Guðrún Ellertsdóttir fæddist í Reykjavík 15. nóvember 1930. Hún lést á Hrafnistu í Laugarási 12. mars 2025.

Guðrún var dóttir hjónanna Ellerts Kristins Magnússonar stýrimanns, f. 1. maí 1897 á Syðri-Sýrlæk, Árnessýslu, d. 8. febrúar 1974, og Guðríðar Þorkelsdóttur húsfreyju, f. 11. nóvember 1900 í Reykjavík, d. 29. október 1987. Guðrún var næstelst fimm systkina, Elín elst, Ágeir, Þorkell Steinar og yngst Magný, sem lifir systkini sín.

Þann 13. apríl 1957, í Hallgrímskirkju, giftist hún Guðjóni Guðmundssyni skurðlækni, f. 7. júní 1931 í Reykjavík, d. 28. febrúar 2023 á Hrafnistu í Laugarási. Voru þau hjón í nær 66 ár.

Börn Guðjóns og Guðrúnar eru: 1) Kristinn Ellert raflagna- og lýsingarhönnuður í Reykjavík, f. 16. nóvember 1957 í Reykjavík. Eiginkona hans er Rikka Mýrdal, f. 1957. Dætur þeirra eru Guðrún Huld, f. 1975, og Íris Mýrdal, f. 1987. Börn Guðrúnar Huldar eru Kristinn, f. 1996, Elísabet Rut, f. 2002, Rebekka Sif, f. 2005, og Emilía Rikka, f. 2011. Börn Kristins eru Ársæll Örn, f. 2021, og Rikka Katrín, f. 2024. Sonur Írisar Mýrdal er Kristinn Mýrdal, f. 2019. 2) Gunnar Þór rafvirki í Danmörku, f. 11. febrúar 1963 í Svíþjóð. Eiginkona hans er Anne-Mette Glerup, f. 1969. Börn þeirra eru Mathilde, f. 1999, Alma Þórunn, f. 2004, og Valdemar Örn, f. 2008. 3) Guðmundur Örn aðalvarðstjóri hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, f. 11. mars 1965. Eiginkona hans er Herdís Gunnardóttir, f. 1968. Synir þeirra eru Matthías, f. 1996, Davíð, f. 2000, og Markús, f. 2006. Dóttir Matthíasar er Emma Sóley, f. 2024.

Guðrún ólst upp á heimili fjölskyldunnar á Snorrabraut 73. Hún gekk í Ísaksskóla og Austurbæjarskóla og lauk grunnskólanámi. Hún hélt seinna til Noregs og var einn vetur á Húsmæðraskóla. Hún lagði stund á píanónám í Svíþjóð og lauk síðar einsöngsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar.

Guðrún starfaði m.a. á unglingsárum á vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og síðar á leikskólanum Drafnarborg. Eftir að þau Guðjón gengu í hjónaband bjuggu þau sér heimili í Reykjavík, en frá 1960-1961 bjuggu þau á Vopnafirði þar sem Guðjón var settur héraðslæknir. Árið 1961 flytja þau búferlum til Svíþjóðar, ásamt elsta syni sínum Kristni Ellerti, þar sem Guðjón hóf sérfræðinám í skurðlækningum, fyrst í Lindesberg og síðan í Örebro. Synir þeirra Gunnar Þór og Guðmundur Örn fæddust báðir í Lindesberg. Árið 1971 flytjast þau aftur heim til Íslands þar sem Guðjón tók við yfirlæknisstöðu á Sjúkrahúsinu á Akranesi. Þau reistu sér myndarlegt og fallegt heimili í Furugrund 26 og bjuggu þar allt til ársins 2016, er þau fluttu í Boðaþing í Kópavogi og þaðan á Hrafnistu í Laugarási árið 2022.

Guðrún hafði bjarta og hljómmikla sópranrödd. Hún söng m.a. í kirkjukór Akraneskirkju yfir 30 ára skeið, m.a. undir stjórn Hauks Guðlaugssonar. Var hann einn aðalhvatamaður þess að Guðrún lauk einsöngsprófi.

Guðrún var frá æskuárum virk í starfi KFUK í Reykjavík og síðar virkur leiðtogi í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK á Akranesi.

Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Dúna amma var amma af lífi og sál.

Hún og Guðjón afi voru svo lánsöm að eignast 16 barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabörn. Ég er þriðji í þeim hópi og það er mitt lán því ég fékk að kynnast þeim snemma og þekkja þau lengi. Í seinni tíð þótti ömmu gaman að rifja upp atvik sem ég man tæpast eftir. Þá var ég þriggja eða fjögurra ára og tók ég í höndina á henni og hélt fast því ég var smeykur við hóp eldri krakka. Þetta rifjaði hún alltaf upp með bros á vör þegar ég tók í höndina á henni á fullorðinsárum. Henni þótti líka gaman að rifja upp þann tíma þegar hún gat tekið mann á háhest þegar stuttir fætur gáfu sig eftir langan dag á róluvellinum við Furugrund. Ég er sannarlega heppinn fyrir það að hafa átt ömmu sem hana og það á meðan hún var hraust kona.

Í þrjú ár tók ég að mér æskulýðsstarf KFUM og KFUK og Akraneskirkju. Það var eftir að amma og afi fluttu frá Akranesi og fyrst um sinn var skrýtið að vera í bænum án þess að amma og afi væru þar. En maður fékk góðan fiðring í magann einu sinni í viku þegar maður keyrði af stað til Akraness. Í því starfi hitti ég margt fólk sem þekkti ömmu og afa og mér þótti alltaf vænt um að heyra sögur af þeim sem ég hafði ekki heyrt og hvað fólk talaði fallega um þau. Af ömmu höfðu þau flest orð á því hvað hún var alltaf glæsileg og gestrisin. Það var hún sannarlega. Undir það síðasta, þegar maður kom í heimsókn á Hrafnistu, þurfti maður stundum að kynna sig svo hún mundi hver maður væri. En aldrei gleymdi hún að bjóða manni eitthvað gott að maula, súkkulaði eða kex.

Hlýjustu minningarnar mínar af ömmu eru sennilega frá eldhúsborðinu í Furugrund á Akranesi. Þar sat maður og skóflaði í sig hrísmjólk, jafnvel tveimur, og spilaði svarta-pétur við ömmu. Eftir hádegismat skar amma alltaf niður rauð epli og gaf okkur og afa. Það var manni gott að þiggja eplin því þeim fylgdu súkkulaðirúsínur frá Góu – að sjálfsögðu kaldar úr ísskápnum.

Það var heiður að fá að taka þátt í útförinni sem sr. Irma annaðist svo vel, með bæn og ritningarlestri. Ég vona og held að ömmu hefði þótt vænt um það enda var hún mikil kirkjukona. Hún átti sína hlýju og sterku trú á Jesú Krist. Trú sem hún miðlaði til mín með söng, bænaversum og ómælanlegum kærleika.

Hvíl í friði, elsku amma, Guð blessi minningu þína.

Matthías Guðmundsson.

Nú er enn einn stólpinn fallinn í stórfjölskyldunni. Elskuleg föðursystir okkar Guðrún Ellertsdóttir eða Dúna eins og við kölluðum hana ætíð er ekki lengur á meðal okkar. Það er mikil eftirsjá að henni og minningarnar sem við eigum um hana koma hver af annarri. Hún var síðast með stórfjölskyldunni í árlegu jólaboði í byrjun janúar síðastliðins. Þá lék hún á als oddi og þegar gengið var í kringum jólatréð söng hún af hjartans lyst hvert lagið á fætur öðru. Hún naut þess að vera í kringum þau sem henni þótti vænt um. Steinunn, sem búsett er í Svíþjóð með fjölskyldu sinni, átti í nánu sambandi við Dúnu og á milli þeirra var djúp og falleg tenging sem þær voru báðar þakklátar fyrir.

Dúna frænka var mikil fjölskyldukona, einstök heim að sækja og við vorum alltaf velkomin á heimili hennar og Nonna. Á Svíþjóðarárunum var það í Lindesberg og Örebro en síðar þegar til Íslands var komið var það Akranes. Heimilið bar smekkvísi hennar vitni, allt svo fallegt og fínt og þar sást ekki rykkorn. Hún dúkaði upp veisluborðin eins og ekkert væri og passaði upp á að enginn færi svangur úr hennar húsum. Þegar verið var að leggja í ferðalög norður var ósjaldan komið við hjá Dúnu og alltaf var jafn gaman.

Við systur munum eins og gerst hafi í gær þegar við lagðar af stað í ferðalag með foreldrum okkar lentum í óhappi rétt utan við Akranes. Steinkast frá bíl sem kom á móti okkur varð til þess að framrúðan í fjölskyldubílnum brotnaði og fór í þúsund mola. Þá var gott að eiga Dúnu frænku að sem tók að sér fimm manna fjölskyldu eins og ekkert væri á meðan verið var að útvega og senda rúðu upp á Akranes.

Dúna naut þess að vera í kringum börn enda hafði hún á yngri árum starfað með börnum. Börnin okkar fóru ekki varhluta af því. Þau fengu að njóta þess að heimsækja Dúnu frænku þar sem hún tók á móti þeim með ómældri hlýju og Nonni lét heldur ekki sitt eftir liggja.

Ekki getum við þó látið hjá líða að minnast á söngrödd hennar elsku frænku okkar. Við fengum snemma að heyra um sönghæfileika hennar og að hennar hefði getað beðið glæstur frami ef hún hefði lagt sönginn fyrir sig. Hún tók virkan þátt í starfi kirkjukórs Akraneskirkju og oftar en ekki söng hún einsöng með kórnum. Hún var ein af uppáhaldssöngkonum móður okkar sem elskaði að hlusta á hana syngja lagið Friðarins Guð eftir Árna Thorsteinsson við texta Guðmundar Guðmundssonar. Finnst okkur við hæfi að fá að kveðja Dúnu með þessum dásamlega fallega friðartexta:

Friðarins Guð, hin hæsta hugsjón mín,

höndunum lyfti ég í bæn til þín.

Kraftarins faðir, kraftaverkið gjörðu,

gefðu mér dýrðar þinnar sólar sýn.

Sigrandi mætti gæddu ljóðin mín,

sendu mér frið að syngja frið á jörðu.

Elsku Dúna okkar. Við þökkum þér fyrir stundirnar allar og hversu vel þú reyndist okkur og fjölskyldum okkar. Kæru Kristinn, Gunnar Þór, Guðmundur Örn og fjölskyldur. Innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Guð blessi minningu okkar elsku Dúnu.

Guðlaug Helga, Steinunn og Ragnhildur.