Sigur Rósa Björk Pétursdóttir og Agnes Jónudóttir, leikmenn Hauka, fagna naumum og nauðsynlegum sigri á Grindavík í Ólafssal í gærkvöldi.
Sigur Rósa Björk Pétursdóttir og Agnes Jónudóttir, leikmenn Hauka, fagna naumum og nauðsynlegum sigri á Grindavík í Ólafssal í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
Ríkjandi Íslandsmeistarar Keflavíkur tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik með öruggum sigri á Tindastóli, 88:58, í þriðja leik liðanna í Keflavík. Keflavík vann þar með einvígið 3:0 og sópaði nýliðum Stólanna í sumarfrí

Ríkjandi Íslandsmeistarar Keflavíkur tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik með öruggum sigri á Tindastóli, 88:58, í þriðja leik liðanna í Keflavík.

Keflavík vann þar með einvígið 3:0 og sópaði nýliðum Stólanna í sumarfrí.

Jasmine Dickey fór fyrir Keflavík er hún skoraði 26 stig og tók 16 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir var með 14 stig og níu fráköst.

Hjá Tindastóli var Randi Brown stigahæst með 14 stig. Edyta Ewa Falenczyk bætti við níu stigum og 14 fráköstum.

Deildarmeistarar Hauka náðu þá að halda sér á lífi í einvígi sínu við Grindavík með því að vinna þriðja leik liðanna, 76:73, í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Grindavík var búið að vinna fyrstu tvo leikina og leiðir því 2:1 í einvíginu. Liðin mætast í fjórða leik á eiginlegum heimavelli Grindavíkur í Smáranum í Kópavogi á laugardag þar sem Grindavík getur tryggt sér sæti í undanúrslitum og Haukar freista þess að knýja fram oddaleik á heimavelli sínum.

Hjá Haukum var fyrirliðinn Þóra Kristín Jónsdóttir stigahæst með 18 stig og níu fráköst. Lore Devos bætti við 14 stigum og 19 fráköstum.

Mariana Duran var stigahæst í leiknum með 22 stig fyrir Grindavík auk þess að taka átta fráköst og gefa sex stoðsendingar. Fyrirliðinn Ólöf Rún Óladóttir var þá með 17 stig.