Eldgos Síðasta eldgos á Reykjanesskaga hófst og endaði 1. apríl.
Eldgos Síðasta eldgos á Reykjanesskaga hófst og endaði 1. apríl. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Landris undir Svartsengi er mun hraðara núna en eftir fyrri gos á Sundhnúkagígaröðinni. Hraðinn er svipaður og fyrir fyrsta gosið í desember 2023 og í byrjun árs 2024. Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

solrun@mbl.is

Landris undir Svartsengi er mun hraðara núna en eftir fyrri gos á Sundhnúkagígaröðinni. Hraðinn er svipaður og fyrir fyrsta gosið í desember 2023 og í byrjun árs 2024.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

„Við erum að sjá mjög mikinn hraða núna og við verðum að sjá hvernig það þróast og hvort það hægi á sér. Það hefur alltaf gert það, byrjað mjög hratt og hægir svo á sér,” segir Benedikt en segir hraðann þó vera töluvert meiri nú en áður.

Bendir hann á að síðasti atburður hafi verið sérlega stór þó svo að gosið hafi varað stutt, og þá geti hraðamunurinn verið meiri.

Síðasta gos var það áttunda í röðinni á Sundhnúkagígröðinni frá því að goshrinan þar hófst í desember 2023. Það hófst á tíunda tímanum á mánudaginn í síðustu viku og síðdegis sama dag sást nánast engin virkni í gossprungunni.

Kvikuhólfið ekki lengi að fyllast

„Flæðið er miklu hraðara en eftir síðustu gos og er sambærilegt því sem var í byrjun árs 2024,” segir Benedikt.

Segir hann að á þessum hraða taki það ekki langan tíma fyrir kvikuhólfið að fyllast.

„Ef þetta heldur áfram á þessum hraða er þetta bara örstutt tímabil þar sem það nær að fyllast, en ef það hægist á þessu getur það verið miklu lengra.”

Óvissan sé hins vegar það mikil að langskynsemlegast sé að bíða og sjá hver þróunin verði næstu viku eða vikur áður en farið sé að túlka hvað þetta þýði og teikna upp sviðsmyndir.

Gæti verið stutt í næsta gos

Segir hann að ef kvikusöfnunin haldi áfram á svipuðum hraða gæti verið stutt í næsta gos. Hann segir þó ólíklegt að svo verði heldur muni frekar fara að hægja á flæðinu.

„Það er afsakaplega ólíklegt að þetta haldi áfram á þessum hraða, þannig hefur það ekki hagað sér,“ segir hann og heldur áfram:

„Það sem er líklegast að sé í gangi er einfaldlega að þegar þrýstingurinn lækkar er minna viðnám við innflæðinu. Þess vegna verður hraðara innflæði, svo fyllist saman á tankinn og þá verður erfiðara að dæla inn í hann. Þá er meiri þrýstingur og jarðskorpan fer að halda betur við. Það skýrir af hverju það byrjar hratt og af hverju það hægir á sér.

Höf.: Sólrún Lilja Ragnarsdóttir