ríkisendurskoðun afrit af bréfinu og á engum tímapunkti verið í samskiptum við embættið vegna þessara aðdróttana. Er hér um að ræða endurtekið efni af hálfu félagsins eftir birtingu frumathugunarinnar án þess að það hafi með nokkrum hætti leitast við að rökstyðja endurteknar dylgjur sínar eða afla skýringa sem varða hlutverk eða stjórnsýslu Ríkisendurskoðunar,“ sagði þar orðrétt.
„Niðurstöður frumathugunar Ríkisendurskoðunar á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu nr. 98/2019 eru skýrar og standa óhaggaðar. Eins og fram kemur í niðurstöðum frumathugunarinnar lutu margar þær spurningar sem fram komu í úttektarbeiðni Alþingis ekki að lögbundnu hlutverki og verksviði Ríkisendurskoðunar.
Höfðu þegar fengið úrslausn
Það er t.d. ekki hlutverk embættisins að túlka og skýra lög. Jafnframt lutu margar spurningar að málum sem þegar höfðu fengið úrlausn hjá tilskildum eftirlitsaðilum en Ríkisendurskoðun endurskoðar ekki þær ákvarðanir. Engu að síður leitaðist Ríkisendurskoðun við að svara spurningum Alþingis alfarið í samræmi við fyrirliggjandi staðreyndir.
Það er alvarlegt að saka ríkisendurskoðanda um að villa um fyrir Alþingi, en hann er trúnaðarmaður þess að lögum og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins.“
Þegar þetta svar Ríkisendurskoðunar hafði verið birt sendi Félag atvinnurekenda frá sér yfirlýsingu sem rituð var af Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, sem einnig var sagt frá á mbl.is.
Þar áréttar Ólafur að félagið hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri við Ríkisendurskoðun, þvert á það sem stofnunin haldi fram:
„Eftir að „frumathugun“ Ríkisendurskoðunar, sem unnin var í framhaldi af skýrslubeiðni Alþingis, var kynnt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins 14. marz í fyrra, sendi FA nefndinni erindi, þar sem í fyrsta lagi var vakin athygli á vanhæfi Ríkisendurskoðunar til að sinna þeirri beiðni, þar sem stofnunin var ráðgjafi Íslandspósts við að stilla upp tölum úr rekstri fyrirtækisins til að fá sem hæst framlög úr ríkissjóði. Beiðni þingsins sneri einmitt meðal annars að því hvort framlög skattgreiðenda til Íslandspósts væru rétt reiknuð.
Minnisblað fylgdi líka
Í öðru lagi fylgdi erindi FA minnisblað, þar sem farið er með ýtarlegum hætti yfir frumathugun Ríkisendurskoðunar og bent á fjölmörg atriði þar sem stofnunin svarar ekki spurningum þingsins, þótt ýtarlegar upplýsingar liggi fyrir sem gera henni það kleift. Nefndinni var enn fremur sent minnisblað, sem FA tók saman fyrir Ríkisendurskoðun og innihélt upplýsingar varðandi svör við þeim spurningum sem þingið lagði fram í skýrslubeiðni sinni. Hlekkir eru á erindið og minnisblöðin hér að neðan. Þetta ætti að teljast sæmilega „málefnaleg og vel rökstudd“ gagnrýni, svo vísað sé til orðalags í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar,“ skrifar Ólafur, en með fréttinni á mbl.is fylgdu hlekkir á skjöl sem FA hefur sent til þess bærum aðilum, þar á meðal Ríkisendurskoðun.