Narfi segir að margt megi bæta í regluverki fyrirtækja hér á landi en staða landsins sé að mörgu leyti öfundsverð og tækifærin óþrjótandi.
Narfi segir að margt megi bæta í regluverki fyrirtækja hér á landi en staða landsins sé að mörgu leyti öfundsverð og tækifærin óþrjótandi. — Morgunblaðið/Eyþór
Narfi Snorrason hefur síðastliðin tíu ár starfað hjá Marel við stefnumótun og þróun. Narfi segist hafa komið að 15 samrunum og stefnumótandi verkefnum, síðast samruna JBT og Marels. Hann tekur við sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar hjá Kviku banka þann 1

Narfi Snorrason hefur síðastliðin tíu ár starfað hjá Marel við stefnumótun og þróun. Narfi segist hafa komið að 15 samrunum og stefnumótandi verkefnum, síðast samruna JBT og Marels. Hann tekur við sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar hjá Kviku banka þann 1. maí næstkomandi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum um þessar mundir?

Eftir tíu frábær ár hjá JBT Marel hlakka ég til að takast á við nýtt hlutverk hjá Kviku. Staða Kviku á íslenskum fjármálamarkaði er einstök, þar sem bankinn veitir alhliða þjónustu innan eignastýringar-, viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi auk þess að vera með starfsemi í Bretlandi.

Bankinn stendur á tímamótum þar sem salan á TM er frágengin og þar með skapast fjölmörg tækifæri til að sækja fram á nýja markaði og stækka lánabækur félagsins. Fyrirtækjaráðgjöfin gegnir lykilhlutverki í mikilvægum verkefnum fyrir viðskiptavini bankans, svo sem varðandi yfirtökur og samruna og umsjón með hlutafjár- og skuldabréfaútboðum ásamt skráningum í Kauphöll.

Þó að margt megi bæta í lagaumhverfi og regluverki fyrir íslensk fyrirtæki er staða landsins öfundsverð á flesta mælikvarða og tækifærin óþrjótandi. Til þess að nýta tækifærin er þörf á fjárfestingum og þar getur fyrirtækjaráðgjöf Kviku orðið viðskiptavinum sínum að liði.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég hef verið afar heppinn með samstarfsfólk í gegnum tíðina og unnið með fjölmörgum einstaklingum sem hafa kennt mér mikið og veitt innblástur. Jafnframt hef ég ætíð starfað við hluti sem eru nálægt áhugasviðinu og hafa því vinnudagarnir liðið hratt. Er svo lánsamur að eiga góða að og finnst fátt skemmtilegra en að hitta fjölskyldu og vini yfir góðri máltíð.

Það er líka mikilvægt að endurhlaða batteríin með reglulegu millibili og þar sæki ég orku frá íslenskri náttúru og útiveru og finnst hvergi betra að vera en á sveitabæ fjölskyldunnar á Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Eftir að hafa lifað og hrærst í alþjóðaviðskiptum undanfarið verður kærkomið að snúa aftur í íslenskt viðskiptalíf og hjálpa íslenskum fyrirtækjum að vaxa og dafna. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hefur á að skipa einvalaliði sérfræðinga í fjármögnun, kaupum og sölu fyrirtækja og skráningum á verðbréfamarkað og ég hlakka mikið til þess að hitta fyrirtæki og fjárfesta.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

JBT Marel sækir reglulega alþjóðlegar ráðstefnur og sýningar fyrir matvælageirann. Það hefur verið afar skemmtilegt og lærdómsríkt að taka þátt í sýningum eins og IFFA í Frankfurt, sjávarútvegssýningunni í Barcelona og fleiri skemmtilegum viðburðum þar sem kollegar koma saman, hitta viðskiptavini og kynna sér helstu nýjungar á markaðinum.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Reyni að fylgjast með tækniþróun þó að tæknikvíðinn sé aðeins farinn að láta á sér kræla með hækkandi aldri. Hef t.d. haft gaman af því undanfarið að gera tilraunir með notkun gervigreindar við úrlausn á ýmiss konar verkefnum og verður afar forvitnilegt að sjá hvert sú tækni mun leiða okkur á næstu árum. Að ýmsu er að huga í þeim efnum og ómögulegt að segja hvernig sú tæknibylting muni enda.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Íslenskum fjármálafyrirtækjum er sniðinn nokkuð þröngur stakkur enda er regluverkið sem við þurfum að hlíta hannað fyrir evrópskan markað þar sem bankar eru margfalt stærri en á Íslandi.

Þessu fylgir mikill kostnaður sem leiðir óhjákvæmilega til verri kjara fyrir viðskiptavini. Það er þó fyrirtækjanna að aðlaga sig því umhverfi sem löggjafinn setur þeim og þrátt fyrir allt hefur gengið vel að halda uppi öflugum fjármálamarkaði sem veitir fyrirtækjum og einstaklingum þjónustu svo þau geti vaxið og dafnað.

Það væri hins vegar hægt að leysa úr læðingi enn meiri kraft í íslensku atvinnulífi með því að einfalda stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari þannig að hægt væri að koma í gegn nauðsynlegum fjárfestingum og umbótaverkefnum.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Það er löngu orðið tímabært að laga regluverkið að íslenskum veruleika fámennrar þjóðar, þannig að við getum nýtt styrkleika okkar sem felast einkum í aðlögunarhæfni og nýta tækifærin þegar þau bjóðast.

Það er t.d. margt í lögum um fjármálafyrirtæki sem mætti endurskoða og eins mætti sníða samkeppnislögin að íslenskum markaði svo hægt sé að samnýta innviði, neytendum til hagsbóta.

Hin hliðin

Menntun: Verslunarskóli Íslands, stúdentspróf, 2002. Háskóli Íslands, B.Sc. í rafmagnsverkfræði, 2005. Danmarks Tekniske Universitet, M.Sc. í orkuverkfræði, 2007. Háskóli Íslands, MBA, 2015.

Starfsferill: Ørsted, sérfræðingur í þróunarverkefnum, 2006-2007. Glitnir í Kaupmannahöfn, sérfræðingur í Leveraged Finance, 2007-2008. Nordic M&A, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf, 2008-2010. Íslandsbanki, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf, 2010-2015. Marel og JBT Marel, forstöðumaður stefnumótunar og þróunar, 2015-2025. Kvika, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar 2025.

Áhugamál: Útivist, hlaup, matargerð, ferðalög og samvera með fjölskyldu og vinum.

Fjölskylduhagir: Giftur Svövu Þorleifsdóttur, eigum þrjú börn á aldrinum 7-14 ára.