Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Starfsemi í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu skapar mikil verðmæti fyrir samfélagið. Skiptir þá engu hvort litið er til beinna eða óbeinna áhrifa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Hörpu sem Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur vann fyrir hönd Rannsóknarseturs skapandi greina. Skýrslan verður kynnt á fundi í Hörpu í dag.
Ágúst Ólafur segir í samtali við Morgunblaðið að skýrslan leiði í ljós að verðmætasköpun Hörpu nemi um tíu milljörðum króna ár hvert. Jafnframt kemur þar fram að bein, óbein og afleidd störf séu um 650 talsins. Þá kemur fram í skýrslunni að um níu milljarðar króna í skatttekjum komi frá starfsemi Hörpu.
„Tilgangurinn með skýrslunni var að greina hið hagræna fótspor starfsemi Hörpu. Við notum þekkta aðferðafærði við greiningu á áhrifum menningarhúsa en þaðan kemur hugtakið Hörpu-áhrif þar sem í þessum heimi eru þekkt svokölluðu Bilbao-áhrif og Hamborgar-áhrif sem er vísun í þessar borgir sem eru með öflug menningarhús,“ segir Ágúst Ólafur.
„Verðmætasköpunin eða virðisaukinn er sá efnahagslegi ávinningur sem starfsemin skapar. Hagræn áhrif Hörpu eru mun umfangsmeiri en það sem birtist eingöngu í ársreikningi Hörpu. Virðisauki Hörpu er t.d. um fimm sinnum meiri en rekstrarkostnaður Hörpu. Hin óbeinu störf sem rekja má til Hörpu eru fleiri en öll innlend störf CCP-tölvuleikjafyrirtækisins,“ segir Ágúst.
Ef horft er til óbeinna áhrifa af starfsemi Hörpu á ferðaþjónustuna og fjölda ferðamanna koma áhugaverðar tölur í ljós. Í skýrslunni er gengið út frá því að rúmlega 1% ferðamanna komi til Íslands fyrst og fremst vegna viðburða í Hörpu, um 25.000 manns árið 2023.
„Gróflega áætlað má gera ráð fyrir að tekjur af hverjum ferðamanni séu um 250.000 kr. og því eru tekjur af 25.000 ferðamönnum rúmlega 6 milljarðar kr. Hins vegar ber að hafa í huga að samkvæmt útreikningum KPMG eru tekjur af hverjum ráðstefnugesti hér á landi að meðaltali 2,1 sinni hærri en af meðalferðamanni. Með þeirri nálgun væru tekjurnar af þeim ferðamönnum, sem koma til Íslands fyrst og fremst vegna viðburða í Hörpu, rúmir 12 milljarðar kr. Það eru sannarlega tekjur fyrir þjóðarbúið,“ segir í skýrslunni.
Ágúst Ólafur bendir jafnframt á að Harpa hefur margsannað gildi sitt í vitund þjóðarinnar. „Það kom líka ítrekað fram við gerð þessarar skýrslu hversu margir listamenn og ráðstefnuhaldarar töluðu um lífið „fyrir og eftir Hörpu“. Tækifærin, sérhæfingin og fagmennskan jókst enda yfir 1.400 viðburðir í húsinu. Flestar ef ekki allar ráðstefnur með fleiri en 500 þátttakendum hefðu ekki verið mögulegar án Hörpu. Má þar t.d. nefna Arctic Circle, heimsþing kvenleiðtoga og stórar ráðstefnur heilbrigðisstétta að ógleymdum leiðtogafundi Evrópuráðsins. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur Harpa margborgað sig, fyrir utan hið mikla menningargildi sem hún óneitanlega hefur.“
Stórar ráðstefnur
750 milljónir í aðgangseyri
Árið 2023 voru haldnar 22 ráðstefnur í Hörpu þar sem þátttakendur voru fleiri en 500 talsins. Alls sóttu tæplega 16 þúsund manns þessar fjölmennustu ráðstefnur en þar fyrir utan voru fjölmargar minni ráðstefnur, fundir, málþing og veislur haldnar í Hörpu.
Þeir sem skipuleggja og/eða halda ráðstefnur í Hörpu sjá um að innheimta ráðstefnu- og þátttökugjöld. Gjöldin voru allt að 120.000 kr. á hvern þátttakanda.
„Fyrir árið 2023 má áætla að innheimt gjöld af ráðstefnugestum af hálfu utanaðkomandi viðburða- og ráðstefnuhaldara hafi verið um 750 m.kr. en þá er miðað við að 15.000-17.000 gestir hafi að meðaltali greitt 45.000 kr.,“ segir í skýrslunni.