Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Reykjavíkurborg hefur fallið frá hugmyndum um byggingu 100 íbúða við tjörnina í Seljahverfi, en Morgunblaðið sagði í gær frá hugmyndum meirihlutans um byggingu 1.700 íbúða í Breiðholti á alls 16 þéttingarreitum. Einn þessara reita er svæðið í kringum tjörnina í miðju Seljahverfi þar sem gert var ráð fyrir 100 íbúðum samkvæmt hverfisskipulagi Breiðholts, en 75 íbúðum í töflu sem borgarstjóri kynnti borgarfulltrúum í lok síðasta mánaðar.
Rangársel verði borgargata
Í framhaldi af frétt blaðsins í gær var óskað eftir frekari gögnum frá Reykjavíkurborg um byggingaráformin við tjörnina í Seljahverfi. Í svari borgarinnar kom fram að engin áformuð uppbygging væri núna á þessum reit.
Gögnin sem stuðst var við í vinnslu fréttarinnar eru á kortasjá Reykjavíkurborgar þar sem búið er að tilgreina þéttingarsvæði í borgarlandinu.
Einnig var stuðst við heimildir úr hverfisskipulagi Breiðholts sem gefið var út í maí 2021. Þar kemur fram að lagt sé til að umrætt svæði verði þétt með allt að 100 íbúðum þar sem unnið verði sérstakt deiliskipulag með áherslu á borgargötu við Rangársel og Hólmasel. Íbúðir verði aðallega á efri hæðum og atvinnustarfsemi á fyrstu hæð. Þar verði gert ráð fyrir fjölbreyttri þjónustu, eins og kaffihúsi og verslun.
Undanhald þéttingarstefnu
Helgi Áss Grétarsson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að það séu bæði góðar og slæmar fréttir að hætt sé við uppbyggingu við tjörnina í Rangárseli. Hann var frummælandi á borgarstjórnarfundi í gær um þéttingu byggðar í Breiðholti.
„Góðu fréttirnar eru að vinstri meirihlutinn sjái að sér og hætti við stórfellda uppbyggingu á vinsælu útivistarsvæði í miðju hverfis. Ég leyfi mér að vona að undanhald þéttingarstefnunnar sé hafið. Slæmu fréttirnar í þessu er hvernig stjórnsýslan í borginni fer fram.“
Þar vísar Helgi Áss til þess að í lok mars hafi borgarstjóri kynnt húsnæðisuppbygginu borgarinnar þar sem gert var ráð fyrir 75 íbúðum á þessum reit og á kortavef borgarinnar sé gert ráð fyrir 100 íbúðum á reitnum. Hann segir að taka verði það til frekari umræðu að stefnumótandi ákvarðanir af hálfu meirihlutans virðist vera teknar án umræðu á vettvangi borgarstjórnar.
„Þetta var kannski aprílgabb af hálfu meirihlutans? En að öllu gamni slepptu er það mjög alvarlegt mál ef borgin veitir villandi upplýsingar um húsnæðisuppbyggingu. Hvað er þá að marka aðrar upplýsingar sem við höfum undir höndum?“ spyr Helgi Áss.