Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Viktor Ellingsson, sem stundar doktorsnám í efnafræði við Imperial College í London, fékk hæsta styrk sem skólinn veitir, svokallaðan forsetastyrk fyrir doktorsnámið. „Það er gífurleg samkeppni um að fá þennan styrk, enda gjörbreytir það allri stöðunni fyrir nemandann, því við fáum bæði laun og öll skólagjöld eru borguð, en þau eru dýr í Bretlandi,“ segir Viktor, sem kveðst afar þakklátur fyrir að hafa fengið styrkinn.
Viktor segist alltaf hafa verið heillaður af efnafræði. „Efnafræðin gat útskýrt svo mikið út frá frumhugtökum, atómunum, grunnbyggingareiningum sýnilega heimsins, og það lá beint við að læra hana eftir menntaskólann.“
Hann lauk grunnnámi í efnafræði við Háskóla Íslands. „Um leið og ég byrjaði í náminu ákvað ég að reyna að komast inn í góðan skóla og lagði áherslu á að standa mig vel, fá góðar einkunnir, og liður í því var að ég sótti um styrk í HÍ til að komast í sumarnám í Stanford-háskóla og fékk styrk til þess sumarið 2019.“
Viktor útskrifaðist svo með fyrsta flokks einkunn. „Ég var með ágætiseinkunn úr Háskóla Íslands og fékk styrk úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti árið 2021 fyrir námsárangur.“
Bandaríkin og Bretland
Eftir útskrift frá HÍ ákvað hann að fara í framhaldsnám í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara (UCSB), sem hann segir að hafi verið góður tími, en þar var hann í eitt ár að læra skammtafræði.
Þótt Viktor hafi kunnað að mörgu leyti mjög vel við sig vestanhafs ákvað hann að stíga næsta skref í Bretlandi. „Ég hóf doktorsnám í efnisfræði við Oxford-háskóla þar sem ég lærði á notkun rafeindasmásjár í eitt ár, áður en ég flutti mig yfir til Imperial-háskóla þar sem ég er að læra að beita reikniefnafræði og gervigreind til að greina efniseiginleika,“ segir Viktor.
Viktor segir að mikill menningarmunur sé á Bandaríkjunum og Bretlandi þó að allir skólarnir hafi verið mjög góðir. „Í Bandaríkjunum ertu eiginlega að allan daginn og fram á kvöld, en í Bretlandi er meira jafnvægi á milli starfstíma og frítíma,“ segir hann og bætir við að hann telji að breska aðferðin skili meiri árangri því fókusinn sé betri í vinnutímanum.
„Þegar ég var að læra í HÍ fjallaði BS-ritgerðin mín um að rannsaka efnahvata til myndunar ammoníaks, sem er mikilvægur áburður. Þetta var sjálfbær vinkill og tengist því að ég valdi efnafræðina. Ég hef alltaf viljað leggja mitt af mörkum til að gera heiminn meira sjálfbæran og minnka kolefnissporið. Í Oxford var ég að vinna með rafhlöður en í Imperial er ég að skoða efnahvata og einnig rafhlöður. Mér finnst mjög mikilvægt að vinna að verkefnum sem eru bæði spennandi út frá fræðilegu sjónarhorni og praktísku.“
Verkefnin ráða för
Viktor segist vera mjög ánægður í Imperial College og segir námið mjög skemmtilegt. Þegar hann er spurður hvort hann muni snúa til Íslands eftir doktorsgráðuna segir hann það óljóst.
„Það opnast nýr heimur eftir þessa gráðu, en sérhæfingin er líka orðin mikil. Í rauninni snýst það minna um hvar maður vill vera og meira um hvar vinnan er sem maður vill vinna við.“
Hann segir að lokum að það sem hann sé samt viss um sé að hann vilji að starfið sem hann vinni skipti máli. „Kannski hefði ég bara átt að fara í pólitík,“ segir hann og hlær.