Valur og Afturelding tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik með góðum útisigrum í átta liða úrslitum. Liðin tvö munu einmitt mætast í undanúrslitum þar sem áætlað er að fyrsti leikur einvígisins fari fram á Hlíðarenda 16. apríl.
Valur heimsótti Stjörnuna í Garðabæ og hafði betur, 32:28, eftir framlengingu. Valur vann einvígið þar með 2:0. Í undanúrslitum þarf hins vegar að vinna þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitum
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í marki Vals og varði 19 skot. Var hann með 40 prósenta markvörslu. Markahæstur hjá Val var Bjarni í Selvindi með sex mörk.
Sigurður Dan Óskarsson fór sömuleiðis á kostum í marki Stjörnunnar og varði 16 skot. Tandri Már Konráðsson skoraði sjö mörk.
Afturelding gerði frábæra ferð til Vestmannaeyja, lagði þar ÍBV 27:25 og vann einvígið sömuleiðis 2:0.
Einar Baldvin Baldvinsson fór hamförum í marki Aftureldingar og varði 19 skot. Var hann með 47,5 prósenta markvörslu. Blær Hinriksson fór með himinskautum í sóknarleiknum, en hann skoraði 11 mörk og gaf tvær stoðsendingar.
Hjá ÍBV átti Petar Jokanovic sömuleiðis stórleik er hann varði 18 skot og var með 41 prósents markvörslu. Dagur Arnarsson var markahæstur hjá ÍBV með níu mörk auk þess sem hann gaf sex stoðsendingar.