Akureyri Vilji er til að byggja upp borgarinnviði á tveimur stöðum.
Akureyri Vilji er til að byggja upp borgarinnviði á tveimur stöðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar frá Eyjólfi Ármannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um borgarstefnu. Hún felur það í sér að stuðlað verði að þróun og eflingu tveggja borgarsvæða á Íslandi, annars vegar með því að styrkja…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar frá Eyjólfi Ármannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um borgarstefnu. Hún felur það í sér að stuðlað verði að þróun og eflingu tveggja borgarsvæða á Íslandi, annars vegar með því að styrkja Reykjavík, höfuðborgarsvæðið og hið virka svæði þess og hins vegar að skilgreina Akureyri sem svæðisborg og efla hana sem slíka.

Í tillögunni kemur m.a. fram að með samþykkt hennar verði höfuðborgin viðurkennd sem leiðandi afl og mikilvægi hennar í byggðastefnu stjórnvalda skýrt. Á sama tíma verði sérstaða og hlutverk svæðisborgarinnar Akureyrar viðurkennt ásamt mikilvægi hennar fyrir alþjóðlega samkeppnishæfni landsins og sjálfbæra þróun, búsetu og lífsgæði á Norðurlandi öllu og austur um land.

„Þetta skiptir miklu máli fyrir okkur og ekki bara okkur heldur landið allt,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar í samtali við Morgunblaðið. Hún var nýkomin af fundi umhverfis- og samgöngunefndar þingsins þegar blaðið náði af henni tali, en þar var umrædd þingsályktunartillaga til umræðu.

„Þetta er ekki bara stefnumörkun fyrir Akureyri heldur líka fyrir höfuðborgina, en við erum að horfa á skilgreind verkefni og hlutverk fyrir þessi tvö borgarsvæði,“ segir hún og nefnir að aðgerðaáætlun verði að fylgja þessu verkefni, sem ekki sé enn komin fram. „Við höfum kallað eftir henni,“ segir Ásthildur.

„Við erum með fjölmörg verkefni og skyldur og vonandi yrði hægt að formfesta þau betur,“ segir hún og leggur áherslu á að verkefnið verði klárað.

Í umsögn Akureyrarbæjar um tillöguna kemur m.a. fram að bærinn fagni því að fram séu komin drög að borgarstefnu.

Segir þar m.a. að drögin feli í sér fjölmarga þætti sem bæjarstjórn Akureyrarbæjar telji mikilvæga í þróun og eflingu, ekki einungis fyrir borgarsvæðin tvö heldur einnig m.t.t. byggðamála landsins í heild. Máli skipti að efla samkeppnishæfni landsins alls og til þess að það raungerist þurfi að horfa til margra þátta, en mikilvægt sé að borgarstefna leiði til betri þjónustu við íbúa og styðji að auki við þjóðaröryggi með því að byggja upp borgarinnviði á tveimur ólíkum stöðum á landinu. Borgarsvæðin tvö deili að hluta til sömu kröftum sem einkenni borgarsamfélög og séu um margt lík en einnig ólík, sem sé kostur, þar sem vilji standi til að byggja upp ólíkar en sterkar borgir, sem hafi hvor um sig sína styrkleika og aðdráttarafl.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson